Skepnusköpun - verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

9.1.2013

Verkefnið fólst í því að hreinsa fiskibein með lífrænum aðferðum og tengdist það útskriftarverkefni Róshildar Jónsdóttur úr hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Markmiðið var að hanna vistvæn leikföng og að fullnýta afurðir eins og forfeður okkar gerðu áður fyrr.

Heiti verkefnis: Skepnusköpun
Verkefnisstjóri: Róshildur Jónsdóttir, Hugdetta ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009
Fjárhæð styrks: 5 millj. kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: RAN090309-0512

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Nú er tæplega þriggja ára vinnuferli lokið við rannsóknir á umhverfisvænni hreinsun höfuðbeina fiska.  Verkefnið fólst í því að hreinsa fiskibein með lífrænum aðferðum. Tilefnið var útskriftarverkefni Róshildar Jónsdóttur úr hönnunardeild Listaháskóla Íslands sem hún nefnir Skepnusköpun. Markmiðið var að hanna vistvæn leikföng og að fullnýta afurðir eins og forfeður okkar gerðu áður fyrr.

Nú hyllir undir að þessi framleiðsla komi á markað í formi leikfanga þar sem ímyndurnaraflið eitt ræður því hver útkoman verður.  Um  er að ræða fiskibein sem hægt er að setja saman og búa til úr hinar ólíklegustu verur og hluti.  Í hverri pakkningu er allt sem til þarf til að skapa furðuverur sem hægt er að leika sér með eða setja saman listaverk sem gleðja augað.

Nú þegar svo mikil áhersla er á endurvinnslu jafnt og nýsköpun, gjaldeyrissparnað og atvinnutækifæri er vonast til að þetta verkefni veki fólk til umhugsunar um gildi þess sem við eigum hér innanlands og að smám saman dragi úr innflutningi á plastdóti sem oft er notað aðeins í stuttan tíma áður en því er hent og annað keypt í staðinn.

Þessi framleiðsla mun koma á markað fyrir jólin og er tilvalin fyrir fjölskyldur sem vilja leika sér saman og skapa eitthvað einstakt til leikja eða gjafa. 

Listi yfir afrakstur verkefnisins: 

Ný aðferð var fundin til lífrænnar hreinsunar fiskibeina.

Fullmótuð framleiðslutækni á stærri skala tilbúin.

Pakkningahönnun lokið og framleiðsuferli tilbúið.

Lím og litir í pakkningu fundin.

Framleiðslufyrirtæki fundið sem einnig útvegar hráefni og sér um pökkun.

Leyfi útflutings fengið og vottun heilbrigðisstofnunar lokið.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica