Úrgangsgösun og eldsneytisframleiðsla - verkefnislok

28.11.2013

Nú er lokið þriggja ára rannsóknarverkefninu Úrgangsgösun og eldsneytisframleiðsla sem unnið var í klasasamstarfi þriggja aðila, CRI ehf. (Carbon Recycling International), SORPU bs. og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Í verkefninu hefur verið unnið að því að umbreyta föstum og fljótandi kolefnisríkum úrgangi í fljótandi farartækjaeldsneytið metanól.

Heiti verkefnis: Úrgangsgösun og eldsneytisframleiðsla
Verkefnisstjóri: Ómar Freyr Sigurbjörnsson, CRI ehf.
Tegund styrks: Verkefnisstyrkur
Styrkár: 2010-2013
Fjárhæð styrks: 28 millj. kr. alls
Tilvísunarnúmer Rannís: 100610112

litid T-logoVERKEFNIÐ VAR STYRKT AF TÆKNIÞRÓUNARSJÓÐI.

Þau ferli sem þróuð hafa verið byggja á háhitameðhöndlun úrgangsins sem leiðir til myndunar orkuríkra gassameinda, þá helst kolmónoxíð (CO) og vetni (H2). Það gas sem fæst með þessu ferli er afar verðmætt við smíði lífrænna efnasambanda, til að mynda metanóls sem nýta má sem eldsneyti til íblöndunar við bensín á venjulegum bifreiðum. Þau ferli sem þróuð voru í verkefninu byggja á notkun úrgangs og endurnýjanlegra hráefna auk innlendra orkugjafa og munu þau leiða til aukinnar sjálfbærni við efna- og eldsneytisframleiðslu, draga úr urðun og auka verðmætasköpun fyrir íslenskt samfélag til framtíðar. 

Öll helstu markmið verkefnisins náðust og hefur afraksturinn verið margþættur. Umtalsverð uppbygging á rannsóknaraðstöðu í eldsneytis- og efnavinnslu hefur átt sér stað og hafa verkefnisaðilar nú yfir að ráða fyrsta flokks aðstöðu í þeim efnum. Verkefnið hefur reynst mikilvægt skref í undirbúningi fyrir hönnun á verksmiðju sem gæti umbreytt stórum hluta brennanlegs úrgangs í verðmætar efnavörur og eldsneyti. Vegna notkunar  á sértækum efnahvötum eru gerðar strangari kröfur varðandi hreinleika gastegunda sem myndast, þannig er fyrirséð að umhverfisáhrif fyrirhugaðrar gösunar- og eldsneytisvinnslu verða umtalsvert minni en áhrif af núverandi sorpbrennslufyrirkomulagi.

Ennfremur hafa útreikningar verkefnisaðila í verkefnisvinnunni leitt í ljós að með nýtingu á brennanlegum úrgangi frá íslenskum heimilum og iðnaði sé unnt að anna stórum hluta innlendrar eldsneytisnotkunar. Þá væri hægt með nýtingu lífmassaafurða eins og hey og lúpínu að framleiða margfalt það magn eldsneytis sem notað er hérlendis og möguleikar á útflutningi eldsneytis frá Íslandi gætu orðið töluverðir.

Niðurstöður lífsferilsgreiningar sem unnin hefur verið á framleiðsluferlinu gefa til kynna að umtalsverður sparnaður sé á losun gróðurhúsalofttegunda miðað við notkun jarðefnaeldsneytis og kemur afurðin til með að standast ýtrustu kröfur m.t.t. losunar gróðurhúsalofttegunda sem settar eru.

Segja má að ein helsta niðurstaða verkefnisins sé sú að ekkert sé því til fyrirstöðu að Ísland geti verið í fararbroddi fyrir rannsóknir og uppbyggingu á vistvænum efna- og eldsneytisiðnaði byggðum á sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra náttúruauðlinda og endurvinnslu á kolefnisríkum úrgangi.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.

1.     Þróaðar hafa verið ferillausnir til iðnaðarframleiðslu á eldsneyti og efnavörum úr úrgangshráefnum.

2.     Sótt hefur verið um alþjóðlegt einkaleyfi fyrir ferillausnum sem þróaðar hafa verið í verkefninu:

         a.  STORAGE OF INTERMITTENT RENEWABLE ENERGY AS FUEL USING CARBON CONTAINING FEEDSTOCK  International Application No.: PCT/IS2010/050009

Skýrslur:

3.     Emeric Sarron, Darri Eyþórsson, Ómar Sigurbjörnsson, Tæknileg fýsileikakönnun – úrgangsgösun og eldsneytisframleiðsla,  CRI, 2012.

4.     Mengyao Yuan, Darri Eyþórsson, Lífsferilslíkan fyrir eldsneytisframleiðslu úr úrgangshráefnum og endurnýjanlegum lífmassa, CRI, 2013.

5.     Darri Eyþórsson, Tæknileg fýsileikakönnun – lífmassarækt og eldsneytisframleiðsla á Íslandi, CRI, 2013.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica