Ævintýri - Hótel í Hallormsstað - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði

6.5.2013

Ævintýri - Hótel í Hallormsstaðarskógi fékk verkefnisstyrk til þess að fara í vöruþróun og markaðsrannsóknir.

Markmiðið með þessari vinnu var að renna styrkari stoðum undir hugmyndina sem liggur á bak við vistvænt hótel. Vinnunni er ætlað að nýtast til að laða fjárfesta að borðinu með því að gefa þeim tryggari undirbyggingu og þar af leiðandi minni áhættu af fjárfestingu sinni. Framkvæmd og undirbúningur verkefnisins verður hugsanlega dýrari en ef um "venjulegt" hótel væri að ræða og því er mikilvægt að sína fram á að fjárfestingin geti staðið undir sér og að þessir þættir skipti máli.

Heiti verkefnis: Ævintýri - Hótel í Hallormsstað
Verkefnisstjóri: Magnfríður Ólöf Pétursdóttir, Hálogalandi ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 15,4 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís. 101297

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Ætlunin er að byggja upp vistvænt lúxushótel á Austurlandi og hefur vinna síðustu ára miðast að því að greina hversu langt á að ganga í þeirri aðferðafræði og hvaða vottunarkerfi eru nauðsynleg fyrir slíka uppbyggingu.

Með markaðskönnunum voru fengin svör við spurningum um hvort markaður sé fyrir vistvænt hótel og vistvæna ferðaþjónustu. Við hverju búast neytendur og hefur vistvænt hótel samkeppnisforskot á önnur hótel?

Umhverfisvæn ferðaþjónusta hefur aldrei verið brýnni en nú á Íslandi vegna aukins ágangs ferðamanna á náttúru landsins. Það hefur komið í ljós að þekktar umhverfisvottanir skipta miklu máli ef á að fara í framkvæmdir og kynna hótel og ferðaþjónustu sem umhverfisvæna, vistvæna og sjálfbæra. Það þarf að velja þekkt og traust vottunarkerfi ásamt því að sýna með skýrum hætti fram á ávinning þess að kaupa þjónustu af viðkomandi fyrirtæki.

Niðurstöður þessa verkefnis verða hafðar að leiðarljósi við áframhaldandi vöruþróun. Þær hafa styrkt eigendur verkefnisins í þeirri trú að það sé raunhæft að ráðast í byggingu vistvæns og sjálfbærs hótels á Austurlandi og að slík ferðaþjónusta eigi að vera stunduð á Íslandi í mun meira mæli. Rannsóknir benda til þess að eftirspurn eftir vistvænum möguleikum aukist jafnt og þétt á næstu árum og nú þegar er þessi hugsun farin að hafa áhrif á hvaða staði fólk velur sér til að heimsækja. Fyrirtækið Austurför var stofnað útfrá þessu verkefni. Austurför er ferðaskrifstofa með það markmið í huga að sameina krafta heimamanna og setja saman heildstæða vöru í formi afþreyingar og koma henna á markaðinn. Fyrirtækið var einnig stofnað með það í huga að fjölga ferðamönnum á Austurlandi, fá þá sem þegar koma á svæðið til að staldra við í lengri tíma.

Á þessum þremur árum sem hafa farið í þetta verkefni hefur orðið til skýrari stefna vegna uppbyggingar vistvæns hótels og ferðaþjónustu á Fljótsdalshéraði. Nú hefur verið tekin ákvörðun um vottunarkerfi fyrir hótelið og er áætlað að Austurför fari einnig í gegnum slíkt vottunarferli. Ætlunin er að vera meðal þeirra fremstu þegar kemur að umhverfisvænni nálgun og sýna fram á að það er hægt að reka arðbært hótel á vistvænan og sjálfbæran hátt og það skiptir einnig máli fyrir ferðaskrifstofur að taka umhverfismál föstum tökum.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit. 

  • Markaðsrannsókn fyrir "Ævintýri", hótel í Hallormsstaðarskógi unnin af Sölva Guðmundssyni sem BSc-ritgerð í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. 
  • Ferðaskrifstofan Austurför sem er staðsett á Egilsstöðum. Dagsferðapakkar, lengri dvalarpakkar, viðburðir á borð við Tour de Ormurinn - hjólreiðakeppni í kringum Lagarfljótið, Bjartur - víðavangsrathlaup í Jökuldalsheiði, það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og fleira hefur verið skipulagt á verkefnistímanum.
  • Heimasíða Austurfarar og ný sölusíða sem verður tilbúin í maí 2013.
  • Austurför hefur verið kynnt á ferðakaupstefnum og á fundum innan ferðaþjónustunnar á Austurlandi.
  • Bæklingur með ferðum Austurfarar 2012 - 2013.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica