Útrás birgðastýringar - verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

4.9.2008


Heiti verkefnis: Útrás birgðastýringar
Verkefnisstjóri: Hálfdan Gunnarsson, AGR ehf.
Þátttakendur: AGR Aðgerðagreining ehf., Olíuverslun Íslands hf., AGR Nordic AS. og Traxit Ltd.
Verkefnistími: 2 ár, 2006 og 2007
Styrkfjárhæð samtals: 15 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 061208

VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Í framhaldi að styrk sem AGR-Aðgerðagreining fékk úr Tækniþróunarsjóði árin 2006 og 2007 hefur fyrirtækið þróað hugbúnað sem getur stýrt birgðum í gegnum alla aðfangakeðjuna.

Meginmarkmið verkefnisins var að nýta þá þekkingu og færni sem byggð hefur verið upp í samvinnu AGR og íslenskra notenda þannig að úr yrði öflugt þekkingar- og hugbúnaðarkerfi sem væri markaðshæft á erlendri grundu.  Unnið hefur verið að þessu markmiði með því að framkvæma nokkuð ítarlega könnun á þeim hugbúnaði sem fyrirtækjum í Evrópu stendur til boða í dag og einnig könnun á þörfum fyrirtækja varðandi aðfangastýringu. 

Niðurstöður könnunarinnar sýndu að umtalsverð tækifæri eru til að skapa verðmæti úr þeirri þekkingu sem orðið hefur til í vörustjórnun á Íslandi og að hugbúnaðurinn AGR-Innkaup henti vel sem grunnur fyrir áframhaldandi þróun.  Það kom þó í ljós að það væri nauðsynlegt að bæta við hugbúnaðinn virkni sem hentar fyrir flóknara vöruflæði en hugbúnaðurinn réð við, þ.e. fyrir fyrirtæki sem reka fleiri en eitt vöruhús og verslanir og þurfa þ.a.l. að stýra birgðum vandlega í talsvert flóknu kerfi. 

Með tilliti til niðurstaðna var þróuð frumgerð af hugbúnaðarkerfi sem gerir dreifingar-, smásölu- og framleiðslufyrirtækjum kleift að skipuleggja aðfangaöflun sína.  Lausnin mun aðstoða fyrirtæki við birgðastýringu í gegnum alla aðfangakeðjuna óháð því hvort um er að ræða einn miðlægan lager eða fleiri. Kerfið býður uppá þann möguleika að gera raðpantanir fram í tímann, t.d. til erlendra birgja eða verksmiðja og áætla hráefnaþörf í framleiðslu. Kerfið nýtist einnig við áætlun á eftirspurn og færir kerfið fyrirtækjum grunn sem hægt er að nota til að meta áhrif auglýsingaherferða þar sem tekið er tillit til framtíðartilboða og söluherferða í söluspám.

Verkefnið hefur aukið við þá þekkingu sem þegar var til staðar á birgðafræðilegum vandamálum hérlendis sem og að bæta við umtalsverðri þekkingu á flóknum birgðafræðilegum vandamálum sem fyrirtæki með margar starfsstöðvar glíma við hérlendis og erlendis. Verkefnið hefur einnig opnað ný tengsl og viðskiptasambönd sem leitt hafa til þess að hugbúnaðurinn AGR-Innkaup hefur verið seldur fyrirtækjum í Danmörku, Noregi, Hollandi og Bretlandi.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  • Frumgerð hugbúnaðar sem getur stýrt birgðum í gegnum alla aðfangakeðjuna
  • Reiknirit sem aðstoða fyrirtæki við að gera raðpantanir fram í tímann, t.d. til erlendra birgja eða verksmiðja og áætla hráefnisþörf í framleiðslu

Niðurstöður verkefnisins hafa meða annars verið kynntar á ráðstefnu í Danmörku í október 2007, á ráðstefnu í Hollandi í mars 2008 og AGR var einnig boðið að taka þátt í fundarherferð Microsoft í febrúar 2008 þar sem kerfið var kynnt fyrir endursöluaðilum Mircrosoft í Reading, Manchester og Edinborg 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica