Ensímmeðhöndlun og pæklun á lifur fyrir niðursuðu - forverkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

4.9.2008


Heiti forverkefnis: Ensímmeðhöndlun ogpæklun á lifur fyrir niðursuðu
Verkefnisstjóri: Ásbjörn Jónsson, Matís ohf., asbjorn()matis.is
Þátttakendur: Matís ohf. og Ice-W ehf.
Styrkfjárhæð: 500 þús. kr.
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 071503

FORVERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI

Á Matís er lokið forverkefni sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði Rannís í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-W ehf. Grindavík. Verkefnið fjallaði um ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu. Markmið verkefnisins var að auka arðsemi við niðursuðu á lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða. Því var náð með því að þróa og prófa tækni sem fjarlægir himnu og hringorma af yfirborði lifrar með ensímum. Einnig var þróuð aðferð til pækilsöltunar á lifur fyrir niðursuðu í stað þess að setja salt beint í dósir með hráefninu, eins og gert er í dag.

Niðurstöður verkefnisins lofa góðu þar sem tókst að fækka hringormum í lifur um 80%, og mýkja himnuna verulega. Tilgangurinn með því að fjarlægja eða mýkja himnuna sem umlykur lifrina var sá að fá betri og jafnari skömmtun í dósir og betri nýtingu, auk þeirrar hagræðingar í vinnsluferlinu sem af því hlýst. Hægt er að fækka stöðugildum við hreinsun á lifrinni, ásamt því að auka afköstin um 100%, með þessari aðferð. Fengist hefur styrkur frá AVS til að vinna frekar að þessum málum.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

Afrakstur og ávinningur verkefnisins felst aðallega í  nýrri tækni við fjarlægingu á lifrarhimnu og hringormum, sem leiðir til endurbætts verklags og hagræðingar í vinnslunni. Pækilsöltun á lifur fyrir niðursuðu leiðir af sér betri og jafnari gæði á afurð. Í kjölfarið eykst virðisauki á niðursoðinni lifur sem skapar aukið verðmæti sjávarafurða bæði fyrir fyrirtækið og þjóðina í heild.

Gefin hefur verið út Matísskýrsla nr. 23-08. Er þetta lokuð skýrsla.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica