Lífrænn úrgangur til orkuskipta í samgöngum. Heildstæð lausn fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

12.1.2017

Innan verkefnisins hefur verið hrundið af stað þróun á mikilvægum tækninýjungum við umbreytingu lífræns úrgangs í eldsneyti og jarðgerðarefni. 

Lokið er þriggja ára rannsóknarverkefninu Lífrænn úrgangur til orkuskipta í samgögnum: Heildstæð endurvinnslulausn fyrir stór-Reykjavíkursvæðið, sem unnið var í samvinnu Lífdísils ehf, SORPU bs. og Háskóla Íslands. Í verkefninu var stefnt að því að þróa tækni og ferla sem gefa möguleika á því að endurnýta allan lífrænan úrgang sem til fellur á tiltölulega litlu eða meðalstóru þéttbýlissvæði til framleiðslu vistvæns eldsneytis á borð við lífdísil og metangas, auk moltu sem að vissu marki getur leyst af hólmi tilbúinn áburð. Til þess að gera þetta mögulegt voru nýttar afurðir fyrra TÞS-verkefnis undir forystu Lífdísils ehf. (TÞS RAN090915-1804), þar sem þróuð var tækni við lífdísilframleiðslu úr hráefni með mjög breytilega samsetningu, t.d. sláturúrgangsfitu. SORPA bs. hefur á sama tíma unnið að bestun á einangrun á lífrænum þætti heimilisúrgangs með það fyrir augum að hann hentaði til lífdísilframleiðslu í vinnsluferli Lífdísils ehf. og til gasgerðar á vegum SORPU bs. Hefur SORPA þegar ráðið doktorsnema í samvinnu við Háskóla Íslands til að vinna áfram að bestun gasgerðarhlutans í framhaldi af meistaraverkefni hennar við Háskóla Íslands og á vegum SORPU um sama efni.

Heiti verkefnis: Lífrænn úrgangur til orkuskipta í samgöngum. Heildstæð lausn fyrir Stór-Reykjavíkursvæðið
Verkefnisstjóri: Ásgeir Matthíasson, Lífdísli ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2013-2015
Fjárhæð styrks: 37,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 131975-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Öll helstu markmið verkefnisins hafa náðst og afraksturinn er nú þegar umtalsverður. Lífdísill ehf. starfrækir nú forvinnslueiningu í tilraunaskyni á urðunarstað SORPU í Álfsnesi sem framleiðir hráefni til lífdísil- og moltugerðar úr innlendum sláturúrgangi og unnt verður að tengja við gas- og jarðgerðarstöð SORPU þegar hún rís árið 2018. Annar stöðin allt að 8.600 tonnum af sláturúrgangi en áætluð meðalafköst eru um 6.000 tonn sem takmarkast við þörfina fyrir förgun sláturúrgangs á höfuðborgarsvæðinu. Ef að líkum lætur getur framleiðsla lífdísils úr þessu hráefni orðið um 900.000 L á ári og moltuframleiðsla um 7.200 tonn, en í moltuna er einnig nýttur annar lífrænn úrgangur frá fyrirtækjum og heimilum. Í þessu felst að forvinnslustöðin getur samkvæmt áætlun nú þegar dregið úr urðun sem nemur um 10.000 tonnum lífræns úrgangs og mun meira þegar forvinnsla lífræns þáttar heimilisúrgangs hefst, en hann verður nýttur til að stórauka afköst í framleiðslu metaneldsneytis. Lífdísillinn sem til verður í þessu ferli uppfyllir ströngustu gæðakröfur og leggur sitt af mörkum til að dreifingaraðilar geti notað innlenda afurð til að uppfylla auknar kröfur um íblöndun vegna orkuskipta í samgöngum og gildir það sama um væntanlega aukningu metanframleiðslu SORPU.

Innan verkefnisins hefur verið hrundið af stað þróun á mikilvægum tækninýjungum við umbreytingu lífræns úrgangs í eldsneyti og jarðgerðarefni. Er vinna að breiðri einkaleyfisvernd tækninnar og einstakra hluta hennar langt komin í samvinnu við sérfræðiráðgjafa á þessu sviði. Samhliða þeirri þróun er hafin ítarleg greining á aðgengi að alþjóðlegum markaði fyrir slíkar vörur og gefa fyrstu viðbrögð væntanlegra kaupenda góð fyrirheit um árangur í því efni. 

Fleiri innlendir móttökuaðilar lífræns úrgangs en SORPA ein, hafa sýnt þeim lausnum áhuga sem þróaðar voru innan verkefnisins. Eru bundnar vonir við að ávinningurinn þar verði hlutfallslega sambærilegur við það sem er hjá SORPU, bæði í því að minnka kostnað við að forða urðun og í því að auka verðmætasköpun til þess að mæta þeim kostnaði. Er vinna við tilboðsgerð og hönnun á sjálfstæðri forvinnslulausn sem markaðssetja má nánast óbreytta erlendis langt á veg komin í einu tilviki. Binda aðstandendur verkefnisins vonir við að geta litið um öxl að nokkrum árum liðnum og fullyrt að verkefnið hafi markað tímamót í endurnýtingu lífræns úrgangs á Íslandi, stóraukið þátt innlendrar framleiðslu í orkuskiptum á sviði samgangna og flutninga á landi, auk þess að renna stoðum undir öflugt alþjóðlegt nýsköpunarfyrirtæki í endurvinnslutækni. Í þessu felst í senn umhverfislegur og efnahagslegur ávinningur.

Afrakstur verkefnisins

  1. Þróaðar voru tæknilausnir og ferli sem gera mögulegt að forvinna lífrænan úrgang til áframhaldandi vinnslu til eldsneytisframleiðslu og jarðgerðar. Þar er um að ræða aðskilnað próteins og fitu úr sláturúrgangi þar sem fitan er endurnýtt til lífdísilframleiðslu en próteinþátturinn nýttur til framleiðslu á moltu með hátt áburðargildi ásamt margvíslegum öðrum lífrænum úrgangi frá iðnaði og heimilum.
  2. Mikilvæg skref voru stigin í þróun tæknilausnar fyrir útdrátt lífræns þáttar úr heimilisúrgangi til metan- og jarðgerðar í væntanlegri gas- og jarðgerðarstöð SORPU.
  3. Byggð var verksmiðja í iðnaðarskala á urðunarstað SORPU í Álfsnesi sem nýtir tæknina í lið 1 til að meðhöndla allar algengustu tegundir úrgangs frá dýrslátrun á höfuðborgarsvæðinu og hefur umtalsverða umframvinnslugetu miðað við það magn sem nú berst á urðunarstaðinn. Allir þættir vinnsluferlisins hafa verið prófaðir með góðum árangri. Verksmiðjan er arðbær undir flestum líklegum sviðsmyndum um afköst og aðkomu hráefnis.
  4. Viðræður standa yfir um sölu á frumgerð sambærilegrar verksmiðjueiningar til innlends aðila á “turn-key” formi sem henta mun til útflutnings og markaðssetningar erlendis nánast óbreytt.
  5. Vinna við hönnun, einkaleyfisvernd og þróun eininga í tengslum við nýja heildarlausn sem forðar urðun lífræns úrgangs og endurnýtir hann þess í stað til framleiðslu lífræns eldsneytis og áburðarefnis er langt á veg komin.
  6. Markaðsrannsóknir og markhópagreining fyrir vörurnar í lið 5 eru vel á veg komnar.
  7. Öflugur fjárfestingarsjóður hefur bæst í hóp eigenda fyrirtækisins. Í samstarfi við hann stendur yfir mótun og innleiðing framtíðarstefnu sem gerir ráð fyrir sjálfbærri útvistun eininga í daglegum rekstri (verksmiðju) og höfuðáherslu á vöruþróun og alþjóðlega markaðssetningu í krafti nýrrar fjármögnunarlotu snemma árs 2017.

Sú ákvörðun var tekin í ljósi yfirstandandi vinnu við verndun sérþekkingar og hugverkaréttar að birta ekki greinar og skýrslur um einstaka þætti þeirrar tækni sem þróuð hefur verið innan verkefnisins. Það verður gert þegar sú vinna er lengra á veg komin. Gerð hefur verið grein fyrir verkefninu með almennum hætti á ýmsum vettvangi eins og greinir hér að framan.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica