HEATSTORE - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

8.3.2022

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur undanfarin þrjú ár verið þáttakandi í HEATSTORE verkefninu sem styrkt var af Geothermica sjóðnum. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni sem skoðaði varmageymslu neðanjarðar sem tól til þess að mæta breytingum á framboði og eftirspurn eftir orku. 

Alls tóku 24 aðilar frá 9 löndum  þátt í verkefninu. Þeir eru frá Hollandi, Sviss, Þýskalandi, Frakklandi, Danmörku, Íslandi, Belgíu, Portúgal og Spáni og koma frá iðnaði, einkafyrirtækjum og rannsóknar/háskólasamfélaginu. Orkuveita Reykjavíkur (OR) var eini íslenski þáttakandinn í verkefninu og var hlutverk OR innan verkefnisins að framkvæma tvær ferilsrannsóknir (e. case studies) með áherslu á líkanreikninga.Logo tækniþróunarsjóðs

Fyrri rannsókn OR sneri að mögulegri geymslu á árstíðarbundnu umframmagni af upphituðu grunnvatni frá Hengilssvæðinu í jarðhitakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Síaukin eftirspurn eftir heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu gerir það að verkum að mikil áhersla þarf að vera á bætta auðlindanýtingu og ný tækifæri í vinnslu jarðhitasvæðanna okkar. Nýtt hermilíkan af lághitasvæðunum í Mosfellssveit var byggt upp innan verkefnisins og nýtt til þess að herma árstíðarbundna niðurdælingu vatns í kerfið sem ekki hefur verið framkvæmd áður. Auk þess var minna efnafræðilíkan sett upp til þess að kanna áhrif þess að dæla niður vökva með frábrugðna efnasamsetningu frá jarðhitavökva kerfisins. Blöndun þessara tveggja vatnstegunda innan dreifikerfis hitaveitunnar veldur almennt óæskilegum útfellingum. Hermireikningarnir sýndu að niðurdæling umframvatns yfir sumartímann myndi hækka vatnsborð í kerfunum fram að áramótum. Hærra vatnsborð eykur dælugetu úr svæðunum og gerir þau þannig betur í stakk búin til að takast á við skammtímaálag, t.d. vegna kuldakasta. Niðurstaða verkefnisins er að fýsilegasta útfærslan væri beita niðurdælingu samhliða nýtilkominni sumarhvíld lághitasvæða þegar vatni frá Henglinum er tímabundið veitt yfir allt höfuðborgarsvæðið. Mikil óvissa er enn um efnafræðiáhrif niðurdælingar á upphituðu grunnvatni. Verið er að skoða möguleika á að stýra efnasamsetningu upphitaða grunnvatnsins frá Hengilssvæðinu þannig að mögulegt yrði að blanda því vatni við vatn frá lághitasvæðunum án útfellingavandamála. Lagt er til að niðurdæling á lághitasvæðunum verði skoðuð frekar þegar þær niðurstöður liggja fyrir því þannig yrði niðurdælingin áhættuminni. Með þeim hætti gæti niðurdæling umframvarma orðið hluti af blandaðri lausn til að bæta auðlindanýtingu og jafna sveiflur í framboði og eftirspurn eftir heitu vatni. 

Seinni rannsókn OR innan HEATSTORE sneri að hermireikningum á aðstæðum nærri varmagjöfum jarðhitakerfisins í Henglinum en borun djúprar jarðhitaholu á svæðinu er fyrirhuguð á næstu árum innan Iceland Deep Drilling Project. OR vann náið með ETH-Zürich í þessum hluta verkefnisins en þar hafa verið þróuð reiknitól sem geta hermt aðstæður inní og nærri varmagjöfum. Þessi reiknitól voru nýtt innan verkefnisins til þess að skilja betur varmaflæði upp í jarðhitakerfið í Henglinum. Er þetta í fyrsta sinn sem kvikuinnskot hafa verið hermd sérstaklega í vinnslulíkani af Hengilssvæðinu. Innan verkefnisins var jarðhitalíkan OR af Henglinum einnig uppfært og aðlagað til þess að geta hermt hærri hita og þrýsting. Niðurstöður verkefnisins sýna að efri hluti jarðhitakerfisins í Henglinum getur verið hermdur með mörgum mismunandi útfærslum af dýpri varmagjöfum og að mikið er enn óvíst um uppsetingu þeirra. Afurð þessa verkefnis er aðferðir og tól sem hægt verður að uppfæra eftir því sem frekari upplýsingar bætast við um aðstæður neðan við núverandi vinnslusvæði í Henglinum og þessum tólum verður síðan hægt að beita til þess að herma áhrif djúprar nýtingar þegar að henni kemur. Þess má geta að hafið er verkefnið DEEPEN sem er annað Geothermica-verkefni sem gengur útá að öðlast betri skilning á þessum djúpu jarðlögum.

Sjá nánar  https://www.heatstore.eu/national-project-iceland.html

HEITI VERKEFNIS: HEATSTORE

Verkefnisstjóri: Sigrún Tómasdóttir

Styrkþegi: Orkuveita Reykjavíkur

Tegund styrks: Geothermica

Fjöldi styrkára: 3

Fjárhæð styrks: 39.261.000 ISL kr. alls

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica