Hljóðfærið Segulharpa - markaðssetning - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

21.12.2020

Segulharpa er nafn á nýrri tegund hljóðfæris, sem vinnur á mærum hljóðfæra- og raftónlistar. Hljóðfærið er 25 strengja harpa sem hefur verið í þróun undanfarin sex ár, þar af hafa síðastliðin 4 ár verið gerð möguleg fyrir tilstilli Verkefnastyrks frá Tækniþróunarsjóði.

Þar á undan fékk verkefnið 2 ára Frumherjastyrk frá Rannís, en vert er að nefna að Úlfur Hansson fékk Nýsköpunarverðlaun Forseta Íslands fyrir uppgötvanir sínar árið 2013.

Segulharpan er einstök að því leiti að hún myndar tón sinn með sérhönnuðum rafbúnaði sem myndar kraftmikið segulsvið umhverfis hvern og einn streng, og fær þá þannig til að sveiflast. Hljóðfæri af þessu tagi, sem býr í senn yfir akústískum, rafmögnuðum og stafrænum eigindum hefur ekki verið markaðsett fyrr en nú, enda er áhuginn mikill. Hljóðfærið er mikilvæg viðbót við þá gríðarlegu flóru nýrra hljóðfæra sem hafa orðið til á undanförnum áratug í kjölfar tæknibyltinga á sviði smátölva og snjallsíma, án þess þó að vera í beinni samkeppni við önnur álíka spennandi og farsæl verkefni.

Verkefnistímabil verkefnisins hefur nú liðið undir lok, og hefur kynningarefni fyrir hljóðfærið verið þróað og gefið út opinberlega. Þar má telja stutt heimildarmynd um virkni og heimspekina kringum hönnun hljóðfærisins, leiðbeiningarbæklingur fyrir kaupendur, heimasíða með öllum upplýsingum fyrir áhugasama ásamt tóndæmum teknum upp í Figureight Studios í Brooklyn. Að auki var gerður

samningur við breska fyrirtækið Spitfire Audio um að gefa út rafræna „sýndar“ útgáfu af hljóðfærinu svo þeir sem ekki geta fjárfest í Segulhörpu geta þá fest kaup á rafrænni útgáfu sem hermir eftir virkni hljóðfærisins og keyrir í hvaða nútíma hljóðvinnsluumhverfi sem er.

Segulharpan er nú að fullu tilbúin til fjöldaframleiðslu, og stefnt er að því að tvöfalda sölu á hljóðfærinu á næsta ári, 2021. Einnig er í bígerð að ákveðnir þættir tækninnar sem liggur að baki virkni hljóðfærisins verði gerðir aðgengilegir hverjum þeim sem kynnu að hafa áhuga á að hanna eigin hljóðfæri útfrá tækni Segulhörpunnar, og getur tæknin og þekkingin sem skapast hefur fyrir tilstilli verkefnisins þá nýst öðrum við frekari nýsköpun.

Nánari upplýsingar um verkefni: https://ulfurhansson.com/Magnetic-Harp-Segulharpa

HEITI VERKEFNIS: Hljóðfærið Segulharpa - markaðssetning

Verkefnisstjóri: Úlfur Hansson

Styrkþegi: Ýlfur ehf.

Tegund styrks: Markaðsstyrkur

Fjöldi styrkára: 1

Fjárhæð styrks: 10.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica