Sjálfsafgreiðsluhafnir - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjórans.

4.4.2017

Með hugbúnaðarlausn eTactica getur hafnarstarfsfólk séð yfirlit yfir hvaða skip eru tengd rafmagni hafnarinnar á hverri stundu, hversu mikið rafmagn þau hafa notað, og hvort einhverjar viðvaranir svo sem vegna yfirálags séu virkar. Einnig fær notandi yfirlit yfir notkun á ákveðnum tímabilum.

Um allan heim eru vandamál tengd rafmagnsnotkun skipa á meðan á landlegu stendur. Í gegnum tíðina hefur rafmagn verið framleitt um borð, á sama hátt og gerist er skip heldur til hafs. Slík rafmagnsframleiðsla veldur hinsvegar umtalsverðri mengun og hefur þannig áhrif á bæði loftgæði og hljóðvist í höfn, og jafnvel í nærliggjandi byggð. Hægt er að koma í veg fyrir slíkt með landtengingu rafmagns, og leggja hafnir bæði á Íslandi og víðar um heim síaukna áherslu á notkun slíkra tenginga.

Hinsvegar eru einnig ýmsar áskoranir í tengslum við landtengingar. Þær snúa annars vegar að aðgengi að rafmagni, mælingum á notkun, og þjónustu í kringum það að tengja skipin við rafmagn og svo aftengja við brottför. Hins vegar er yfirálag mikið vandamál á höfnum sem veldur því að það slær ítrekað út auk þess að skemma bæði búnað í eigu hafnanna og búnað um borð í bátunum.

Heiti verkefnis: Sjálfsafgreiðsluhafnir
Verkefnisstjóri: Kristján guðmundsson, eTactica ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2015
Fjárhæð styrks: 15 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153522061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Til að mæta þessum áskorunum hefur eTactica, styrkt af Tækniþróunarsjóði, hannað orkustjórnunarlausn fyrir hafnir. Lausnin samanstendur af mælibúnaði er eTactica hefur áður þróað, og gerir nákvæmt eftirlit og rukkun fyrir neyslu mögulega; stýribúnaði er opnar fyrir tengingar er skip hafa auðkennt sig; og veflægum hugbúnaði er vinnur með gögnin. Þannig getur hafnarstarfsfólk séð yfirlit yfir hvaða skip eru tengd á hverri stundu, hversu mikið rafmagn þau hafa notað, og hvort einhverjar viðvaranir (t.d. vegna yfirálags) séu virkar. Einnig fær notandi yfirlit yfir neyslu yfir ákveðin tímabil, er nýtist við reikningagerð.

Víða um heim hafa hafnir sett sér markmið hvað landtengingar varðar. T.d. samþykkti stjórn Faxaflóahafna að frá og með 1. janúar 2016 skuli öll skip sem liggja við hafnarbakka og geta tekið við rafmagni úr landi tengjast landrafmagni. Með ofanlýstri einföldun á landtengingarferlinu og öryggi þess eru hafnir því komnar í stöðu til að fylgja eftir slíkum markmiðum á skilvirkari hátt. 

Kerfi eTactica hefur nú þegar verið sett upp í Faxaflóahöfnum, og eru kerfisprófanir í gangi þessa dagana. Innan skamms mun uppsetning hefjast í Hafnarfjarðarhöfn. Einnig er eTactica í viðræðum við fjölda hafna, þá sérstaklega á Íslandi og í Noregi.

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica