Markaðssetning Controlant í Þýskalandi - verkefnislok

17.9.2013

Verkefni Controlant um markaðssetningu lausna félagsins í Þýskalandi er nú formlega lokið. Controlant ehf. hefur á undanförnum árum þróað þráðlausar lausnir sem henta vel til utanumhalds á verðmætum í hinum ýmsa iðnaði, t.d. á lyfja- og matvælamarkaði. Lausnir fyrirtækisins henta vel hvort sem um er að ræða staðbundið eða í flutningum. Notendur geta náð fram betri yfirsýn yfir upplýsingar um virðiskeðju sína, t.d. upplýsingar um hita- og rakastig viðkvæmrar vöru og/eða staðsetningar verðmæta. 

Heiti verkefnis: Markaðssetning Controlant í Þýskalandi
Verkefnisstjóri: Stefán Karlsson, Controlant ehf.
Tegund styrks: Markaðsstyrkur (Brúarstyrkur)
Styrkár: 2012
Fjárhæð styrks: 5 millj kr.
Tilvísunarnúmer Rannís: 121439-061

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Markmið þessa verkefnis var að halda áfram markaðssetningu lausna Controlant á erlendum mörkuðum með áherslu á þýska markaðinn. Meðal þess sem nefna má sem afrakstur eru fyrstu samningar Controlant við þýska notendur, hvorutveggja á staðbundinni lausn til vöktunar á lyfjum en jafnframt á rekjanleikalausn félagsins. Allt kynningarefni félagsins, leiðbeiningar og vefviðmót er nú aðgengilegt á þýsku auk þess sem búin var til þýsk lendingarsíða á heimasíðu félagsins. Áherslan í verkefninu var á Þýskaland en við vinnslu þess kom í ljós að landamærin eru ekki alltaf ljós þegar kemur að notendum lausnarinnar. Þannig voru afleidd viðskipti vegna markaðssetningar í Þýskalandi innleiðing hjá hollensku dótturfélagi þýsks móðurfélags. 

Heildarniðurstaða verkefnisins er því sú að í lok þess er Controlant komið í mun sterkari stöðu til þess að sækja tekjur á erlendum mörkuðum en áður og þar með skapa gjaldeyristekjur í formi sölu á íslensku hugviti. Sá sýnileiki sem þetta verkefni gerði mögulegt hefur gert það að verkum að félagið er nú í viðræðum við einn stærsta lyfjaframleiðanda í heimi um innleiðingu lausnarinnar í allri þeirra keðju á heimsvísu. 

Niðurstöður verða hagnýttar til þess að sækja enn frekari viðskipti með lausnir Controlant í Evrópu. Nú þegar eru lausnirnar komnar í notkun í 7 Evrópulöndum og næstu skref miða að því að skala lausnina upp til fleiri stærri aðila á lyfja- og matvælamarkaði. Afrakstur þessa verkefnis mun spila stórt hlutverk í að gera þá sýn að veruleika. 

Afrakstur verkefnisins:

  • Samningar við fyrstu þýsku notendur staðbundinna lausna Controlant til lyfjavöktunar
  • Samningar við dótturfélag þýsks aðila um notkun rekjanleikalausnar.
  • Samningur við símafyrirtæki um SIM kort í lausnir Controlant í Þýskalandi og víðar í Evrópu
  • Heimasíða, kynningarefni og leiðbeiningar á þýsku og aðlagað að þýskum markaði.
  • Efling á starfsemi dótturfélags Controlant innan Evrópusambandsins.
  • Nýtt markaðsefni með nýjum verðstrúktúr fyrir erlenda notendur og endursöluaðila








Þetta vefsvæði byggir á Eplica