Lýsi til lyfjaframleiðslu - verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði
Heiti verkefnis: Lýsi til lyfjaframleiðslu
Verkefnisstjóri: Þorsteinn Loftsson, Oculis ehf., thorstlo()hi.is
Þátttakendur: Oculis ehf. og Lýsi hf.
Stuðningstími 3 ár, 2006-2008
Styrkfjárhæð samtals: 30 millj.kr.
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs: 051359
VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að lýsi hefur m.a. bólgueyðandi áhrif og að í sumum tilfellum hafi lýsi bakteríudrepandi áhrif og veiti vörn gegn veirusýkingum. Þessi áhrif eru talin tengjast háu innihaldi lýsis af fjölómettuðu lang-keðja ómega-3-fitusýrum, EPA (eicosapentaenoic-sýru (20:5n-3)) og DHA (docosahexaenoic-sýru (22:6n-3)), en þessar fitusýrur eru flokkaðar sem lífsnauðsynlegar fitusýrur. Margar tegundir eru til af lýsi svo sem þorskalýsi, loðnulýsi, síldarlýsi, túnfisklýsi, háfalýsi og sardínulýsi. Í þessu verkefni var notað þorskalýsi. Þorskalýsi er um 98% þríglýseríðar, þ.e. estar glýseróls og fitusýra, en önnur innihaldsefni eru t.d. A- og D-vítamín. Um 17% fitusýranna eru mettaðar, aðallega palmitínsýra, en um 83% eru ómettaðar fitusýrur svo sem olíusýra, EPA og DHA. Markmið verkefnisins var að vinna þessar fitusýrur úr þorskalýsi og rannsaka líffræðileg áhrif þeirra á t.d. bakteríur og veirur. Einnig voru þróaðar aðferðir til að auka vatnsleysanleika þeirra og efnafræðilegan stöðugleika (þ.e. vernda þær gegn oxun (þránun)). Að lokum var þróuð aðferð til að koma lýsi á duftform sem má nota sem fæðubótarefni og til að framleiða t.d. lýsistöflur í stað lýsishylkja.
Fitusýrublanda var einangruð úr þorskalýsi og framleiðslan stöðluð í samræmi við viðurkennda Evrópustaðla fyrir lyfjaframleiðslu. Fitusýrublandan var síðan notuð til að framleiða lyf. Nú er verið að prófa lyfin á fólki (fasa I rannsóknir). Gert er ráð fyrir að hægt verði að hefja fasa II-rannsóknir (rannsóknir á sjúklingum) á árinu 2009 og fasa III-rannsóknir 2010 til 2011. Ef allt gengur að óskum verða lyfin markaðssett á árinu 2012. Því má bæta við að fitusýrublandan er umhverfisvæn náttúruafurð og mun hún koma í stað lyfja sem innihalda stera, bakteríudrepandi lyf og veirulyf. Öll þessi lyf finnast nú í vaxandi mæli í drykkjarvatni á þéttbýlum svæðum, t.d. í stórborgum Bandaríkjanna, sem og í ám og stöðuvötnum.
Nú þegar hafa rannsóknir okkar á einu af þessu lyfjum sýnt að það hefur læknisfræðileg áhrif á aðra sjúkdóma en þá sem við áttum upphaflega von á. Um er að ræða áður óþekkt áhrif á algengan meltingarsjúkdóm. Nú er unnið að frekari rannsóknum á þessum áhrifum og ef frekari rannsóknir staðfesta fyrri niðurstöður verður til enn eitt nýtt lyf sem unnið er úr lýsi.
Við höfum einnig framleitt lýsisþurrduft, þ.e. breytt olíu í fast efni án þess að breyta efnasamsetningu lýsisins. Þurrduftið eykur stöðugleika lýsisins og ver það gegn þránun. Hægt er að nota lýsisþurrduftið í margvísleg matvæli, lyf og dýrafóður. Meðal annars framleiddum við töflur úr lýsinu sem nota má í stað lýsishylkja.