Landeldi á Evrópuhumri - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.11.2015

Ný tækni hefur verið að ryðja sér til rúms í landeldi og þekking verið að aukast á því sviði. 

Tilraunaeldi á Evrópuhumri (Homarus gammarus) hefur nú staðið yfir í  eitt og hálft ár hérlendis. Evrópuhumar er eitt dýrasta sjávarfang sem  fyrirfinnst, humarstofnar eru víða á niðurleið en eftirspurnin á  mörkuðum eykst stöðugt. Á sama tíma hefur ný tækni verið að ryðja sér til  rúms í landeldi og þekking verið að aukast á því sviði. Það eru því nýir  möguleikar á að koma upp landeldi á Evrópuhumri sem ekki hafa verið  mögulegir áður.  Humarinn var fluttur inn frá National Lobster Hatchery  í Padstow á Englandi og frá Hafrannsóknastofnuninni í Noregi.  Verkefnið sem unnið er að hérlendis gengur út á að ala humarinn til  manneldis. Humarinn stækkar við hver hamskipti, en þá skiptir humarinn  alfarið um ytri skel sína.

Heiti verkefnis. Landeldi á Evrópuhumri (Homarus gammarus)
Verkefnisstjóri: Ragnheiður Þórarinsdóttir, Svinna-verkfræði ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2013-2014
Fjárhæð styrks: 14 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131763-061

  VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkefnið  var unnið á vegum Svinna-verkfræði  ehf. í samstarfi við Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði,  Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum, Náttúrustofu  Suðvesturlands og Sæbýli á Eyrarbakka. Auk þess tengist verkefnið  norrænu samstarfsverkefni sem unnið er í samstarfi við Norwegian lobster  farm í Noregi og DTU-Aqua í Danmörku.  Á verkefnistímanum var byggt upp formlegt alþjóðlegt tengslanet  sem nefnist European Lobster Centre of Excellence (ELCE) sem miðar að  því að auka þekkingu á Evrópuhumri og miðla henni milli þátttakenda.  Þrjár ráðstefnur hafa verið haldnar á vegum ELCE samstarfsins, í  Englandi 2013, Skotlandi 2014 og Noregi 2015. Næsta ráðstefna verður á  vormánuðum 2016 í Svíþjóð. 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica