Ísó efnaframleiðsla - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra.

17.10.2016

Ein helsta niðurstaða verkefnisins er sú að ekkert er því til fyrirstöðu að íslensk fyrirtæki geti verið í farabroddi fyrir rannsóknir og uppbyggingu á vistvænum efnaiðnaði sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Mikilvægur áfangi í þróun vistvæns eldsneytis fyrir dísilvélar.
Rannsóknarverkefninu “Ísó efnaframleiðsla” er nú lokið. Í verkefninu var þróuð aðferð til að draga úr mengun og útblæstri frá dísilvélum og minnka notkun skaðlegra leysiefna í efnaiðnaði. Að baki liggur þriggja ára samvinna Carbon Recycling International (CRI), Efnaferlis og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Ein helsta niðurstaða verkefnisins er sú að ekkert er því til fyrirstöðu að íslensk fyrirtæki geti verið í farabroddi fyrir rannsóknir og uppbyggingu á vistvænum efnaiðnaði sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.

Samstarfsaðilarnir unnu að þróun og prófunum á sérhæfðum efnahvötum og ferli til framleiðslu á vistvænu eldsneyti og efnavöru. Mikilvægir áfangar náðust í þróun á nýstárlegri framleiðsluaðferð fyrir Dímetoxymetan (DMM) sem er eldsneyti sem kemur í staðinn fyrir dísil að hluta eða í heild, en má einnig nýta sem vistvænt leysiefni. Framleiðsluferlið sem þróað var byggir á notkun grænnar orku og endurnýtingu úrgangsefna.

Heiti verkefnis: Ísó efnaframleiðsla
Verkefnisstjóri: Ómar Freyr Sigurbjörnsson, CRI ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131769-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið um aukna notkun á vistvænum orkugjöfum í samgöngum og minni losun gróðurhúsalofttegunda kalla á nýjar lausnir á sviði eldsneytis og bíltækni. Illmögulegt getur reynst að ná markmiðum um minni losun og aukna sjálfbærni á sviði sjóflutninga, farþegaflutninga og þungaflutninga á landi með öðru en fljótandi eldsneyti sem betur nýtir þá innviði og tækni sem fyrir er. Eftirsóknarvert er því að geta framleitt fljótandi eldsneyti með sjálfbærum og hagkvæmum hætti sem hefur áþekka eiginleika og dísill sem er útbreiddasta eldsneytið fyrir bíla og skip í Evrópu.

Frekari þróun á framleiðslu DMM, sem byggir á fyrirliggjandi aðferð sem CRI hefur þróað til framleiðslu á metanóli úr vistvænni orku og koltvísýringi, stuðlar að því að markmið um minni losun geti náðst og skapar ný tækifæri á markaði fyrir umhverfisvæn leysiefni og efnavörur.

Öll helstu markmið rannsóknarverkefnisins náðust og er afraksturinn margþættur. Auk sérhæfðra efnahvata og ferla hefur frekari uppbyggingu átt sér stað á fyrsta flokks rannsóknaraðstöðu fyrir þróunarvinnu af þessum toga. Rannsóknarverkefnið getur reynst mikilvægt skref í vexti nýsköpunarfyrirtækjanna sem hlut eiga í verkefninu, þar sem varan opnar nýja leið inn á stóran og arðbæran markað. 

Næstu skref við þróun tækninnar eru betrumbætur og prófanir á efnahvötum og þróun á ferlinu frá rannsóknarstofu yfir á iðnaðarskala. Að auki verða kannaðir möguleikar á samstarfi við evrópska efnaframleiðendur og að afla styrkja úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins Horizon 2020.

Um samstarfsaðilana:

CRI ehf. - Carbon Recycling International er leiðandi fyrirtæki  í framleiðslu á metanóli úr raforku, vetni og koltvísýringi og býður tækni og búnað sem gerir orku og framleiðslufyrirtækjum kleift að nýta orkustrauma og koltvísýring til að framleiða vistvænt fljótandi eldsneyti. Fyrirtækið á og rekur metanólverksmiðju við Svartsengi, en framleiðslugeta hennar var nýlega aukin í 5 milljón lítra á ári. Hjá fyrirtækinu starfa nú á fimmta tug manns, á Íslandi, í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína.

Efnaferli ehf. er tækni- og verkfræðifyrirtæki sem þróar og útfærir sérhæfðar lausnir á sviði græns og umhverfisvæns framleiðsluiðnaðar. Fyrirtækið hefur öðlast einkaleyfi á sviði framleiðslulausna á lífalkóhólum og glýkólum þar sem aukaafurðir úr lífdísiliðnaði verða nýttar til framleiðslu verðmætra efnaafurða.

Efnis-, líf- og orkutæknideild Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands tekur þátt í rannsóknarverkefnum til að auka þekkingu og færni íslensks samfélags á þeim rannsóknasviðum sem tilgreind eru á hverjum tíma. Deildin vinnur að stöðugri tækniþróun til að koma þekkingu út í atvinnulífið og veitir ráðgjöf  um notkun á tækni.

Listi yfir afrakstur verkefnisins

  1. Þróaðir hafa verið virkir og stöðugir efnahvatar og efnaferli til iðnaðarframleiðslu á virðisaukandi eldsneytisíblöndunarefnum úr metanóli
  2. Sýnt hefur verið fram á að afurðina megi nota til eldsneytisíblöndunar í dísilolíu

Þetta vefsvæði byggir á Eplica