Hlývatnseldi á hvítfiski - verkefnislok

8.10.2013

Markmið verkefnisins var að koma á fót nýrri atvinnugrein, hlývatnseldi á hvítfiski, með framleiðslu á matfiski til útflutnings. Nýnæmið er fólgið í því að koma upp nýjum atvinnuvegi á Íslandi og nýrri útflutningsgrein sem getur skilað töluverðum gjaldeyristekjum og skapað ný störf, sérstaklega á landsbyggðinni. Í því felst að nýta jarðvarmann og kalda vatnið til uppbyggingar nýrrar matvælastóriðju þar sem lögð er áhersla á framleiðslu gæðaafurða til útflutnings. Tæknilegt nýnæmi er fólgið í því að koma upp arðbæru hlývatnseldi í lokuðu kerfi þar sem jarðhitavatn og kalt vatn er nýtt til framleiðslunnar.

Heiti verkefnis: Hlývatnseldi á hvítfiski
Verkefnisstjóri: Stefanía K. Karlsdóttir, Íslensk matorka ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 23,5 m.kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 101230

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Helstu niðurstöður verkefnisins eru þær að hlývatnseldi á Íslandi er samkeppnishæft við eldi erlendis. Ljóst er að gífurleg tækifæri felast í auknu fiskeldi á Íslandi og ef rétt er á málum haldið er hægt að margfalda framleiðslu í fiskeldi á Íslandi. Hér er nægt magn af köldu og heitu/volgu vatni, raforku á viðunandi verði sem auk þess er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, stutt er á markaði í Evrópu með ferskan fisk og áratuga reynsla og þekking er hérlendis á framleiðslu, flutningi og sölu á hágæða fiskafurðum. 

Ávinningur verkefnisins er að markviss uppskölun á hlývatnseldi hérlendis er hafin. Markaðsmál á hlývatnstegundum eru komin á fullt skrið með beinum samskiptum við markaðsaðila erlendis og innlenda söluaðila. Markaðsvinnan hefur jafnframt leitt í ljós að tækifæri eru fyrir vottaðar afurðir á mörkuðum í Evrópu. Um er að ræða umhverfisvottanir eða jafnvel lífrænt vottaðar afurðir. Aðstæður á Íslandi eru til staðar fyrir framleiðslu á vottuðum afurðum. Verð á hlývatnsfiski á mörkuðum í Evrópu er á breiðu bili og fer verðlagning eftir því hvort fiskur er seldur heill eða í flökum, frystur eða ferskur. Uppruni hráefnis og sérmerkingar hafa áhrif á verð og inn á hvaða markaði er farið með vöruna. Reynslan sýnir að verð á hlývatnstegund frá Íslandi er á svipuðu róli og öðrum eldisfiski frá Íslandi.

Afrakstur:

Helsi afrakstur verkefnisins er meiri og dýpri þekking á nýtingu vatns í fiskeldi og nýtingu jarðvarma til eldis á hlývatnsfiskum. Þekking í formi ráðgjafar hefur orðið útflutningsvara, þar sem margir erlendir aðilar leita ráðgjafar hjá fyrirtækinu. Einnig hefur verið myndað tengslanet við erlenda framleiðendur, markaðsaðila, aðila innan tæknigeirans og rannsóknaraðila.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica