Ræktun fóðurskordýra á iðnaðarskala - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

16.9.2016

Fyrirtækið Víur var stofnað snemma árs 2014 til tilraunaræktunar svörtu hermannaflugunnar. Markmið þess hluta þróunarstarfsins sem hlaut styrk Tækniþróunarsjóðs var að þróa tæknilausnir og gera prófanir á ýmsum hráefnum og vinnsluaðferðum.

Víur ehf. loka tilraunaræktun sinni á svörtum hermannaflugum í haust. Verkefnið, hefur með stuðningi Tækniþróunarsjóðs leitt í ljós ýmsa óvissuþætti er snúa að ræktun skordýra til fóðurgerðar og mörgum spurningum svarað. Aðstandendur félagsins telja að ekki sé grundvöllur fyrir frekara þróunarstarf við ræktun skordýra á Íslandi að svo stöddu.

Heiti verkefnis: Ræktun fóðurskordýra á iðnaðarskala
Verkefnisstjóri: Sigríður Gísladóttir, Víum ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2014
Fjárhæð styrks: 6,475 millj. kr
Tilvísunarnúmer Rannís: 142491-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Víur voru stofnaðar snemma árs 2014 til tilraunaræktunar svörtu hermannaflugunnar. Markmið þess hluta þróunarstarfsins sem hlaut styrk Tækniþróunarsjóðs var að þróa tæknilausnir og gera prófanir á ýmsum hráefnum og vinnsluaðferðum.

Úr lirfunum átti að vinna lirfumjöl, prótein- og fituríkt og heilnæmt fyrir eldisfisk. Ekkert fyrirtæki framleiðir skordýraprótein á Íslandi. Kerfisbundin skordýraframleiðsla slítur enn barnsskónum, sérstaklega í Evrópu. Tæknilegar lausnir voru þá lítt þróaðar og nýnæmið því mikið. Helstu verkþættir voru að prófa mismunandi hráefnisstrauma, þróa verkferla og tæknibúnað, og gera tilraunir með vinnsluaðferðir.

Ætlunin var að nýta lífrænt hráefni sem fellur til við matvælavinnslu og landbúnað til að framleiða skordýramjöl. Mjölið yrði síðan notað til íblöndunar í fiskeldisfóður. Tilraunir og prófanir hafa staðið æ síðan með stuðningi innlendra og erlendra styrktarsjóða, meðal annars Tækniþróunarsjóðs.

Sennilega mun skordýraeldi verða arðbært á næstu 5 til 10 árum, meðal annars í ákveðnum tilvikum í Evrópu. Við teljum þó ekki forsendur á Íslandi til hagkvæmrar skordýraræktunar. Ástæðurnar fyrir því eru helstar að þeir líffræðilegu óvissuþættir sem vilji var til að skoða reyndust óhagstæðari en vonir voru um, tæknilegar útfærslur flóknari, lagaumhverfið stirðara, hagkvæmnin ónóg og framtíðarhorfur því slappar.

Margir hafa sýnt nýtingu skordýra áhuga, bæði á Íslandi og víða um heim. Mikil vakning hefur orðið í að nýta skordýr til manneldis. Vonandi er að það haldi áfram þar sem það er sjálfbært og skynsamlegt, en varast ber að líta á skordýr sem töfralausn. Birt verður opinberlega lærdómsskýrsla á íslensku og ensku svo þekkingin sem safnast hefur í verkefninu nýtist sem best til frambúðar.

Aðstandendur, Gylfi Ólafsson og Sigríður Gísladóttir, þakka Tækniþróunarsjóði veittan stuðning. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins:

Enn hafa engar niðurstöður verið birtar úr verkefninu. Eftirfarandi eru rit sem eru í undirbúningi:

  • Meistararitgerð Ryans Ham við Háskólasetur Vestfjarða er á lokametrunum. Ryan rannsakaði vaxtarhraða við ýmis skilyrði og leggur áherslu í sínum skrifum á magn Omega-3 fitusýra.
  • Ritrýnd grein er ráðgerð upp úr niðurstöðum Ryans.
  • Seinna í haust verður birt lærdómsskýrsla á íslensku og ensku á vef Vía. Hún verður birt samhliða tilkynningu um niðurlagningu félagsins. Skýrslunni er einkum ætlað að lýsa skuggahliðum þeirrar glansmyndar sem dregin hefur verið upp af framtíðinni í skordýraeldi.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica