AutoMAGIC - SjálfVIRKI
Markmið verkefnisins er að þróa fullkomið hugbúnaðarkerfi til sjálfvirkra prófana og meðhöndlunar þeirra gagna sem aflast við keyrslu þeirra.
Hugbúnaðurinn skal keyra á öllum helstu stýrikerfum (s.s. Windows og Linux) og bjóða upp á mikla gagnasöfnun og vinnslu sem nýtast mun við lagfæringar á þeim kerfum sem það er beitt til prófana á.
Kerfið mun styðja helstu gagnagrunnana fyrir varðveislu gagna til auðveldrar samþættingar við þau kerfi sem fyrir eru í tilteknu vinnuumhverfi.
Við göngum út frá þeirri grundvallarforsendu gæðastjórnunar að "með aukinni gæðastjórnun minnkar þróunarkostnaður.1" En umfram þá þumalputtareglu að gæðastjórnun haldist í hendur við velgengni er hugbúnaðurinn þróaður með það í huga að gera fyrirtækjum í upplýsingatækni kleift að framkvæma viðamiklar sjálfvirkar prófanir með fljótlegum skilvikum hætti sem gefur aukið svigrúm til framkvæmda á öðrum tímafrekum en öflugum prófunum svo sem kóðarýni.
Við lítum því ekki aðeins á þessa betrumbættu aðkomu að sjálfvirkum prófunum sem framför í prófunarferli heldur skref til aukins hagræðis í tíma- og vinnustjórnun.
Þegar kostnaðar við prófanir er dreginn frá sparnaði sem hlýst af styttri þróunartíma sést að til verða tekjur fyrir fyrirtæki okkar jafnframt lægri framleiðslukostnaði viðskiptavina okkar2 og eykur þetta samkeppnishæfni íslensks hugbúnaðariðnaðar bæði innanlands sem utanlands.
1. McConnell, Steve, 2004. CODE Complete, 2nd edition, p. 474. Washington, Microsoft Press.
2. Patton, Ron, 2005. Software Testing, second edition, p. 18. USA, Sams Publishing.
Heiti verkefnis: AutoMAGIC - SjálfVIRKI
Verkefnisstjóri: Guðni Ólafsson, Prófsteinn hubúnaðarþróun sf. gudniola()profsteinn.com
Styrkþegi: Prófsteinn hugbúnaðarþróun sf.
Verktími: 1 ár
Styrkur: 5 m. kr.
Umsjónarmaður Rannís: Sigurður Björnsson, sigurdur@rannis.is
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 081211