Ahugið: Nýjar fréttir og viðburðir birtast nú eingöngu á island.is/s/rannis

Aukin tækifæri í Erasmus+ kalla á öflugt alþjóðasamstarf í starfsmenntun

7.11.2025

Samhliða auknu fjármagni til starfsmenntunar í Erasmus+ áætluninni, hefur starfsmenntateymi Landskrifstofunnar unnið markvisst að því að styðja við starf alþjóðafulltrúa innan skóla og stofnanna á sviði iðn- og verkgreina. 

  • Starfsmenntun-aukid-fjarmagn2025

Fjármagn Erasmus+ áætlunarinnar til starfsmenntunar hefur aukist verulega á undanförnum árum. Samhliða auknu fjármagni hefur fjöldi nema í iðn- og verkgreinum og listnema ásamt starfsfólki í þeim greinum, aukist umtalsvert. 

Eins og fram kemur á myndinni hér til vinstri er reiknað með nærri 1000 þátttakendum í náms- og þjálfunarverkefnum ársins 2025 sem er næstum 70% aukning frá árinu 2024.

Kannanir sýna að þátttaka í alþjóðastarfi skiptir verulegu máli í starfi skóla og stofnana sem taka þátt í Erasmus+ áætluninni. Þær sýna einnig jákvæð persónuleg og fagleg áhrif þess að starfsfólk og nemendur taki þátt í námsferðum og starfsþjálfun erlendis. Með auknum fjölda þátttakenda felast áskoranir um öflugt skipulag alþjóðastarfs og þar leika alþjóðafulltrúar og starfsaðstæður þeirra lykilhlutverk.

Starfsmenntateymi Landskrifstofu Erasmus+ hefur nú í nokkur ár unnið markvisst að því að efla starfandi alþjóðafulltrúa í starfsmenntun. Markmiðið er að styrkja stöðu og starfsaðstæður þeirra bæði innan skóla og stofnana.

Starfsmenntun-althjodafulltruarÁ síðasta ári var gerð könnun meðal starfandi alþjóðafulltrúa í starfsmenntun. Svarhlutfallið var 93% og þar kom m.a. fram að aðstæður þeirra eru mismunandi sem og skipulag alþjóðastarfsins. Nær allir höfðu gilda alþjóðastefnu og í flestum tilfellum eru starfandi alþjóðafulltrúar. Starfshlutfall þeirra er mismikið en flestir telja það of lágt miðað við umfang starfsins. Margir töluðu um einangrun og að starfið væri drifið áfram af fáum en í öðrum tilfellum eru starfandi alþjóðateymi. Að auki kom fram í könnuninni að stuðningur og afstaða skjólastjórnenda hefur afgerandi áhrif á alþjóðastarfið í skólunum.

Í könnuninni kom einnig fram að alþjóðafulltrúar kalla eftir samstarfi sín á milli og þjálfun í þeim verkefnum sem tengjast beint framkvæmd Erasmus+ náms- og þjálfunarverkefnum. Einn liður til að bregðast við því eru árlegir fundir alþjóðafulltrúa. Á fundi haustsins, sem haldinn var 28. ágúst 2025, var sérlega góð þátttaka og megináherslan lögð á tengslamyndun, dagleg verkefni og leiðir til að tryggja gott skipulag og gæði námsferða nemenda og starfsfólks. Greinilegur áhugi og metnaður er meðal alþjóðafulltrúa og spennandi að fylgjast með þróuninni á næstu árum.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica