Cities that Sustain Us 3-Sjálfbærar borgir framtíðarinnar 3 - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

22.2.2022

ENVRALYS er fyrirtæki sem á rætur að rekja til Háskólans í Reykjavík og er afsprengi rannsóknar- og þróunarverkefnisins Sjálfbærar borgir framtíðarinnar, sem hófst árið 2014. 

ENVRALYS hefur það að markmiði að tryggja að þeir þættir sem snúa að upplifun fólks á umhverfi sínu séu teknir inn í hönnunar- og skipulagsferla með markvissum hætti, til að stuðla sem best að bættri lýðheilsu og sjálfbærri þróun umhverfis og samfélags til framtíðar. Þetta gerum við með ráðgjöf og þróun á hugbúnaði þar sem gagnvirkt þrívíddarumhverfi er notað til könnunar og rannsókna á upplifun fólks á umhverfi sínu

Logo tækniþróunarsjóðs

Á styrktímabilinu hefur ENVRALYS unnið að frekari þróun og aðlögun tveggja hugbúnaðarlausna, VRTerrain og VRPsychLab. Hið fyrrnefnda smíðar þrívíddarlíkön af raunverulegu umhverfi með því að flétta saman innviða-, skipulags- og landfræðigögnum með sjálfvirkum og skjótum hætti, þannig að úr verður stórt gagnvirkt, hágæða landlíkan. Líkönin hafa þann eiginlega að eftir því að nær er komið jörðu því nákvæmara verða þau og því hentar þau einstaklega vel til rannsókna á 1. persónu-upplifun fólks á umhverfi sínu á jörðu niðri. Mögulegt er að upplifa VRTerrain landlíkön í sýndarveruleika, af tölvuskjám eða gegnum síma.

VRPsychLab er rannsóknarverkfærið okkar og með því er hægt í netviðmóti að búa til, á augabragði, könnun sem sameinar allar helstu tegundir spurninga og áhrifamikla framsetningu á hvers kyns þrívíddarumhverfi, t.d. umhverfi sköpuðu með VRTerrain. Meðan á netkönnunum stendur sýnir hugbúnaðurinn framvindu einstakra þátttakenda í rauntíma, býður upp á tölfræðilega framsetningu og heldur utan um þau gögn er safnast.

Á styrktímabilinu hafa 20 verkefni af ólíkum stærðargráðum verið keyrð í því skyni að sannreyna hugmyndafræði okkar, aðferðafræði og tæknilausnir. Öll verkefnin hafa með einum eða öðrum hætti verið tengd hönnun, mótun og skipulagi umhverfis, sum hafa verið hluti af formlegum ferlum en önnur hafa verið tilraunaverkefni fyrir eða í samvinnu við opinbera aðila og einkaaðila. Almennt má segja að þeirri nálgun og þróun sem ENVRALYS hefur unnið að, sé vel tekið, jafnt af yfirvöldum, hönnuðum, verktökum og almenningi. Sem dæmi er mat á gildi okkar nálgunar 4,6 af 6 mögulegum, byggt á svörum frá yfir 1000 þátttakendum. Þá hafa tæknilausnir okkar staðist þau álagspróf sem þær hafa verið settar í og hafa kannanir sem fela í sér gerð þrívíddarumhverfis, smíði könnunar, gagnaöflun, greiningu og skýrsluskrif, verið framkvæmdar innan þeirra tímamarka sem sett hafa verið, t.d. í lögbundnum hönnunar- og skipulagsferlum.

Sú aðferðafræði og tækni sem ENVRALYS hefur þróað, hefur skapað sterkan grunn sem byggja þarf á til framtíðar, enda nauðsynlegt að vægi sálfræði- og félagsfræðilegra þátta og vísindalegrar nálgunar á þessum sviðum fái aukið rými við hönnun, mótun og skipulag sjálfbærs og manneskjulegs rýmis. Aðferðafræði og tækni ENVRALYS er þróuð til að auka skilning fólks á framlögðum hönnunar- og skipulagstillögum með það að markmiði að spara tíma og fjármuni, skapa aðgengilegri vettvang til umræðu og stuðla að upplýstari ákvarðanatöku. Jafnframt er nálgun ENVRALYS ætlað að safna gögnum um upplifun og viðhorf fólks til fyrirhugaðar uppbyggingar, og þannig auka gæði þeirra verkefna sem unnið er að sem og að bæta, auka og efla þekkingu okkar á samspili fólks og umhverfis.

Sjá: https://www.envalys.is/

HEITI VERKEFNIS: Cities that Sustain Us 3 - Sjálfbærar borgir framtíðarinnar 3

Verkefnisstjóri: Páll Jakob Líndal

Styrkþegi: ENVRALYS

Tegund styrks: Vöxtur

Fjöldi styrkára: 2

Fjárhæð styrks: 50.000.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica