Valorka-hverfillinn - 2. þróunaráfangi - verkefnislok

18.10.2013

Valorka ehf. hefur í nokkurn tíma unnið að verkefnum á sviði sjávarorku. Þetta fyrsta verkefni Íslendinga í tækniþróun á þessu sviði hefur notið stuðnings Tækniþróunarsjóðs; fyrst eins árs frumherjastyrks og síðan þriggja ára verkefnisstyrks. Verkefnið hefur gengið vel; orðið margþætt og það hefur nú þegar markað tímamót í ýmsum skilningi.

Heiti verkefnis: Valorka hverfillinn 2. þróunaráfangi
Verkefnisstjóri: Valdimar Össurarson, Valorku ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2012
Fjárhæð styrks: 20,5 millj kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100610092

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Meginþáttur verkefnisins er þróun hverfils til virkjunar lághraðastraums, s.s. sjávarfalla. Hverfillinn er uppfinning verkefnisstjórans, Valdimars Össurarsonar, og er fyrsti íslenski hverfillinn sem hlotið hefur einkaleyfi. Frá því að verkleg þróun hófst á vegum Valorku, í ársbyrjun 2009, hefur hverfillinn þróast verulega í átt til einföldunar og bættrar nýtingar. Af honum eru nú fimm skilgreindar megingerðir sem allar hafa verið prófaðar í straumkeri með góðum árangri. Auk þess eru fleiri hverfilgerðir á hugmyndastigi sem sumar eru framhald þróunarstarfsins en aðrar sem ætlaðar eru til ólíkra vinnslusviða. Ein tegund ölduvirkjunar er á hugmyndastigi, og er stefnt að samþættingu hennar við sjávarfallahverflana.

Á síðasta ári var smíðuð stærri gerð hverfilsins, til prófunar í sjó. Sjóprófanir eru undanfari þess að smíðuð verði frumgerð í fullri stærð. Í endanlegri gerð verða hverflarnir að öllu leyti undir yfirborði sjávar, en á þessu stigi er hverfillinn prófaður neðan í fljótandi fleka. Flekinn er fyrsta prófunarstöð sjávarfallahverfla hérlendis. Á honum er afl og snúningshraði mældur, auk straumhraðans. Hornafjörður reyndist vel fallinn til þessara prófana, en þar, í Mikleyjarál, er sjávarfallastraumur án truflana frá úthafsbáru; hafnaraðstaða og aðstoð í boði. Sjóprófanir hófust síðsumars 2013, en niðurstöður liggja ekki fyrir.

Prófanir hverfla Valorku í sjó marka þáttaskil í orkusögu Íslendinga, þar sem nú er í fyrsta sinn prófuð sjávarfallavirkjun sem ætluð er til raforkuframleiðslu.

Mikilvægi hverfla Valorku er tvöfalt í þjóðhagslegu tilliti Annars vegar eru þeir nú í fremstu röð sjávarorkutækni á heimsvísu, þar sem þeir eru fyrstir til að fara í sjóprófanir af þeim hverfilgerðum sem hafa vinnslugetu úr hægstraumum við annes þar sem straumhraði er oftast undir 1 m/sek. Slík forysta er mikilvæg í því ljósi hve slíkir straumar eru algengir við strendur víða um heim; orkuvinnsla með þessum aðferðum er án allra umhverfisáhrifa, en ríki heims keppast nú við að auka hlutfall hreinnar orku í heildarorkunotkun sinni. Hér er því um mikla markaðshagsmuni að ræða. Annað gildi hverflanna er ekki síður mikilvægt, en það snýr að nýtingu hinna umfangsmiklu auðlinda sem Íslendingar eiga í formi sjávarfallastrauma við annes. Rannsóknir skortir enn hér á þeirri orku, en með hliðsjón af erlendum rannsóknum má ætla að hér við land sé heildarorka sjávarfallastrauma næst landi um 330 TWst á ári. Það er umhugsunarvert í því ljósi að nýleg rammaáætlun telur okkur nú eiga minna en 20 TWst á ári eftir óvirkjað af nýtanlegri vatnsfalla- og jarðhitaorku.

Valorka vinnur að ýmsum öðrum frumherjaverkefnum á sviði sjávarfallaorku. Má þar nefna gagnasöfnun og fyrstu heildstæðu skýrslur um stöðu sjávarfallaorku; almenna kynningu á þýðingu og stöðu sjávarfallaorku; fræðslu um málefnið í skólum o.fl. Valorka hefur beitt sér fyrir því að stjórnvöld móti sér stefnu í málefnum sjávarfallaorku og að hafnar verði rannsóknir á henni. Það leiddi til þess að lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi. Hún nýtur þverpólitísks stuðnings þó enn sé hún óafgreidd. Þá hefur Valorka unnið að því, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, að hefja rannsóknir á sjávarfallaorku og greina staði sem henta kynnu til fyrstu prófana og nýtingar sjávarfallahverfla.

Valorka stefnir að því að tryggð verði íslensk forysta á þessu mikilvæga sviði nýsköpunar í orkutækni, auk verðmætasköpunar og aukins öryggis í orkuöflun til frambúðar.

Tæknilegur afrakstur:

  • 5 megingerðir nýrra íslenskra hverfla
  • fyrstu einkaleyfishæfu íslensku hverflarnir, en tveir hverflar hafa hlotið einkaleyfi, einn staðist nýnæmi og einn er í umsóknarferli
  • fyrsta íslenska uppfinningin til að hljóta 1. verðlaun International Inventions Awards, sem hverflarnir hlutu árið 2011
  • fyrsta íslenska sjávarfallavirkjunin til að fara í sjóprófanir, en það varð 26. júlí árið 2013
  • smíði fyrstu og einu prófunarstöðvar sjávarfallahverfla á Íslandi, en í henni má prófa ýmsar hverfilgerðir
  • fyrsti hverfill heims til að hefja sjóprófanir, af þeim hverflum sem ætlað er að vinna við minna en 1 m/sek straumhraða

Skýrslur o.fl.

  • fyrstu heildstæðu samantektir hérlendis um stöðu sjávarfallaorku á heimsvísu; ársskýrslur Valorku
  • reiknilíkan fyrir þverstæða sjávarfallahverfla, unnið af Halldóri Pálssyni Ph.D. fyrir Valorku
  • rannsóknir á hegðun þverstæðs hverfilblaðs í straumi, unnið af Vigfúsi Arnari Jósepssyni í samvinnu við Valorku
  • ýmis allmenn kynning í fjölmiðlum og erindum

 

Þetta vefsvæði byggir á Eplica