CytoCam E!10045 – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

28.1.2020

Tilgangurinn var að þróa ódýra og virka vöru sem hægt væri að markaðssetja til kjúklingafóðursframleiðenda (og/eða kjúklingaræktenda) og draga þannig úr heilsufarsvandamálum sem tengjast kampýlóbakteríu og hugsanlega öðrum sjúkdómsvaldandi örverum. 

Eurostars-logoMatareitrun vegna kampýlóbakteríu úr kjúklingum er alvarlegt vandamál víða um heim og skv. tölum frá breska matvælaeftirlitinu má áætla að ár hvert megi rekja 80 dauðsföll og 15.000 sjúkrahúsinnlagnir í Bretlandi til matareitrunar af völdum kampýlóbakteríu úr kjúklingi með tilheyrandi kostnaði upp á um 120 milljarða króna árlega. Þrátt fyrir að þrýstingur frá yfirvöldum aukist sífellt, hefur reynst erfitt að finna ódýra, einfalda og hagkvæma lausn á þessu vandamáli. Árlega framleiðsla á kjúklingum í EU er nálægt 10 milljónum tonna og markaðsvirði þeirra er um 24 milljarðar evra. Að meðaltali eru um 70% af kjúklingum í EU sýktir af kampýlóbakteríu og besta leiðin fyrir neytandann til að komast hjá smiti er að forðast krossmengun í eldhúsinu og að fullelda kjúklinginn. ORF Líftækni er leiðandi í framleiðslu sérvirkra próteina í fræjum erfðabreyttra byggplanta sem opnar möguleika á þróun á einfaldri og ódýrri vöru sem inniheldur virkt prótein fyrir t.d. dýrafóður. ORF hefur búið til erfðabreytt bygg sem framleiðir ákveðið markprótein sem getur dregið marktækt úr fjölgun kampýlóbakteríu í kjúklingum ef því er bætt út í fóður þeirra. Fyrstu niðurstöður úr fóðurtilraunum sýndu 1000-falda lækkun í fjölda kampýlóbakteríu borið saman við viðmiðunarhóp. Markmið verkefnisins var að þróa áfram þetta fóðurbætiefni, prófa önnur markprótein sem gætu skilað samskonar eða betri niðurstöðum, prófa mismunandi styrki á fóðurbætiefninu, mismunandi tímalengd fóðurgjafa með fóðurbæti og mismunandi aðferðir til íblöndunar í fóður. Tilgangurinn var að þróa ódýra og virka vöru sem hægt væri að markaðssetja til kjúklingafóðursframleiðenda (og/eða kjúklingaræktenda) og draga þannig úr heilsufarsvandamálum sem tengjast kampýlóbakteríu og hugsanlega öðrum sjúkdómsvaldandi örverum.

Meginniðurstaðan úr verkefninu er að það er hægt að draga marktækt úr fjölgun kampýlóbakteríu í meltingarvegi kjúklinga með því að blanda fóðurbætiefninu út í venjulegt kjúklingafóður. Niðurstöðurnar voru háðar tilraunauppsetningu og aðferð við blöndun fóðurbætiefnisins við fóðrið. Mjög athyglisvert er að það kom fram marktækur munur á fjölda kampýlóbakteríu jákvæðra fugla sem og fjölda kampýló-baktería í meltingarvegi kjúklinga þegar nýju markpróteini var blandað saman við fóðrið í einungis eina viku (viku 6), síðustu vikuna áður en kjúklingarnir voru aflífaðir. Jafnframt mældist marktækt minna magn ammóníaks í saur þeirra samanborið við viðmiðunarhóp. Þessar niðurstöður benda til að hugsanlega væri hægt að þróa vöru sem væri gefin kjúklingum einungis síðustu vikuna fyrir slátrun. Þetta gerir vöruna einfaldari og um leið verður auðveldara að halda kostnaðaráhrifum á framleiðsluna í lágmarki sem er mjög mikilvægt í þessum geira því kjúklingar eru ódýrir, samkeppnin mikil og markaðurinn viðkvæmur fyrir íþyngjandi kostnaði.

Niðurstöður verkefnisins voru kynntar fyrir fóðurframleiðendum og viðkomandi yfirvöldum sem allir sýndu mikinn áhuga en ljóst er að frekari þróunarvinnu er þörf til að geta komið fram með fóðurbæti sem dregur alltaf marktækt úr fjölda kampýlóbakteríu. Jafnframt vöktu áhrifin á losun ammóníaks mikla athygli því hár styrkur þess er mikið vandamál og hefur áhrif á heilsu kjúklingana sem og starfsmanna búsins. Verið er að kanna einkaleyfahæfi þessara niðurstaðna og einnig er stefnt að því að taka saman helstu niðurstöðurnar og birta í ritrýndu tímariti.

Þessu til viðbótar var unnið að lokaþróun á tveimur vörum sem samstarfsaðilarnir sinntu. DTU lauk við þróun á hraðvirkri greiningaraðferð, MetaKit, til að greina m.a. kampýlóbakteríu í saur kjúklinga. HUGIN lauk við þróun á reiknilíkani sem sýnir ávinning þess að draga úr kampýlóbakteríu í kjúklingum. Reiknilíkanið var hannað sem smáforrit (app) á notendavænu formi fyrir t.d. kjúklingabændur.

Heiti verkefnis: CytoCam - Eurostars E!10045
Verkefnisstjóri: Jón Már Björnsson
Styrkþegi: ORF Líftækni
Tegund styrks: Eurostars-2
Fjöldi styrkára: 3
Fjárhæð styrks: 45 millj. kr. allsEurostars-funding bodies

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica