Rafræn ferðavenjukönnun

Verkefni lokið - fréttatilkynning verkefnisstjóra

18.8.2014

Saga Traffic ehf. hefur þróað aðferð til að framkvæma rafrænar ferðavenjukannanir með notkun snjallsíma.

Fyrirtækið Saga Traffic er nýsköpunarfyrirtæki sem stofnsett var 2010. Fyrirtækið sérhæfir sig í rannsóknum og þróun á umferðartengdri upplýsingamiðlun og nútímatækni við stjórnun umferðar og nýtingu umferðarmannvirkja. Eigendur fyrirtækisins hafa á að skipa sérfræðingum í rafrænum akstursskráningum og umferðarverkfræði. Fyrirtækið er í eigu Verkís hf og Securtias hf.

Samgöngur eru mikilvægur þáttur í nútímasamfélagi til að sækja vinnu, verslun og þjónustu og til að sinna áhugamálum. Mismunandi ferðamátar hafa mismunandi áhrif á umhverfi okkar, borgarbrag, efnahag, heilsu og vellíðan. Í dag er skipting milli mismunandi ferðamáta í miklu ójafnvægi hér á landi. Notkun einkabílsins er ráðandi og hlutdeild almenningssamgangna, gangandi og hjólandi vegfarenda er lítil.

Heiti verkefnis: Rafræn ferðavenjukönnun
Verkefnisstjóri: Haukur Þór Haraldsson, Saga Traffic ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2012
Fjárhæð styrks: 18 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 110373-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Til þess að stuðla að sjálfbærum samgöngum, skipuleggja uppbyggingu umferðarmannvirkja og almenningssamgangna, spá fyrir um ferðir í framtíðinni eða skoða áhrif ákveðinna aðgerða í umferðarmálum er nauðsynlegt að kortleggja ferðavenjur. Það er venjulega gert með ferðavenjukönnunum. Algengt er að sveitarfélög geri ferðavenjukannanir reglulega til að nota sem grunn fyrir skipulag umferðarmannvirkja og almenningssamgangna og til að gera áætlun um aðgerðir til að stuðla að sjálfbærum samgöngum. Einnig er sífellt að verða algengara að fyrirtæki kortleggi ferðavenjur starfsmanna sinna. Það gera þau t.d. í samhengi við grænt bókhald eða innleiðingu samgöngustefnu þar sem markmiðið getur verið að minnka þörf á bílastæðum, fækka sjúkradögum, auka framleiðni, minnka neikvæð umhverfisáhrif o.s.frv. Auk þessa má hugsa sér að upplýsingar um ferðavenjur geti nýst sem grundvöllur ákvarðana í viðskiptum, t.d. hvar verslunum og þjónustu er best valinn staður eða til að svara mikilvægum spurningum sem tengjast orkuskiptum í samgöngutækjum hér á landi, þ.e. skipulag innviða sem til þarf.

Saga Traffic hefur þróað aðferð til að framkvæma rafrænar ferðavenjukannanir með notkun snjallsíma. Í samanburði við hefðbundnar aðferðir er með rafrænum skráningum auðveldara að halda utan um ferðir þátttakenda Skráning á ferðalengd, ferðatíma, leiðavali og ferðahraða verður mun nákvæmari og úrvinnsla gagnanna verður bæði einfaldari og nákvæmari. Aðferðin einfaldar ennfremur skráningarvinnu þátttakenda eins mikið og mögulegt er. Það ásamt aðgengilegu notendaviðmóti gefur góða möguleika á að minnka brottfall til muna.

Hugmyndin hlaut silfurverðlaun í nóvember 2012, Galileo Master – Regional Challenges.

Listi yfir afrakstur verkefnisins:

Þetta vefsvæði byggir á Eplica