Handtölvugreiðslulausn - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði
Heiti verkefnis: Handtölvugreiðslulausn
Verkefnisstjóri: Þórður Heiðar Þórarinsson, Handpoint ehf., thordur()handpoint.com
Stuðningsþegi: Handpoint ehf.
Verktími: 2 ár
Styrkfjárhæð samtals: 20 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 061220
VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Handpoint ehf. hefur þróða fullbúið handtölvuafgreiðslukerfi fyrir breska markaðinn. Lausnin er afrakstur ríflega þriggja ára þróunarvinnu, sem styrkt hefur verið af Tækniþróunarsjóði, og samstarfs við leiðandi fyrirtæki í greiðslutengdum lausnum á breska markaðinum. Um er að ræða fullbúið afgreiðslukerfi (ePOS system) sem keyrir á handtölvu. Með lausninni er því hægt að afgreiða viðskiptavini og ganga frá greiðslum á svipaðan hátt og gert er á kassa í næstu verslun og fólk þekkir frá hefðbundnum afgreiðslukerfum veitingastaða.
Nýnæmi lausnarinnar felst m.a. í að hún er vottuð til að taka á móti greiðslum með svokölluðum Chip&PIN-kortum en það er nýr staðall í greiðslukortaviðskiptum sem tekinn var upp til að draga úr greiðslukortasvikum. Bretland er fyrsta landið í heiminum sem tekur þennan staðal í notkun en hann verður innleiddur víðs vegar um heim á næstu árum. Lausnin var sú fyrsta á breska markaðinum og þar af leiðandi í heiminum til að hljóta nauðsynlegar vottanir fyrir þennan nýja greiðslukortastaðal.
Þar sem lausnin er fullbúið afgreiðslukerfi (ePOS) sem keyrir á handtölvu þá opnar hún nýja möguleika í hefðbundinni verslun og á veitingastöðum þar sem hægt er að taka niður pantanir og greiðslur með sama tækinu. Miðað við þann áhuga sem lausnin vekur hjá væntanlegum viðskiptavinum er ljóst að þróunin er í þá átt að verslanir munu skipta út hefðbundnum afgreiðslukössum við búðarborð fyrir handtölvur. Rannsóknir bandaríska fyrirtækisins Motorola styðja þessa sýn þar sem þær hafa leitt í ljós að verslunareigendur vilja skipta út allt að 25% af hefðbundnum afgreiðslukössum fyrir handtölvur á næstu árum. Með því spara þeir dýrmætt verslunarpláss, gera starfsmenn verslana sýnilegri fyrir viðskiptavini og auk þess gefur það þeim meiri sveigjanleika því að lítið mál er að bæta við handtölvum til að afgreiða á álagstímum s.s. fyrir jól.
Lausnin hefur þegar verið sett upp hjá þremur þekktum viðskiptavinum sem sýnir fjölhæfni hennar en þeir eru: finnska flugfélagið Finnair, breska verslunarkeðjan The White Company og hið heimsþekkta knattspyrnulið Manchester United. Ljóst er að mikil tækifæri bíða Handpoint ehf. handan við hornið verði rétt haldið á spöðunum enda áhuginn á lausninni á breska markaðinum mikill, bæði hjá meðalstórum sem og stærstu verslunarkeðjum Bretlands.
Listi yfir afrakstur verkefnisins; afurðir ofl.
- Fyrsta handtölvuafgreiðslulausnin í heiminum sem tekur við chip&pin-greiðslukortum
- Allsherjar afgreiðslukerfi á handtölvu sem keyrir óháð vélbúnaði
- Netvætt hönnunarumhverfi sem gerir seljendum og notendum búnaðarins kleift að viðhalda lausninni án forritunarkunnáttu
- Forsíðufrétt í Fréttablaðinu 28. febrúar um uppsetningu á lausninni hjá Manchester United