RM Studio - verkefni lokið í Tækniþróunarsjóði

9.1.2013

Verkefnið fólst í því að halda áfram þróun á hugbúnaðinum RM Studio (Risk Management Studio) í átt að því að gera hugbúnaðinn að heildarlausn til áhættustjórnunar fyrir fyrirtæki og stofnanir sem m.a. þurfa að meta og greina áhættu í rekstri. Verkefnið skiptist í þrjá verkhluta sem unnir voru á þriggja ára styrktímabili og var afrakstur hvers kerfishluta mikilvægur áfangi í þróununni.

Heiti verkefnis: RM Studio
Verkefnisstjóri: Svava Helen Björnsdóttir, Stika efh.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2009-2011
Fjárhæð styrks: 26,5 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: RAN0909174-1849

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Í fyrsta verkhluta var heildarvirkni RM Studio bætt og m.a. þróað sveigjanlegt viðmót til að notendur geti sett ýmsa staðla inn í hugbúnaðinn. Þetta hefur opnað markaðsmöguleika inn í marga atvinnugeira fyrir RM Studio. Gerður var samstarfssamningur við ISO staðlasamtökin um að Stiki megi fella inn ISO-staðla inn í RM Studio gegn greiðslu leyfisgjalda til ISO vegna höfundarréttar.

Í öðrum verkhluta var þróaður nýr kerfishluti í RM Studio, svonenfdur BCM-kerfishluti (Business Continuity Management). Þetta var umfangsmesti verkhluti verkefnisins. Mjög reyndi á þátttöku samstarfsaðila við hönnun, rýni og prófanir á virkni og viðmóti. Verkhlutanum lauk að mestu í byrjun árs 2012 og var þá fyrsta útgáfa BCM-kerfishlutans sett á markað. Þessi útgáfa markaði viss tímamót fyrir RM Studio þar sem að þetta var ný kerfiseining sem þróuð er skv. kröfum ISO 22301. Stofnanir og fyrirtæki sem leitast eftir vottun skv. alþjóðlegum stöðlum, sérstaklega ISO/IEC 27001, hafa nú möguleikann á því að klára stærstan hluta skjölunar í einum og sama hugbúnaðinum, þ.e. áhættumat sem og áætlanir um samfelldan rekstur (oft einnig kallaðar neyðaráætlanir). Þrátt fyrir að BCM-kerfishlutinn hafi verið settur á markað þá telst hann enn ekki fullþróaður og er stefnt að því að bæta virkni enn frekar á komandi árum m.t.t. þarfa viðskiptavina sem eru nú að koma fram.

Í þriðja verkhluta var þróað vefviðmót fyrir BCM-kerfishlutann. Þessi verkhluti er á lokastigi og er hann kominn í prófanir sem beta-útgáfa. Markaðsfærsla er hafin og kom strax í ljós að eftirspurn eftir vefviðmóti er mikil. Vefviðmót fyrir BCM-kerfishlutann opnar möguleika á því að útbúa sambærilegt vefviðmót fyrir áhættumat sem og aðra kerfishluta sem þróaðir verða í framtíðinni.

Ávinningur verkefnisins er margs konar. Nýjungar og viðbótarvirkni sem unnið var að á líftíma verkefnisins hafa gert RM Studio að mun verðmætari hugbúnaði en áður var og opnað leiðina að fleiri mörkuðum. Sá möguleiki að notendur geti sett staðla að eigin vali inn í hugbúnað til fylgnimats og áhættumats gerir RM Studio að einstakri lausn á markaði. Þegar Stiki gerði samstarfssamning við ISO-staðlastofnunina hafði ekkert fyrirtæki áður gert slíkan samstarfssamning sem leyfir alþjóðlega dreifingu ISO-staðla gegnum hugbúnað. Úrval staðla í sama hugbúnaði tryggir einnig að stofnanir og fyrirtæki geta á auðveldan hátt haft yfirsýn um fylgni við kröfur af hvaða tagi sem er. Þetta nýtist t.d. vel fyrirtækjum og stofnunum sem þurfa að hlíta sérhæfðum lögum og reglugerðum. RM Studio var hannað með það að leiðarljósi að auðvelt væri að bæta inn nýjum stöðlum, á hvaða tungumáli sem er. Með RM Studio er komið fram ferladrifið hugbúnaðartól fyrir fyrirtæki og stofnanir sem leiðbeinir þeim í gegnum áhættugreiningu, áhættumat og innleiðingarferli öryggisráðstafana; tól sem tryggir að allar reglur og stýringar séu uppfylltar á viðeigandi hátt.

Verkefnið hefur orðið til þess að mikil þekking hefur myndast hjá Stika á áhættugreiningu og áhættustjórnun. Í tengslum við þróun RM Studio hefur verið stofnað til rannsóknar- og þróunarsamstarfs við háskóla og fyrirtæki, m.a. við HR, HÍ, MIT, Össur, Landsnet og Almenna lífeyrissjóðinn. Samstarf þessara aðila hefur skilað þeim árangri að í október 2012 verður að frumkvæði Stika stofnað rannsóknar- og þekkingarsetur á sviði áhættugreiningar innan HR. Þá hefur Stiki hafið rannsóknarsamstarf við HR og MIT sem skila mun mikilvægri þekkingu vegna áframhaldandi þróunar á RM Studio næstu árin. Ráðstefna um áhættugreiningu verður haldin í HR fyrir tilstuðlan Stika 12. október 2012 með þátttöku innlendra og erlendra aðila.

Sú nýþróun RM Studio sem unnið var að á sl. þremur árum hefur styrkt mjög stöðu RM Studio á heimamarkaði og sömuleiðis opnað nýja markaði erlendis. Þær lausnir sem urðu til vegna verkefnisins hafa verið kynntar og auglýstar með ýmsu móti, á vörusíðu RM Studio, www.riskmanagementstudio.com, með greinaskrifum, ráðstefnuerindum, kynningum og fundum. Umtalsverður árangur hefur náðst í erlendu markaðsstarfi. Í júlí 2012 var gerður samstarfssamningur við bandaríska fyrirtækið Orange Parachute, sem er leiðandi á markaði fyrir ISO 27001 ráðgjöf í Bandaríkjunum. Þetta samstarf má alfarið rekja til síðustu áfanga í þróun á RM Studio. Miklu skipti einnig möguleikinn í RM Studio til þess að bæta stöðlum inn í hugbúnaðinn, sem opnar möguleikann á því að selja lausnina til fyrirtækja í mismunandi atvinnugeirum. Í kjölfar samstarfssamnings við Orange Parachute var verðlagningu á RM Studio breytt og hugbúnaðurinn boðinn til leigu á jöfnum mánaðargreiðslum. Í kjölfarið hefur erlend sala á RM Studio margfaldast.

Afurðir verkefnisins:

  • Innsetning staðla að vali notenda, á hvaða tungumáli sem er.
  • Nýr kerfishluti RM Studio fyrir gerð áætlana um samfelldan rekstur, BCM-kerfishluti (Business Continuity Management).
  • Vefviðmót BCM-kerfishluta í beta-útgáfu. 

Dæmi um greinar sem ritaðar hafa verið um efni og afurðir verkefnisins:

 









Þetta vefsvæði byggir á Eplica