Eltieining fyrir Gaviu - verkefnislok í Tækniþróunarsjóði
Heiti verkefnis: Eltieining fyrir Gaviu
Verkefnisstjóri: Tómas Þorsteinsson, Hafmynd ehf. (áður Kristjana Kjartansdóttir), tomas()gavia.is
Styrkþegi: Hafmynd ehf.
Styrkfjárhæð: 8,5 millj. kr.
Verkefnistími: 1 ár
Tilvísunarnúmer Tækniþróunarsjóðs : 071313
VERKEFNIÐ VAR STUTT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.
Djúpfarið GAVIA rannsakar leiðslur á hafsbotni
Fyrirtækið Hafmynd hefur síðustu árin hannað og selt djúpfarið Gaviu, sem er lítill, ómannaður, sjálfstýrður kafbátur. Sérstaða Gaviu felst m.a. í því að hún er samsett úr minni einingum þar sem hver eining hefur afmarkað hlutverk. Einnig er Gavia það djúpfar í sínum stærðarflokki sem dýpst getur kafað. Nýjasta viðbótin við Gaviu er eltieining, sem gerir djúpfarinu kleift að finna og elta leiðslur á sjávarbotni. Einingin styrkir markaðsstöðu Gaviu verulega, sérstaklega gagnvart olíufélögum sem stunda reglubundið eftirlit með olíiuleiðslum á sjávarbotni.
Hafmynd fékk, fyrir rúmu ári, styrk frá Tækniþróunarjóði til að þróa eltieiningu fyrir Gaviu. Vekefnið var unnið í samstarfi við breska fyrirtækið SeeByte Ltd og olíurisann BP sem einnig styrkti verkefnið. Seebyte þróar hugbúnaðinn AutoTracker sem er sérstaklega hannaður til þess að finna lagnir í sonar-myndum af hafsbotni. Kerfið vinnur þannig að Gavia stýrir nemum sem taka umræddar myndir og sendir í AutoTracker. AutoTracker reiknar út staðsetningu lagna og reiknar út hvert báturinn skuli stefna til þess að elta lögnina. Gavia tekur við þeim upplýsingum frá AutoTracker og stýrir sér í rétta stefnu.
Í september 2008 mættu fulltrúar SeeByte og BP til Íslands til þess að gera lokaprófanir og sannreyna getu bátsins. Siglingar gengu allar með besta móti og hafa fregnir af því spurst til mögulegra viðskiptavina. Gavia með AutoTracker er aðlaðandi kostur fyrir olíufyrirtæki þar sem lítill sjálfstýrður kafbátur getur sparað fyrirhöfn og miklar fjárhæðir við eftirlit með leiðslum. Það byggir ennfremur undir áhuga olíufélaganna að hún á sér enga jafningja í sínum stærðarflokki hvað varðar sveigjanleika, fjölhæfni og dýptarþol.
Með farsælum lyktum þessa verkefnis má segja að Gavia sé búin að stimpla sig kyrfilega inn sem áhugaverður kostur fyrir olíurisana og þau verktakafyrirtæki sem þjónusta þá. Hafmyndin kann Tækniþróunarsjóði bestu þakkir fyrir stuðninginn sem hefur opnað fyrirtækinu nýjar dyr til sóknar á heimsvísu.
Listi yfir afrakstur verkefnisins
- 1. Skýrsla - Hörður Jóhannesson
- 2. Dagsskýrslur SeeByte í lokaprófunum
- 3. Fréttatilkyning - SeeByte