Lyfjanæmi blóðkrabbameinsfrumna - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

3.3.2016

Markmið verkefnisins var að þróa næmari og áreiðanlegri lyfjanæmispróf með því að beita frumuflæðisjá, í samstarfi við Landspítala Háskólasjúkrahús. 

ValaMed ehf. var stofnað í þeim tilgangi að framkvæma og þróa lyfjanæmispróf á krabbameinsfrumum frá einstaklingum sem eiga að undirgangast krabbameinslyfjameðferð. Tilgangurinn er að gera lyfjameðferðina hnitmiðaðri og tryggja að lyfjavalið sé einstaklingsbundið, sé þess kostur. Það er bæði sjúklingum til hagsbóta og getur leitt til umtalsverðs sparnaðar.

Heiti verkefnis: Lyfjanæmi blóðkrabbameinsfrumna
Verkefnisstjóri: Finnbogi Rútur Þormóðsson, ValaMed ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur í markáætlun um betri lausnir fyrir minna fé
Styrkár: 2
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110754-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið verkefnisins var að þróa næmari og áreiðanlegri lyfjanæmispróf með því að beita frumuflæðisjá, í samstarfi við Landspítala Háskólasjúkrahús (LSH).  Það er gert í þeim tilgangi að auka næmni aðferðarinnar og stytta greiningartímann.  Með aukinni næmni er hægt að greina smærri sýni og þannig stuðla að innleiðingu lyfjanæmisprófanna sem óaðskiljanlegs hluta af krabbameinslyfjameðferð innan íslenska heilbrigðiskerfisins.  Á þessu stigi er aðferðin bundin við fljótandi krabbameinsfrumur, svo sem blóðkrabbameinsfrumur og krabbameinsfrumur í uppsöfnuðum kviðarholsvökva sjúklinga.  Vonast er til þess að þessi aðferðafræði komi einnig til með að nýtast við greiningu á frumum sem losaðar hafa verið úr æxlisvef.

Helstu vísinda- og tæknilegu óvissuþættir verkefnis voru hvort frumuflæðisjá skilaði betra lyfjanæmisprófi með aukinni næmni og styttri mælitíma.  Niðurstaðan var sú að betri næmni náðist, en þó undir upphaflegum væntingum, og unnt var að fá niðurstöðu á mun skemmri tíma, sérstaklega í þeim tilfellum þar sem krabbameinsfrumurnar voru yfirgnæfandi í sýninu eða auðgreinanlegar í flæðisjánni.  ValaMed vinnur með íslenskum læknum og erlendum samstarfsmönnum við samstarfsverkefni þar sem mælingar á lyfjanæmi, með okkar aðferð, verður notuð með upplýsingum um óeðlilega genatjáningu æxlisfrumnanna til að skapa nýja og hentugri gerð lyfjanæmisprófa, sem nýtast betur og eru líklegri til almennari notkunar.

Listi yfir afrakstur verkefnisins 

 • Leyfi Vísindasiðanefndar til rannsókna á lyfjanæmi hvítblæðis, brjóstakrabbameins og eggjastokkakrabbameins.
 • Aðferðir til lyfjanæmisprófana með frumuflæðisjá.
 • Samningur um rannsóknarsamstarf við LSH.
 • Samstarf við tvö erlend fyrirtæki um samstarf ásamt sameiginlegri EUROSTAR umsókn.
 • Rannsóknarhópur um rannsóknir og þróun lyfjanæmisprófana í örrása kerfi.
 • Rannsóknarsamstarf um rannsóknir á briskrabbameini við fyrirtæki og lækna í Bandaríkjunum.
 • Eftirtalin rannsóknarverkefni voru unnin samhliða þessu verkefni:
 • Bjarki Sigurðsson. Áhrif astaxanthins á lyfjanæmi U-87 heilaæxlisfrumna. Ritgerð vegna verkefnis styrktu af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Leiðbeinendur Finnbogi Rútur Þormóðsson og Helgi Sigurðsson. Sept. 2014.
 • Arna Bragadóttir. Lyfjanæmi á krabbameinsstungusýnum. Ritgerð vegna verkefnis styrktu af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Leiðbeinendur Finnbogi Rútur Þormóðsson, Helgi Sigurðsson og Kristján Skúli Ásgeirsson, skurðlæknir. Sept. 2014.
 • Arna Bragadóttir. Lifun brjóstakrabbameinsfrumna úr grófnálasýnum – Tengsl við lyfjanæmisprófanir. Lokaverkefni til B.S. – gráðu við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinendur Helgi Sigurðsson, Finnbogi Rútur Þormóðsson, Bjarni Agnarsson, meinafræðingur, og Páll H. Möller, skurðlæknir. Júní 2015.
 • Sæmundur Rögnvaldsson, Finnbogi R. Thormodsson, Eirikur Jonsson, Helgi Sigurdsson, and Thorarinn E. Sveinsson. The effects of Terbinafine on cancer cells from prostate gland. Handrit í vinnslu.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica