IntelliGent Oceanographically-based short-term fishery FORecastIng applicaTions (GOFORIT) – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

29.10.2018

GOFORIT var að rannsaka möguleikana á því að nýta upplýsingar um umhverfisþætti og líffræðilega ferla mikilvægra svifdýra til þess að styrkja veiðispár á skammlífum uppsjávarfiskum

Veiðar á skammlífum uppsjávarfiskitegundum eiga það til að breytast milli ára vegna breytilegra umhverfisþátta (hiti, selta, fæðuframboð) sem áhrif hafa á eða ákvarða til um nýliðun. Eitt megin markmiðið með evrópska samstarfsverkefninu GOFORIT var að rannsaka möguleikana á því að nýta upplýsingar um umhverfisþætti og líffræðilega ferla mikilvægra svifdýra til þess að styrkja veiðispár á skammlífum uppsjávarfiskum. Íslenskir þátttakendur í verkefninu beindu kastljósi að loðnu en aðrir þátttakendur rannsökuðu sandsíli, ansjósu og brisling. Tiltæk gögn um loðnu (stofnstærð, stærð hrygningarstofns, afli, nýliðun, lirfufjöldi, lengd, þyngd, fituinnihald), umhverfisgögn (hiti, selta) og upplýsingar um fæðudýr (lífmassi, tegundasamsetning) yfir um 35 ára tímabil (1980-2015) voru fengin úr gagnagrunni Hafrannsóknastofnunar. Margvísleg sambönd milli líffræðilegra þátta loðnustofnsins annars vegar og umhverfis og dýrasvifsgagna hins vegar voru síðan skoðuð og metin tölfræðilega. Af 13 samböndum sem skoðuð voru og tengdust nýliðun voru aðeins 5 tölfræðilega marktæk. Tengslin voru hins vegar mjög veik og því ekki talið unnt að nýta þau til þess að spá fyrir um veiðar. Þessi niðurstaða leiddi til þess að ákveðið var að skoða frekar áhrif umhverfisþátta á langtímabreytingar hjá megin fæðudýrum loðnunnar, þ.e. svifkrabbadýrunum rauðátu (Calanus finmarchicus) og pólátu (C. hyperboreus). Þar kom fram að hitastig var sá umhverfisþáttur sem mestu réð um stofnstærðarbreytingar hjá báðum tegundum en áhrifin voru með ólíkum hætti. Hjá rauðátu (sem er hlýsjávartegund) jókst lífmassi með auknum hita en hjá pólátu (sem er kaldsjávartegund) minnkaði hann. Að auki hafði bæði selta og þörungagróður marktæk áhrif á lífmassa rauðátu á fæðuslóð loðnunnar fyrir norðan. Hjá báðum tegundum voru miklar sveiflur í fjölda milli ára og eins kom fram hjá rauðátu leitni til aukningar á úthafssvæðum við landið frá lokum 10. áratugar þessarar aldar. Jákvætt samband milli fæðudýranna og hrygningarstofns loðnu bendir til að framboð fæðu/dýrasvifs geti verið takmarkandi þáttur. Þetta kynni að hafa áhrif á framleiðni loðnustofnsins en hvort það yrði til minnkunar eða stækkunar er ekki unnt að segja til um. Rannsóknir eins og hér er greint frá eru nauðsynlegar til þess að öðlast aukinn skilning á áhrifum umhverfisþátta og fæðudýra á vistfræði og líklega þróun loðnustofnsins. Samfara stofnstærðarmælingum á loðnu er mikilvægt að stunda rannsóknir sem miða að auknum skilning á vistfræðilegum ferlum í sjónum. Einungis að fengnum slíkum skilningi verður unnt að gera marktækar veiðispár sem taka mið af umhverfisskilyrðum og ástandi fæðustofnanna.

Heiti verkefnis: IntelliGent Oceanographically-based short-term fishery FORecastIng applicaTions (GOFORIT)
Verkefnisstjóri: Ólafur S. Ástþórsson
Þátttakendur: Hafrannsóknastofnun/Marine and Freshwater Research Institute
Tegund styrks: COFASP
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 9 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 1412-0914

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica