Tölvumarkaður fyrir samhliða tölvuveitu - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

11.9.2017

Ávinningur af verkefninu hefur verið verulegur fyrir íslenska vísindamenn sem hafa nýtt sér norrænu HPC-tölvuna. Að auki hefur myndast samfélag vísindamanna sem nýtir sér búnaðinn. Verkefnið hefur gert íslenskum kerfisstjórum HPC kleift að vera í samstarfi við aðra kerfisstjóra á Norðurlöndunum.

Markmið verkefnisins var að þróa frekar dreifða kerfisþjónustu fyrir samhliða tölvur fyrir notendur í nokkrum löndum, að þróa áfram HPC (High Performance Computing) -hýsingu með Natural Free Cooling og að þróa og koma á markaði sem leyfir háskólum og rannsóknastofnunum að kaupa og selja hlutdeild í samhliða reikniafli eða gagnageymslu.

Allnokkur árangur náðist í að fá betri nýtingu tölvuklasans. Í upphafi verkefnisins  2012 var nýtingin að meðaltali 67% en síðan var þróuð aðferð til að auka nýtinguna og mældist þá nýtingin um 94%  í lok fyrsta ársins.  Notendur frá fjórum Norðurlöndum notuðu tölvuklasann og var eftirspurn eftir honum margfalt umfram framboð.

Heiti verkefnis: Tölvumarkaður fyrir samhliða tölvuveitu
Verkefnisstjóri: Ebba Þóra Hvannberg, Háskóla Íslands
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur í markáætlun um betri lausnir fyrir minna fé
Styrkár: 3 ár
Fjárhæð styrks: 30 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110788061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Óháð matsnefnd hefur gefið hýsingu og stjórnun HPC góða umsögn. Meðal niðurstaðna er að hýsing tölvuklasans hjá þriðja aðila, Advania, hafi tekist vel. Í öðru lagi kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að mörg tækifæri liggi í því að hagnýta betur lágt orkuverð og endurnýjanlega orku þegar kemur að því að veita HPC þjónustu.

Gerð var ítarleg þarfagreining fyrir skiptimarkað og 44 þörfum var forgangsraðað. Frumgerð af hugbúnaðinum sem hefur helstu aðgerðir var hönnuð og forrituð. Hugbúnaðurinn leyfir eigendum tölvutíma á HPC-tölvum að bjóða hann út og notendum að gera tilboð í hlut.  Útboðsgjafar, þ.e. handhafar tölvutíma geta verið hvort sem er opinberir eigendur reikniklasa, innviðasjóðir eða einstakir vísindamenn. Tilboðsgjafar geta verið eigendur reikniklasa eða vísindamenn.

Verkefnið hefur verið í norrænni samvinnu á vettvangi Nordic eInfrastructure Collaboration (NeIC hjá Nordforsk) um hvernig best megi deila tölvutíma eða búnaði á milli landa.  Í kjölfarið hófst norrænt samstarfsverkefni um hvernig mætti skiptast á HPC-búnaði og/eða tíma.

Ávinningur verkefnisins hefur verið allmikill fyrir hýsingaraðila HPC, tæknilega og markaðslega. Ávinningur hefur verið verulegur fyrir íslenska vísindamenn sem hafa nýtt sér norrænu HPC-tölvuna. Að auki hefur myndast samfélag vísindamanna sem nýtir sér búnaðinn. Verkefnið hefur gert íslenskum kerfisstjórum HPC kleift að vera í samstarfi við aðra kerfisstjóra á Norðurlöndunum. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins

  • Ásgeir Ögmundarson, Resource usage of the Nordic HPC facilities – Year 2012, 2012
  • Ásgeir Ögmundarson, Resource usage of the Nordic HPC facilities – Year 2013, 2013
  • Ásgeir Ögmundarson, Skiptimarkaður fyrir ofurtölvur, Háskóli Íslands, 2015
  • Ebba Thora Hvannberg, editor, NHPC Self-assessment report, for evaluation by NeIC, 2013
  • Vefsíða NHPC, http://nhpc.hi.is/
Þetta vefsvæði byggir á Eplica