SARWeather

Verkefni lokið - fréttatilkynning verkefnisstjóra

11.9.2014

SARWeather-verkefnið, sem leitt var af Belgingi, fólst í að hanna, og markaðssetja, veðurspákerfi sem gerir björgunar- og leitaraðilum kleift að reikna nákvæmar veðurspár hvar og hvenær sem er.

 Þjónusta SARWeather er nú öllum aðgengileg í gegnum vefinn https://www.sarweather.com

Heiti verkefnisins: SARWeather
Verkefnisstjóri: Ólafur Rögnvaldsson, Belgingi, reiknistofu í veðurfræði
Aðrir þátttakendur: DataMarket og GreenQloud
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2011-2013
Fjárhæð styrks: 27 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 1103380261
 

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI. 

SARWeather er hugbúnaðarkerfi sem gerir notendum kleift að reikna mjög nákvæmar veðurspár fyrir hvaða stað sem er á hnettinum. Veðurspárnar eru birtar jafnóðum og þær eru reiknaðar svo notandi þarf ekki að bíða eftir að spáin sé fullkláruð til að sjá fyrstu spágildi. Meðal notenda SARWeather eru Almannavarnir og Neyðarlínan auk þess sem Belgingur er opinber þjónustuaðili fyrir GDACS hamfarakerfi Sameinuðu Þjóðanna og Evrópuráðsins (e. Global Disaster Alerts and Coordination System - http://www.gdacs.org). SARWeather nýtir sér reikniafl á skýjum (t.d. GreenQloud og Amazon EC2), bæði til reikna veðurspárnar og til að birta niðurstöður. Þessi nálgun tryggir mikinn skalanleika og lágmarkar jafnframt grunnkostnað kerfisins.

Sýnt hefur verið fram á að hægt er að bæta hermun á veðri töluvert með því að nýta lóðsniðsmælingar, hvort sem er frá sjálfvirkum flýgildum eða fjarkönnunarbúnaði, inn í spákerfið. Ennfremur er hægt að bæta vinda- og hitaspár á einstaka stöðum m.þ.a. nýta söguleg gögn til að leiðrétta fyrir villuhneigð spálíkansins.

Á síðari stigum verkefnisins hefur augunum ennfremur verið beint að þjónustu við vindorkugeirann, auk björgunar- og leitaraðila. En nákvæmar vindaspár eru mjög mikilvægar til að meta raforkuframleiðslu  einstakra vindlunda. Slíkar vindaspár eru nú reiknaðar fyrir Landsvirkjun og hollenska orkufyrirtækið Eneco Ltd. Auk þessa hefur verið sett upp raforkuspákerfi fyrir vindmyllur Landsvirkjunar á Hafinu norðan Búrfells. Ennfremur er unnið að því að koma upp hugbúnaði til að meta framleiðslutap innan vindlunda sem skapast vegna skjóláhrifa einstakra vindmylla innan lundarins. Með þessu móti verður hægt að staðsetja vindmyllur innan vindlundarins þ.a. orkutap verði sem minnst og raforkuframleiðsla sé hámörkuð.

Áfram verður unnið að því að kynna hugbúnaðarlausnina á erlendri grundu, bæði meðal björgunar- og leitaraðila sem og innan vindorkugeirans og fagstofnana sem bera ábyrgð á vöktun og aðvörunum vegna náttúruvár.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica