Skólavogin - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

11.3.2016

Skólavogin hefur einfaldað ytra mat á skólastarfi og fært sveitarfélögum reglulegar og áreiðanlegar upplýsingar um rekstur.

Verkefnið Skólavogin fólst í að fullgera vefþjónustu til sveitarfélaga sem kallast Skólavogin. Þjónustan hefur verið í þróun hjá fyrirtækinu Vísar rannsóknir ehf. í 3 ár í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga með styrk frá Tækniþróunarsjóði.

Heiti verkefnis: Skólavogin
Verkefnisstjóri: Almar Miðvík Halldórsson, Vísar rannsóknir ehf. (áður Skólapúlsinn)
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2014
Fjárhæð styrks: 30 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121488-061
 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI. 

Skólavogin er upplýsinga- og greiningarkerfi fyrir sveitarfélög með lykilupplýsingum um grunn- og leikskóla. Rekstrarupplýsingar skóla eru fluttar inn í kerfið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofu Íslands. Í kerfið eru fluttar inn niðurstöður samræmdra prófa frá Námsmatsstofnun, nú Menntamálastofnun, og niðurstöður viðhorfakannanna Skólapúlsins. Upplýsingar í kerfinu eru uppfærðar árlega. Niðurstöður hvers sveitarfélags eru gerðar aðgengilegar í myndritum og greiningartöflum á aðgangslæstu vefsvæði. 

Markmið með uppbyggingu Skólavogarinnar er að gefa sveitarstjórnum og skólastjórnendum möguleika á að fylgjast kerfisbundið með þróun ýmissa þátta í skólastarfinu. Upplýsingum er safnað inn fyrir hvern skóla fyrir sig. Úr þeim er síðan unnið á samræmdan hátt fyrir hvert sveitarfélag. Vefkerfið sem Skólavogin byggir á gefur viðkomandi aðilum möguleika á að bera niðurstöður hvers árs fyrir sérhvern skóla saman við niðurstöður skólans frá fyrri árum og að bera þær saman við niðurstöður fyrir landið í heild. 

Í dag nýta 23 sveitarfélög Skólavogina, en þau telja yfir 80% landsmanna. Skólavogin hefur einfaldað ytra mat á skólastarfi og fært sveitarfélögum reglulegar og áreiðanlegar upplýsingar um rekstur, námsárangur og viðhorf nemenda, foreldra og starfsfólks með samanburði við önnur sveitarfélög. Gögnin nýtast við markmiðssetningu og stefnumótun í skólastarfi og styðja við samstarf sveitarstjórnenda og skólastjórnenda. 

Afrakstur verkefnisins

  • Afrakstur verkefnisins felst í gagnaveitu sem aðeins viðkomandi sveitarfélag hefur aðgang að.
  • Sveitarfélög hafa nýtt niðurstöðurnar í eigin skýrslugerð en þau gögn eru ekki opinber.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica