Framlegðarstjórinn - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

10.4.2015

Nýtt upplýsingakerfi fyrir fiskiskip og útgerðir.

Undanfarin ár hefur Trackwell þróaði kerfið Afurðastjórann sem heldur utan um afla og afurðir fiskiskipa og tengir þær við upplýsingar sem varða veiðar og ráðstöfun afla.  Trackwell hefur nú, í samstarfi við Matís, HB Granda, Vísi hf og OCI í Kanada þróað viðbót við Afurðastjórann sem nefnist Framlegðarstjórinn.  Í Framlegðarstjóranum er hugað að kostnaðarhlið og framlegð veiðanna.  Verkefnið var unnið með styrk frá Tækniþróunarsjóði og AVS.

Heiti verkefnis: Framlegðarstjórinn
Verkefnisstjóri: Kolbeinn Gunnarsson, Trackwell hf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2012-2013
Fjárhæð styrks: 20 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 121459-061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Framlegð veiða reiknuð og birt jafn óðum
Markmið verkefnisins var að útbúa hugbúnað sem mælir og dregur fram lykilþætti sem hafa áhrif á framlegð veiðiferðarinnar eftir því sem á hana líður.  Sérstaða þessarar lausnar er sú að helstu þættir kostnaðar og tekna eru mældir og skráðir í rauntíma og framlegð reiknuð.  Kerfið heldur utan um einstaka áfanga veiðiferðarinnar (útstím, tog, millistím og heimstím) og sýnir áhrif hvers og eins á heildarframlegðina. Þannig geta skipstjórnarmenn og stjórnendur í landi séð hverju einstakar veiðiaðgerðir skila jafn óðum sem hjálpar þeim að taka betur upplýstar og rökstuddar ákvarðanir um framhald veiðanna.

Olíunotkun er stærsti stýranlegi kostnaðarliðurinn
Í verkefninu var útfærð tenging við sjálfvirk olíumælikerfi skipa þar sem þau eru til staðar.  Þróað var líkan til að meta olíunotkun við mismunandi aðgerðir veiðiferðar og siglingarhraða og áætla t.d. olíunotkun við stím á milli veiðisvæða.  Olíueyðslulíkanið er einnig hugsað fyrir skip sem ekki hafa sjálfvirka olíueyðslumæla.  Í þeim tilvikum er hægt að meta framlegð út frá olíueyðslulíkaninu en skrá inn rauntölur um eyðslu t.d. einu sinni á sólarhring til að kvarða líkanið.  Þetta stækkar markað fyrir vöruna verulega þar sem enn eru tiltölulega fá skip komin með olíumælikerfi sem skila gögnum rafrænt.

Ávinningur
Megin ávinningur af notkun kerfisins felst einkum í olíusparnaði sem fæst með auknu aðhaldi við beitingu skipanna.  Kerfið sýnir fjárhagslegan ávinning einstakra toga í rauntíma og veiðiferðarinnar allrar og hjálpar þar með til við ákvarðanatöku um áframhald veiða. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

  1. Grein í Icelandic Fishing Magazine, may 2014, “Clear Overview and Traceability”.
  2. Frétt á heimasíðu Trackwell og á heimasíðu Matís, maí 2014.
  3. Grein í Fiskifréttum,  16. sept 2014, “Nútíma upplýsingakerfi fyrir útgerðir”.
  4. Grein í Viðskiptablaði Morgunblaðsins, 23. Nov 2014, “Afladagbækur veita verðmæta yfirsýn”.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica