Nýjar blóðflögulausnir til frumurækta – verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

31.7.2019

Í þessu verkefni voru þróaðar blóðflögulausnir sem styðja við vöxt og sérhæfingu MSC fruma og annarra frumagerða. Lausnirnar eru gerðar heparín fríar og smithreinsaðar með nýrri tækni sem þróaðist í verkefninu.


Markmið verkefnisins var tvíþætt; að útbúa frumgerðir af mismunandi blóðflögulausnum sem innihalda ekki storkuvara annars vegar (R-PIPL) og lausnir sem henta til að rækta ónæmisfrumur hinsvegar (T-PIPL/PILA). Áhersla var lögð á þróun á afurðum sem hægt er að framleiða með stöðluðum hætti og henta til notkunar í vefjaverkfræði. Mesenkímal stofnfrumur (MSCs) eru alltaf að verða mikilvægari í sambandi við endurnýjandi frumumeðferð, sérstaklega þegar kemur að viðgerðum á beinum og brjóski. Þetta er vegna sérhæfingarmöguleika þeirra í bein-, brjósk- og fitufrumur. Til þess að hægt sé að rækta stofnfrumur in vitro þarf að bæta við frumuætið bætiefni sem inniheldur vaxtarþætti, efnatoga, frumuboðefni og önnur lífefni. Fyrri rannsóknir hafa sýnt fram á að hægt sé að nota mennsk blóðflögulýsöt (hPL) sem bætiefni í frumuræktirnar. Hinsvegar þarf að bæta storkuvara við hPL til að koma í veg fyrir fibrín myndun, en slíkt getur dregið úr lifun og fjölgun frumna. Í þessu verkefni voru þróaðar blóðflögulausnir sem styðja við vöxt og sérhæfingu MSC fruma og annarra frumagerða. Lausnirnar eru gerðar heparín fríar og smithreinsaðar með nýrri tækni sem þróaðist í verkefninu. Niðurstöðurnar sýna fram á gagnsemi þessarar tækni, sem leiðir af sér blóðflögulausnir sem eru sambærilegar eða betri en fyrri lausnir. Þessi tækni er liður í því að gera frumumeðferðir öruggari á heimsvísu og getur leitt af sér mikinn ávinning fyrir vísindarannsóknir og heilbrigðisþjónustu.

Heiti verkefnis: Nýjar blóðflögulausnir til frumurækta
Verkefnisstjóri: Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch
Styrkþegi: Platome Líftækni ehf.
Tegund styrks: Sproti
Fjöldi styrkára: 2
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica