Kæling afla með ískrapa um borð í smábátum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnissjórans.

29.3.2017

Thor Ice hefur þróað vélarnar fyrir smábáta á undanförnum árum og náð verulegum árangri í að gera þær umhverfisvænni hvað varðar orkusparnað og orkunotkun. Vélarnar eru í dag með riðastýrðum kælipressum og með electrónískum þenslulokum. 

Thor Ice hefur þróað vélarnar fyrir smábáta á undanförnum árum og náð verulegum árangri í að gera þær umhverfisvænni hvað varðar orkusparnað og orkunotkun. Vélarnar eru í dag með riðastýrðum kælipressum og með electrónískum þenslulokum. Bæði þessi atriði gera það að verkum að hægt er að framleiða ískrapa með mun minni orku en áður hefur þekkst og stjórna afköstum vélanna m.t.t. þess hvenær þörf er á ískrapanum. Vélarnar eru allar fáanlegar með fjarþjónustu, þar sem hægt er að stilla, yfirfara og bilanagreina vélarnar yfir netið og veita eins mikla þjónustu og hægt er án þess að þurfa að heimsækja viðskiptavininn. Þetta er mikilvægt atriði til þess að lágmarka kostnað fyrir viðskiptavininn. Fjarþjónustubúnaðurinn er jafnframt notaður til þess að skrá hitastig í lest og í einstökum fiskum og er hægt að fylgjast með hitaferlinu um borð frá landi sé þess óskað, eða vista hitaferilinn um borð. Myndin sýnir nýjustu S-400 vélina með riðastýringu, fjarþjónustu og electrónískum þensluloka sem er nýjasta og fullkomnasta útgáfa smábátavélarinnar.

Heiti verkefnis: Kæling afla með ískrapa um borð í smábátum
Verkefnisstjóri: Sæmundur Elíasson, Matís ohf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrktímabil: 2 ár
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 13169506

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Frétt sem birtist fyrst í tímaritinu Sóknarfæri í sjávarútvegi:

Ískrapavél fyrir smábáta í sjónmáli 

„Verkefnið felst í að þróa krapavél fyrir smábáta og má segja að við séum þarna aðallega að horfa til minnstu bátanna og handfæraveiða. Markmiðið er að bæta gæði afla frá smábátum og hámarka skilaverð en mælingar hafa sýnt að á kælingarmálunum er allur gangur. Sumir standa mjög vel að kælingunni en þess eru líka dæmi að afli sé að koma í land ókældur,“ segir Sæmundur Elíasson, verkefnastjóri hjá Matís sem vinnur að verkefni um kælingu afla í smábátum með ískrapa. Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóð Rannís en ásamt Matís standa að verkefninu fyrirtækið Thor Ice, sem sérhæft hefur sig í smíði vélbúnaðar til framleiðslu á ískrapa, Háskóli Íslands, Landssamband smábátaeigenda og Valdi ehf.

Tæknin ekki vandamál

Þorsteinn Ingi Víglundsson, framkvæmdastjóri Thor Ice, segir fyrirtækið hafa þróað vélbúnað sem auðvelt sé að nota um borð í smábátum. Tæknilega sé því ekki vandkvæðum bundið að stíga þetta skref í smábátaflotanum. „Stóra atriðið er að smábátasjómenn sjái sér hag í því að fá þennan búnað um borð í bátana. Ávinningurinn þarf að koma fram í hærra verði fyrir rétt og vel kælt hráefni á mörkuðunum. Verð á búnaðinum skiptir auðvitað líka máli en ég held að krapanotkun muni almennt aukast í bátaflotanum á næstu árum. Við höfum fengið mikla þekkingu út úr þessu samstarfsverkefni og höfum áhuga á að bjóða í sumar á nokkrum stöðum upp á ískrapa til prufu fyrir smábátasjómenn og að þeir kynnist því þannig af eigin raun hvernig þessi kæling kemur út,“ segir Þorsteinn.

Nýtt verklag nauðsynlegt

Sæmundur segir að verkefnið skili meiri þekkingu á áhrifum mismunandi kælingar á hold og dauðastirðnun fisks en jafnframt meiri þekkingu og skilningi á orkunotkun mismunandi kælingar með ískrapa og flöguís. „Annars vegar er um að ræða hentugan vélbúnað fyrir bátana til að framleiða ískrapann og hins vegar endurbætur á verklagi um borð í bátunum til að árangur verði sem bestur. Það tekur m.a. til blóðgunartímans og fleiri þátta í vinnulagi og meðferð en það er mjög mikilvægt að auka þekkingu á meðhöndlun á fiski og kælingu hráefnisins í þeim tilgangi að lækka hlutfalls þess afla smábáta sem telst ónýtur vegna lélegrar eða jafnvel engrar kælingar. Betri kæling mun skila ávinningi bæði fyrir sjómenn og framleiðendur sem vinna úr þessu hráefni,“ segir Sæmundur.

Fyrirferðarlítill búnaður

Krapavélin sem um ræðir er mjög fyrirferðarlítil, að sögn Sæmundar. Sem viðmið nefnir hann umfang á borð við tvær skjalatöskur. Vélina má bæði keyra á rafmagni bátsins og landrafmagni. „Vélin er laus og þannig er hægt að taka hana í land en við sjáum fyrir okkur að fyrir hvern smábátaróður sé búið að framleiða ákveðið magn af ískrapa í ker í lest og sem næst því magni sem þarf í róðurinn. Úti á sjó er síðan bætt við krapann eftir því sem á þarf að halda. Það hráefni sem nær fullri kælingu áður en landað er að kvöldi á að vera komið nálægt mínus einni gráðu. Ískrapinn hefur mikla kosti í kælingu á fiski og það er líka mikilvægt að geta viðhaldið krapanum og bætt við með vélinni úti á sjó yfir daginn. Við vonumst til að lausnir úr verkefninu komi til með að gagnast smábátaútgerðum áður en langt um líður,“ segir Sæmundur.

 Afrakstur:

  • V0: Verklag fyrir kælingu og mælingar makríls
  • V1: Samanburður mismunandi aðferða með vökvaís
  • V2: Greinargerð um tilraunir á sjó 2013
  • V3: Þróun ískrapavélar fyrir smábáta
  • V4: Tilraunir Bolungarvík
  • V5: Kæliferlar heils þorsks
  • V6: Hitastigsmælingar, eftirlit
  • V7: Ískrapavél Thor-Ice


 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica