Sjálfvirkt ferilvöktunar- og rekjanleikakerfi - verkefni lokið

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

15.10.2014

Controlant ehf. hefur á undanförnum árum þróað þráðlausar lausnir sem henta vel til utanumhalds og eftirlits á verðmætum í ýmsum iðnaði, t.d. við framleiðslu, meðhöndlun og dreifingu lyfja og matvæla. 

 Verkefni Controlant ehf. um þróun á sjálfvirku ferilvöktunar- og rekjanleikakerfi er nú formlega lokið. Controlant ehf. hefur á undanförnum árum þróað þráðlausar lausnir sem henta vel til utanumhalds og eftirlits á verðmætum í ýmsum iðnaði, t.d. við framleiðslu, meðhöndlun og dreifingu lyfja og matvæla. Lausnir fyrirtækisins henta vel hvort sem um er að ræða staðbundið eða í flutningum.  Notendur geta náð fram betri yfirsýn yfir upplýsingar um virðiskeðju sína, t.d. upplýsingar um hita- og rakastig viðkvæmrar vöru og/eða staðsetningar verðmæta.

Heiti verkefnis: Sjálfvirkt ferilvöktunar- og rekjanleikakerfi
Verkefnisstjóri: Erlingur Brynjúlfsson, Controlant ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121438-0611

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið verkefnisins var að fullþróa þráðlaust ferilvöktunar- og rekjanleikakerfi fyrir virðiskeðjur. Í iðnaði er nú ríkari krafa gerð á rekjanleika verðmæta, flutningspakkninga og annars varnings, sem og til gæðamála. Á undanförnum árum hefur Controlant, m.a. með stuðningi Tækniþróunarsjóðs, þróað svokallað ferilvöktunarkerfi til þess að fylgjast með hitastigi matvæla og lyfja, staðbundið sem og í flutningi. Miðlægni upplýsinga, þráðlaus vélbúnaður og aðgengilegt vefviðmót eru meðal þeirra atriða sem gera lausnir Controlant að áhugaverðum og hagkvæmum kosti fyrir notendur. Fyrirtækið getur boðið upp á lausnir sem spanna alla virðiskeðjuna, en með því að bæta við rekjanleikaupplýsingunum hafa notkunarmöguleikar lausnarinnar aukist til muna og skapað fyrirtækinu og samstarfsaðilum þess aukna sérstöðu á markaði. 

Allar áætlanir verkefnisins um afrakstur stóðust. Meðal þess sem telja má sem afrakstur verkefnis er að lausnin er nú orðin hæf til þessa að fylgjast með flutningseiningum og stöðu eininga í dreifikerfi, söfnun rekjanleika- og hitastigsupplýsinga og úrvinnslu úr þeim. Því hefur verið áorkað með þróun á nýjum skynjara sérstaklega til þess gerðum að vera festur inn í flutningseiningar, með þróun á nýju viðmótskerfi og viðbætur við gagnagrunnslausnir og vélbúnaðareiningar. Á verkefnistímanum hefur fjöldi eininga sem búnar eru þessari tækni farið upp í 13.000 sem dreifast víðsvegar um Evrópu. Flestar af einingunum eru nýttar í ker sem framleidd eru af Promens, samstarfsaðila Controlant á þessu sviði, fyrir matvæli og önnur verðmæti.

 

Afrakstur verkefnisins er sýnilegur og mun nýtast fyrirtækinu til framtíðar. Í lok verkefnisins stendur fyrirtækið uppi með kerfi sem nýtist breiðum hópi viðskiptavina víðsvegar um heiminn. Kröfur um rekjanleika og aukin gæði á vörum m.a. til manneldis eru sífellt að aukast og með afrakstri þessa verkefnis mun Controlant verða mun betur í stakk búið til þess að leysa þarfir markaðarins á sviði ferilvöktunar og rekjanleikaskráningar. Þannig má segja að niðurstöðurnar verði nýttar til hagsbóta fyrir sprotafyrirtækið  Controlant og sem afleiðing af þeirri uppbyggingu má nefna sköpun innlendra verðmæta í formi gjaldeyristekna Controlant og samstarfsaðila.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica