Auglýst eftir umsóknum í menntarannsóknasjóð 2025

23.10.2025

Auglýst er eftir umsóknum um styrki úr menntarannsóknasjóði. Umsóknarfrestur rennur út 26. nóvember nk. kl. 15:00.

  • Menntarannsoknasj_mynd_an_texta

Menntarannsóknasjóður mennta- og barnamálaráðuneytisins styrkir hagnýtar menntarannsóknir á sviði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og frístundastarfs. Markmið menntarannsóknasjóðs er að styðja við framkvæmd menntastefnu með því að styrkja stoðir hagnýtra menntarannsókna og auka tækifæri til að skapa og miðla þekkingu til framþróunar og farsældar í skólastarfi. Samhliða úthlutun úr menntarannsóknarsjóði þetta árið verður úthlutuð úr Sunnusjóði sem hefur það að markmiði að bæta aðstæður til kennslu og þjálfunar fjölfatlaðra barna á grunnskólaaldri og tekur áhersla nr. 6 mið af því.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér vel reglur menntarannsóknasjóðs á vef Rannís áður en hafist er handa við gerð umsóknar. Umsóknum skal skila inn í rafrænt umsóknarkerfi Rannís.

Rannsóknaráherslur 2025:

  1. Gæði kennslu – Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á árangursríka kennsluhætti sem reynast vel til að styðja við byrjendalæsi í leikskólum og bæta lestrarfærni, námsárangur og námsáhuga barna og ungmenna í grunn- og framhaldsskólum.
  2. Líðan barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum best eflt félags-, tengsla og tilfinningafærni meðal barna og ungmenna.
  3. Stafrænt umhverfi barna og ungmenna - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum betur stutt við hæfni barna og ungmenna til að athafna sig í umhverfi þar sem gervigreind og aðrar stafrænar lausnir eru notaðar á fjölbreyttan og oft ófyrirsjáanlegan hátt.
  4. Skapandi og gagnrýnin hugsun - Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á hvernig við getum best stutt við skapandi og gagnrýna hugsun barna og ungmenna.
  5. Náms- og félagsumhverfi barna og ungmenna – Rannsóknum í þessum flokki er ætlað að varpa ljósi á þá þætti í námsumhverfi barna og ungmenna sem skipta mestu máli fyrir líðan og nám þeirra.
  6. Menntun fatlaðra barna – Í samræmi við markmið Sunnusjóðs er rannsóknum í þessum flokki er ætlað að stuðla að umbótum í kennslu og þjálfun fjölfatlaðra barna á grunnskólastigi og efla tækifæri þeirra til áframhaldandi náms og þroska.

Nánari upplýsingar og aðgangur að rafrænu umsóknarkerfi á heimasíðu sjóðsins .









Þetta vefsvæði byggir á Eplica