Rafræn einstaklingsmiðuð næringarráðgjöf til barnshafandi kvenna - verkefnislok

Fréttatilkynning verkefnisstjóra

30.11.2017

Niðurstöðurnar benda til þess að hægt sé að nota www.nmb.is - Næring móður og barns til að skima fyrir fæðuvali sem tengist aukinni hættu á kvillum á meðgöngu. Ennfremur benda niðurstöður til þess að einföld rafræn endurgjöf um hollustu fæðunnar gæti skilað sér í bættu fæðuvali barnshafandi kvenna.

Markmið verkefnisins var að þróa rafræna einstaklingsmiðaða næringarráðgjöf til barnshafandi kvenna gegnum heimasíðuna www.nmb.is, Næring móður og barns. Þróunarvinnan sem styrkt var með frumherjastyrk til fyrirtækisins Næring móður og barns ehf. frá Tækniþróunarsjóði var tvíþætt, annars vegar að kanna hvort stutt næringarkönnun NMB gæti spáð fyrir um líkur á kvillum á meðgöngu (verkþáttur I) og hins vegar hvort sú einstaklingsmiðaða endurgjöf sem barnshafandi konur fá í gegnum Næring móður og barns myndi hafa áhrif á fæðuval þeirra á meðgöngu (verkþáttur II). 

Verkþáttur I var unninn í nánu samstarfi við fósturgreiningardeild á kvennadeild Landspítala og Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala. Siðanefnd Landspítala samþykkti rannsóknaáætlunina (21/2015). Barnshafandi konum sem mættu í ómskoðun á göngudeild mæðraverndar og fósturgreiningar á kvennadeild Landspítala við 11.-14. viku meðgöngu á tímabilinu 1. október 2015 til 31. september 2016 var boðin þátttaka í rannsókninni.  Upplýsinga um þyngdaraukningu á meðgöngu auk kvilla á meðgöngu og í fæðingu var aflað úr mæðraskrá. Út frá næringarkönnun NMB má greina áhættustig (risk score) sem tengist auknum líkum á að þyngjast umfram ráðleggingar um hæfilega þyngdaraukningu á meðgöngu og hættu á að eignast þungbura. Aukin hætta á þungburafæðingum samhliða óhollu fæðuvali sást fyrst og fremst meðal kvenna í kjörþyngd. Út frá svörum næringarkönnunar NMB var einnig unnt að greina áhættustig (risk score) sem tengdist auknum líkum á meðgöngusykursýki. Aukin hætta á meðgöngusykursýki með versnandi mataræði (fleiri áhættustigum) virtist vera mjög svipuð hjá konum sem voru í kjörþyngd fyrir meðgöngu og konum sem reyndust vera yfir kjörþyngd. Auk Tækniþróunarsjóðs hefur Rannsóknasjóður Háskóla Íslands og Vísindasjóður Landspítala komið að fjármögnun verkþáttar I.

Heiti verkefnis: Rafræn einstaklingsmiðuð næringarráðgjöf til barnshafandi kvenna
Verkefnisstjóri: Ingibjörg Gunnarsdóttir, Næring móður og barns ehf.
Tegund styrks: Frumherjastyrkur
Styrkár: 2015-2016
Fjárhæð styrks: 13,575 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 153016061

VERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Verkþáttur II var unninn í nánu samstarfi við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri og Rannsóknastofu í næringarfræði. Vísindasiðanefnd samþykkti rannsóknaáætlunina (VSN 15-111). Þátttakendum var slembidreift í tilraunahóp sem fékk aðgang að rafrænni, einstaklingsmiðaðri næringarráðgjöf gegnum vefsíðuna Næring móður og barns og viðmiðunarhóp sem fékk hefðbundið mæðraeftirlit. Munur á fæðuvali tilraunahóps og viðmiðunarhóps var metinn með sólarhrings upprifjunum á mataræði á öðrum (24.-26. viku) og þriðja þriðjungi meðgöngu (35.-38.viku). Næringarfræðingurinn sem tók viðtölin hafði ekki upplýsingar um það hvorum hópnum þátttakendur tilheyrðu. Einstaklingsmiðuð endurgjöf á Næring móður og barns virðist hvetja til hollara fæðuvals, sem lýsti sér einna helst í minni neyslu gosdrykkja á meðgöngunni.

Niðurstöðurnar benda til þess að hægt sé að nota www.nmb.is til að skima fyrir fæðuvali sem tengist aukinni hættu á kvillum á meðgöngu. Ennfremur benda niðurstöður til þess að einföld rafræn endurgjöf um hollustu fæðunnar gæti skilað sér í bættu fæðuvali barnshafandi kvenna. Sýnt hefur verið fram á í fjölmörgum erlendum og innlendum rannsóknum að fæðuval á meðgöngu geti haft umtalsverð áhrif á heilsu móðurinnar sem og vöxt og þroska barnsins allt fram á fullorðinsár.

Afrakstur verkefnisins

Markmiðum verkefnisins og framtíðarsýn er lýst í grein sem birtist í Ljósmæðrablaðinu í júlí 2017. Rannsóknaniðurstöður hafa ekki verið birtar opinberlega ennþá, en verða senda til birtingar á erlendum vettvangi á næstu mánuðum.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica