Frá grænum haga í fiskimaga - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

6.8.2015

Markmið verkefnisins var að lækka kostnað á fóðri í fiskeldi með því að finna og þróa ný hráefni til fóðurgerðar.

Fiskeldi vex í heiminum og er gert ráð fyrir að það aukist um 23 milljón tonn til ársins 2020. Fóður til fiskeldis er 50-70% af rekstrarkostnaði og kemur að mestu leyti úr jurta- eða dýraríkinu en gengið er á takmarkaðar auðlindir.  Fóðurþörf í fiskeldi landa á norðurslóðum stefnir í 1.716 þúsund tonn á ári. Reikna má með að verðmæti fóðurs sem nýtt er til fiskeldis í dag (verðlag 2014) í þessum löndum sé um 338 milljarðar og spár ganga út á 377 milljarða eftir nokkur ár. Framleiðsla íslenskra fyrirtækja á fiskimjöli eru kringum 80 þúsund tonn á ári og um 50 þúsund tonn af lýsi (www.hagstofan.is ).

Heiti verkefnis: Frá grænum haga í fiskimaga
Verkefnisstjóri: Stefanía K. Karlsdóttir, Matorku ehf,
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 26,69 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110317-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Nýnæmið er að brjóta upp hefðbundna fóðurgerð með því að finna, þróa og framleiða ný hráefni, byggð á nýrri hugmyndafræði og tækni, sem leiða munu til lækkunar fóðurkostnaðar. Nýta á hráefni sem eru vannýtt eða jafnvel ekki nýtt í dag og þróa nýjar framleiðsluaðferðir. Horft er til bættrar nýtingar á auðlindum og verðmætum, allt frá lífrænum úrgangi sem hefur jafnvel verið urðaður hingað til og til þróunar á nýjum ræktunarmöguleikum á hráefnum til fóðurs og framleiðslu. Tæknilegt nýnæmi felst í því að nýta endurnýjanlega orku og jarðvarma til að framleiða fóðurhráefni sem nýtist til framleiðslu matvæla.
Helstu niðurstöður verkefnisins er að vel er hægt að nýta hin ýmsu hráefni til fóðurgerðar. Má þar nefna púpur hermannaflugunnar, smáþörunga, hrat frá bruggverksmiðjum, þang/þara og sveppamassa. Mikilvægt er að magn hráefnis sé nægjanlegt til að hægt sé að nýta það sem stöðugt fóðurhráefni. Af þeim fóðurhráefnum sem þykja mest spennandi er framleiðsla á púpum hermannaflugunnar og ræktun smáþörunga.
Ávinningur verkefnisins er sá að tækifæri felast í því að nýta ákjósanlegar aðstæður á Íslandi til ræktunar og framleiðslu fóðurhráefna. Þó að ný fóðurhráefni verði mögulega nýtt í litlum mæli í fóður er þó um gífurlegar háar fjárhæðir að ræða. Öll viðleitni að nýjum fóðurhráefnum mun skila sér í efnahagslegum ávinningi bæði fyrir atvinnugreinina og þjóðarbúið því flest öll fóðurhráefni eru flutt inn nema fiskimjöl og lýsi.

Afrakstur verkefnisins

Helsti afrakstur verkefnisins er meiri og dýpri þekking á nýtingu nýrra fóðurhráefna til fóðurgerðar. Það eru möguleikar á að framleiða fóðurhráefni og hafa nú þegar komið fram ný verkefni sem eru framhald þessa verkefnis t.d. framleiðsla á púpum hermannaflugunnar og ræktun smáþörunga. Einnig hefur verið myndað tengslanet við erlenda sérfræðinga og aðila innan tæknigeirans varðandi framhald á þróun og vinnu við ný fóðurhráefni.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica