Ný framleiðslutækni við gerð sveigjanlegra hitaveituröra - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

11.12.2015

Markmiðið með þessu verkefni var að mæta kröfum um lægra einangrunargildi og auka sveigjanleika hitaveituröranna. 

Set ehf. á sér langa sögu á lagnamarkaði á Íslandi. Fyrirtækið hefur verið tengt hitaveituröraframleiðslu síðan árið 1978.  Fyrst í einangruðum stálpípum 6-12 m að lengd og frá 20 til 300 mm að þvermáli.

Upprunalega framleiðsluaðstöðu hönnuðu frumkvöðlar fyrirtækisins í samvinnu við þýsk fyrirtæki sem voru fremst á sviði einangrunartækni þess tíma. 

Heiti verkefnis: Ný framleiðslutækni við gerð sveigjanlegra hitaveituröra.
Verkefnisstjóri: Valdimar Hjaltason, Seti ehf.
Styrktegund: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2014
Fjárhæð styrks: 25 millj. kr. alls

Tilvísunarnúmer Rannís: 131598-061  

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI. 

Eftir þriggja ára vöruþróunarferli, tækjasmíði og tilraunir hófst framleiðsla á foreinangruðum sveigjanlegum PEX-rörum árið 2006. Rörin hlutu fljótlega söluheitið Elipex.  Set hannaði þá línu í samvinnu við aðila sem komið hafði að uppsetningu þeirra lína sem til voru í heiminum á þeim tíma. Keyptar voru vélar frá fleiri fyrirtækjum inn í samstæðuna og Set smíðaði hluta búnaðarins, einkum upprúllunar- og geymslukefli.  Markmiðið með þessu verkefni nú er að mæta kröfum um lægra einangrunargildi og auka  sveigjanleika röranna.  Með öðrum orðum að gera góða vöru enn betri og samkeppnishæfari, því með árunum hafa þessi gildi orðið ráðandi í samanburði á þessum vörum frá helstu framleiðendum.

Einangrunargildið sem Elipexið hafði var 0,0255 W/°K og var opinbert gildi samkeppnisaðila ýmist lægra eða svipað.  Sveigjanleikinn hefur ekki mælieiningu skv. staðli en bugðuð eða riffluð rör hafa nokkra yfirburði umfram slétt rör sérstaklega í sverari gerðum.  Með þessu verkefni voru sett þau markmið að koma Elipex Premium-rörinu í fremstu röð sambærilegrar vöru á markaði.  Forhönnuð var vél fyrir eina stærð til að láta reyna á möguleika nýju framleiðslulínunnar. Fljótlega náðist árangur með þessari fyrstu frumgerð og má sjá að mælt varmagildi frá IMA var 0,0225 W/m°K sem er með því besta sem þessi prófunarstofa hefur mælt.  Niðurstaða úr öldrunarprófi var birt í Janúar á þessu ári 0,0254W/m°K.  Sú prófun á að segja til um varmagildi eftir u.þ.b. 30 ár. 

Næsti fasi í ferlinu er að gera rörin bylgjótt að utan og ná fram meiri sveigjanleika.  Náðst hefur árangur sem er mælanlegur í útliti við upprúllun, þ.e.a.s. efnið lítur betur út en eldri gerðin eftir að búið er að rúlla þeim upp í neytendarúllur. Ljóst er að halda verður áfram að vinna að  útfærslunni og er sú vinna í fullum gangi í samstarfi við erlendan aðila sem sérhæfir sig í smíði mótunarvéla fyrir aðrar gerðir plaströra. Þetta verkefni hefur gert Set kleift að taka skref í þá átt að sú lína verði að veruleika.

Sú vara sem afhent er viðskiptavinum í dag hefur þetta nýja varmagildi og er nú þegar búið að framleiða u.þ.b. 120.000 metra með nýju aðferðinni. Stefnt er að því að bylgjað rör komi á markað seint á á árinu 2016. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins

  1. Skýrsla frá IMA skammtímapróf: Prüfberichts-Nr.: B697/13
  2. Skýrsla frá IMA langtímapróf: Prüfberichts-Nr.: B430/14.2
  3. Samanburðuarprófanir á vörum fyrir Danska hitaveitusambandið:Præroskontrol 2014, Niels Winther, Teknologisk Institut.
  4.   Upp í vindinn 2015, bls. 48.








Þetta vefsvæði byggir á Eplica