Marsýn – Upplýsingakerfi fyrir sæfarendur í Norður-Atlantshafi - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

30.4.2015

Markmiðið var að þróa kerfi sem spáir fyrir um ástand sjávar, svo sem ölduhæð, hitastig, strauma, lagskiptingu og útbreiðslu fiskistofna.

Þörf fyrir réttar upplýsingar um ástand sjávar hefur farið stigvaxandi með auknum kostnaði við útgerð og umferð á sjó. Hver klukkustund sem fer í að leita að fisk eða réttum aðstæðum til togveiða getur kostað allt að 100-200 þúsund krónur.  Til að mæta þessari þörf var stefnt að því að þróa og markaðssetja upplýsingakerfi fyrir sæfarendur sem spáir fyrir um ástand sjávar, svo sem ölduhæð, hitastig, strauma, lagskiptingu og útbreiðslu fiskistofna. 

Heiti verkefnis: Marsýn – Upplýsingakerfi fyrir sæfarendur í Norður-Atlantshafi
Verkefnisstjóri: Guðrún Marteinsdóttir, Marsýn ehf. / Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 29 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110655-061 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI. 

Lokið er fyrstu stigum í þróun þessa upplýsingakerfis. Sjá má niðurstöður og 7 daga spár um öldur og alla helstu eðlisþætti sjávar á www.marsyn .is. Upplýsingakerfið tekur inn gögn frá öðrum líkönum og gervitunglum og notar þessi gögn til að leiðrétta skekkjur. Upplausn þessa kerfis er óvenju há, eða 1 km lárétt og 2,5 m lóðrétt. Kerfið hefur verið sannprófað að hluta og kemur það vel út á flestum svæðum og dýpum.

Einnig hefur verið unnið við að þróa fiskleitartæki sem nýtir sögulega útbreiðslu fiskstofna í tengslum við umhverfisþætti til að spá fyrir um líkleg veiðisvæði. Lokið er fyrstu stigum í spáferli fyrir makríl sem byggir á upplýsingum frá gervihnöttum og veiðistaðsetningum makríls á árunum 2007-2012. Þessi sambönd voru notuð til að spá fyrir um líkleg veiðisvæði makríls sumarið 2014.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit:

2 birtar greinar, 2 handrit, 1 MS-ritgerð og fjöldi veggspjalda og erinda









Þetta vefsvæði byggir á Eplica