Markaðssetning á Lulla doll á enskumælandi mörkuðum - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

7.7.2017

Hugmyndin að virkni og áhrifum Lúllu-dúkkunnar er byggð á fjölda rannsókna og ráðgjöf frá sérfræðingum á mörgum sviðum tengdum heilbrigði, tækni og hönnun. 

Svefnvandamál ungbarna er algengt vandamál en svefnskerðing getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér bæði fyrir foreldra og börn. Hugmyndin að virkni og áhrifum Lúllu-dúkkunnar er byggð á fjölda rannsókna og ráðgjöf frá sérfræðingum á mörgum sviðum tengdum heilbrigði, tækni og hönnun. Lúlla var í þróun í þrjú ár áður en varan kom fyrst á almennan markað sumarið 2015. en seldist þá upp á þremur mánuðum. Við seinni framleiðslu voru nýttar umsagnir frá notendum til að endurbæta vöruna, en seinni framleiðslan kom á markað síðsumars 2016.

Heiti verkefnis: Markaðssetning á Lulla doll á enskumælandi mörkuðum
Verkefnisstjóri: Eyrún Eggertsdóttir, Róró ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur
Styrkár: 2016
Fjárhæð styrks: 10 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 164074061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

RóRó fékk markaðsstyrk frá Tækniþróunarsjóði til að markaðssetja dúkkuna erlendis, og þá sérstaklega á enskumælandi mörkuðum. Styrkurinn gerði fyrirtækinu kleift að styrkja markaðssetningu sína á enskumælandi mörkuðum. Þegar seinni framleiðslan kom á markað 2016 fór af stað gríðarleg fjölmiðlaumfjöllun og varð hún uppseld um heim allan innan mánaðar. Umfjöllun um dúkkuna birtist m.a. í Today Show NBC, Yahoo, The Herald, The Sun og Dailymail.

Hluta styrksins var varið í að byggja upp vörumerkið, markaðsefni og gera nýja sölu- og upplýsingasíðu sem fór í loftið í ágúst 2016.

Styrkurinn hefur skipt sköpum fyrir vörumerkið í þeim tilgangi að styrkja stöðu sína á völdum mörkuðum, en nú hafa selst um 70 þúsund eintök af Lúllu-dúkkunni og er hún fáanleg í nær 300 verslunum í 15 löndum.

Afrakstur:

  1. Markaðsefni á ensku: Ný sölu- og upplýsingasíða, vörumerkjaleiðarvísir fyrir dreifingaraðila, unnið með bloggurum og ljósmyndurum að stöðugu flæði að nýju myndefni og umfjöllun.
  2. Aukin markaðssetning og sala og stoðir styrktar í Eyjaálfu og Bretlandi í samstarfi við dreifingaraðila: Farið var á fjölda sýninga í Eyjaálfu og markaðsstarf styrkt í Bretlandi með aðstoð PR-þjónustu. Einnig var fjölmiðlaumfjöllun víðtæk, en helstu umfjallanir voru: The Metro (UK), Dailymail ( UK+AUS), The Daily Telegraph (AUS), The Herald (NZ)
  3. Innganga á Bandaríkjamarkað: Farið var á stærstu barnavörusýninguna í Bandaríkjunum (ABC baby & kids expo). Samningar eru í vinnslu við Babies´R Us og Buy Buy Baby. Stærsti hluti sölu af síðu er til Bandaríkjanna. Einnig var mikil fjölmiðlaumfjöllun og þá einna helst umfjöllun í the Today Show, Babble, Pop Sugar, Good Housekeeping og Country living.
  4. Notendakönnun á ánægju og notkun Lulla doll: Víðtæk notendakönnun var gerð meðal notenda dúkkunnar og niðurstöður nýttar í vöruþróun. Könnunin var megin viðfangsefni í meistararitgerð í Markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica