Hástyrktir bremsuklossar í bíla - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

23.3.2015

Niðurstöður verkefnisins voru þær helstar að sérstyrkta seigjárnið sýndi mikinn slitstyrk í öllum prófunum.

 Verkefnið Hástyrktir bremsuklossar í bíla naut þriggja ára stuðnings Tækniþróunarsjóðs. Verkefnið var unnið undir MATERA-samstarfsneti Evrópubandalagsins og voru samstarfsaðilar frá Póllandi, Slóveníu og Luxemburg.

Heiti verkefnis: Hástyrktir bremsuklossar í bíla - SINACERDI
Verkefnisstjóri. Ingólfur Þorbjörnsson, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur, MATERA
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 18 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 10-0755

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Innan verkefnisins var hlutverk íslensku aðilanna að hanna og þróa sérstyrkt seigjárn sem gæti nýst sem efni í bremsuklossa stærri sportbíla og mótorhjóla og þannig komið í stað keramískra efna sem nýtt eru í dag. Eiginleikar sérstyrkta seigjárnsins eru mjög góðir sliteiginleikar samhliða hárri hitaleiðni en báðir þessir kostir eru ákjósanlegir í bremsuklossa. Keramísku efnin hafa gott slitþol en mjög lága hitaleiðni. Auk þessa er sérstyrkt seigjárn talsvert ódýrara en keramík. Samstarfsaðilar okkar í Póllandi unnu við þróun keramískra samsetninga, Lippman-stofnunin í Luxemburg sá um efnisgreiningar, Tækniháskólinn í Ljubljana um prófanir á slitþoli í rannsóknastofu og fyrirtækið MS-Production í Bled, Slóveníu, um raunprófanir á efnunum. 

Sérstyrkta seigjárnið er afurð rannsókna og þróunarstarfs Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Málmsteypu Þorgríms Jónssonar ehf. Efnið er íslensk hönnun og hefur innan verkefnisins þegar verið sótt um einkaleyfi á efninu auk þess sem vörumerki hefur verið hannað og verndað hérlendis sem og á helstu mörkuðum erlendis. Niðurstöður verkefnisins voru þær helstar að sérstyrkta seigjárnið sýndi mikinn slitstyrk í öllum prófunum og hærri en samanburðarefni úr málmum og keramískum samsetningum. Efnið sýndi einnig mjög stöðugan viðnámsstuðul óháðan hita sem er nauðsynlegt til notkunar í bremsuklossa. Við verkefnislok er búið að prófa efnið í stóru mótorhjóli en sökum mistaka hjá fyrirtækinu í Slóveníu var efnið ekki prófað á réttan hátt og hefur staðið til að endurtaka þær prófanir. Niðurstöður þeirra prófana liggja ekki fyrir nú þegar verkefninu lýkur.

Afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  • Einkaleyfisumsókn: PCT/|S201 4/050008 – Burðarefni í styrkt járn. Umsóknin hefur þegar verið metin hæf í erlendu mati.
  • Völundur – Þáttur Ara T. Guðmundssonar um verkefnið 2014.
  • Ritrýnd grein með samstarfsaðilum í Luxemburg í vinnslu.
  • Tvær greinar í vinnslu með samstarfsaðilum í Slóveníu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica