Barnamenningar­sjóður úthlutar styrkjum til 34 verkefna

29.5.2022

Tilkynnt hefur verið um úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands fyrir árið 2022. Þetta er í fjórða sinn frá stofnun sjóðsins sem veittir eru styrkir til barnamenningar.

  • Forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra og Drengjakór Reykjavíkur.
    Forsætisráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra fluttu ávörp og Drengjakór Reykjavíkur flutti tónlistaratriði.

Sjóðurinn styrkir 34 metnaðarfull verkefni og er heildarupphæð úthlutunarinnar 92 milljónir króna. Alls bárust 106 umsóknir og var sótt um tæplega fjórfalda þá upphæð sem sjóðurinn hafði til úthlutunar eða rúmar 380 milljónir króna. Úthlutun var tilkynnt við athöfn í skála Alþingis á degi barnsins, sunnudaginn 29. maí 2022.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra ávörpuðu fulltrúa verkefnanna af þessu tilefni og Drengjakór Reykjavíkur flutti tónlistaratriði.

Þriggja manna fagráð fjallaði um umsóknirnar og forsætisráðherra samþykkti tillögu stjórnar sjóðsins. Sem fyrr hefur fagráðið horft til fjölbreyttra þarfa barna og ungmenna, þar koma til álita þættir á borð við búsetu, aldur, kyn, uppruna og efnahag. Þessar áherslur má finna í reglum sjóðsins og þær eru í góðu samræmi við fjölda þeirra umsókna sem taka til fjölmenningar, jafnrar stöðu stúlkna og drengja, málefna hinsegin ungmenna og verkefna sem tengd eru hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Þá má í ár greina fjölgun þverfaglegra verkefna þar sem saman koma listir og vísindi. Einnig eru verkefni tengd kvikmyndum og kvikmyndagerð áberandi þetta árið. Hæstu styrkina fá Listasafn Árnesinga fyrir verkefnið Smiðjuþræðir, þar sem 6 listamenn og hönnuðir vinna með grunnskólanemum í Árnessýslu, og Sviðslistamiðstöð Íslands fyrir verkefnið Sviðslistir fyrir alla, sem er unnið í samvinnu við List fyrir.

Í rökstuðningi fagráðsins segir að umsóknirnar sem bárust beri fagurt vitni ástríðu og hugmyndaauðgi þeirra sem sinna skapandi störfum með börnum og í þágu barna. Þar eru á ferðinni fagmenn og frumkvöðlar sem sinna flóknum verkefnunum af djúpri þekkingu og einlægri sköpunargleði. Sérstaklega ánægjulegt er að sjá í verkefnunum áhrif alþjóðlegrar stefnumörkunar á borð við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun, sem ber vott um flókið samspil menningarlegra þátta og sem setja mun mark sitt á framtíð þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi.

Barnamenningarsjóður Íslands var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins með ályktun Alþingis á hátíðarfundi 18. júlí 2018. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Í starfi sjóðsins er m.a. horft til áherslu menningarstefnu um samstarf stofnana, skóla, félagasamtaka og einstaklinga, ásamt því markmiði að jafna aðgengi barna og ungmenna að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Styrkt verkefni 2022

Umsækjandi Titill Úthlutuð upphæð
Anna Kolfinna Kuran Feminískt Reif 1.760.000
Austurbrú ses. Ég um mig frá mér til ÞÍN 4.000.000
Eva Rún Þorgeirsdóttir Sögusmiðjan - klúbbur fyrir skapandi krakka 1.300.000
Félag um Ljóðasetur Íslands Barnamenning á Ljóðasetri 906.000
Foreldrafélag Drengjakórs Rvík Syngjandi strákar í 30 ár - 30 ára afmælistónleikar Drengjakórs Reykjavíkur 300.000
Forvitnissakir, félagasamtök Barnabærinn - Draumasamfélag 4.000.000
Grundarfjarðarbær Listsköpun og menning á sumarnámskeiði barna í Grundarfirði 2.000.000
Heimildarmyndahátíðin Skjaldborg Skjaldbakan 3.500.000
Hinsegin dagar í Reykjavík - Reykjavík Pride Litróf - sköpunarkraftur hinsegin ungmenna 2.300.000
Hringleikur - sirkuslistafélag MegaWhat? - vísindi og sirkus mætast í Elliðaárstöð 3.110.000
IBBY á Íslandi,félag Sögur - Skapandi skrif og Sögur - Verðlaunahátíð barnanna 2.000.000
Kammerhópurinn Reykjavík-Barokk Látra-Björg í heimabyggð - Sjókonur og snillingar 1.500.000
Kvikmyndafélag ungmenna Hátíð og vinnubúðir á vegum KHF 5.000.000
Listasafn Árnesinga Smiðjuþræðir / 6 listamenn 6.000.000
Listasafn Einars Jónssonar Undraheimar Listasafns Einars Jónssonar 4.350.000
Listasafn Íslands Listræn sköpun eflir náttúruvitund 5.300.000
Listasafn Reykjavíkur Safnið okkar - afmælisveisla 2.000.000
Menningarfélag Akureyrar ses. Fiðringur á Norðurlandi 1.350.000
Menningarfélagið Hneykslist RVK Fringe 2022 1.450.000
Menningarmiðstöð Hornafjarðar Fjaðrir, fjör, fornmunir og Fablab 1.700.000
Náttúruminjasafn íslands List og lífbreytileiki 3.360.000
Northern Wave, félagasamtök Barna- og unglingahátíð Northern Wave 1.000.000
O.M.A.H.A.I. Rewriting Stories of War into Stories of Peace 4.800.000
Orgelhúsið, félagasamtök Orgelkrakkahátíð 700.000
Pera Óperukollektíf, félagasamtök. Óperu- og söngverkefni á Óperudögum 2022 4.500.000
Reykjanesbær / Fjörheimar félagsmiðstöð Listasmiðja Reykjanes 2.000.000
Reykjavíkurborg BIG BANG tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur 4.000.000
Safnasafnið Fjórvíð virkni 614.000
Stelpur rokka!,félagasamtök Miðlunarsmiðjur Stelpur rokka! 600.000
Sviðslistamiðstöð Íslands (SLM) Sviðslistir fyrir alla 6.000.000
Tónagull ehf. Fjölskyldueflandi tónlistarstundir á úkraínsku og pólsku 3.100.000
Tónskáldafélag Íslands Barnaverkefni Norrænna músíkdaga 600.000
ÞYKJÓ ehf. Sendum tónlist út í geim! 5.800.000
Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir TónaTrítl á menningarTölti 1.100.000

Nánar um styrkt verkefni:

Anna Kolfinna Kuran – kr. 1.760.000 – Feminískt Reif í samstarfi við Litlu systur og Reykjavík Dance Festival

Feminískt Reif er dansverk samið af Önnu Kolfinnu Kuran í nánu samstarfi við meðlimi Litlu Systur auk fleiri ungmenna á aldrinum 13-18 ára. Verkið verður flutt á Reykjavík Dance Festival í nóvember nk. Markmiðið að skapa feminíska útópíu þar sem öll upplifa sig örugg og frjáls óháð kyni eða bakgrunni. Verkið er samansuða af reifi og dansverki þar sem ungmennin flytja kraftmikinn dans af mikilli innlifun við taktfasta elektróníska tónlist og taka þau þátt í öllum þáttum verksins; skipulagningu, listsköpun, flutningi og framkvæmd.

Austurbrú – kr. 4.000.000 – BRAS – Ég um mig frá mér til ÞÍN

í samstarfi við fjölbreytt teymi listamanna, skóla og helstu menningarstofnanir á Austurlandi

BRAS er menningarhátíð fyrir börn og ungmenni, sem í ár ber yfirskriftina „Ég um mig frá mér til ÞÍN“. Inntak hátíðarinnar miðar að því að styrkja sjálfsmynd barna og ungmenna í gegnum listir og menningu eftir að hafa þurft að kljást við einangrun í faraldri sem hefur haft áhrif á sjálfsmynd okkar allra. Sérstök áhersla verður lögð á að vinna með menntuðu austfirsku listafólki, af fjölbreyttum uppruna, sem býður uppá vinnusmiðjur í ólíkum listgreinum.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík & Tónlistarborgin Reykjavík – kr. 4.000.000 – BIG BANG. Í samstarfi við Hörpustrengi og List fyrir alla

BIG BANG er evrópsk tónlistarhátíð fyrir unga áheyrendur sem fá að upplifa fjölbreytta og metnaðarfulla efnisskrá er samanstendur af tónleikum, innsetningum og tónlistartengdum smiðjum undir handleiðslu fagfólks í tónlist. Sérstök áhersla er lögð á tilraunakennda tónlistarviðburði, tónlistarfólk og tónskáld sem sjá ævintýrið í tónlistarsköpun sinni og vilja leita frjórra leiða til að kynna tónlist fyrir börnum og deila með þeim sviðinu.

Eva Rún Þorgeirsdóttir/Borgarbókasafn– kr. 1.300.000 – Sögusmiðjan, klúbbur fyrir skapandi krakka í samstarfi við Reykjavíkurborg - Borgarbókasafn

Sögusmiðjan er vikulegur rit- og teikniklúbbur fyrir 9-12 ára börn. Í smiðjunum fá þau leiðsögn í ritlist og myndlýsingu ásamt því að kynnast bókasafninu sem stað innblásturs og sköpunar. Markmiðið er að hvetja börn til skapandi hugsunar, efla sjálfstraust þeirra í gegnum skapandi vinnuferli, vekja áhuga þeirra á lestri og bókmenntum og að þau finni sig örugg á bókasafninu.

Foreldrafélag Drengjakórs Reykjavíkur – kr. 300.000 – Syngjandi strákar í 30 ár

Syngjandi strákar í 30 ár eru afmælistónleikar Drengjakórs Reykjavíkur en kórinn fagnaði 30 ára starfsafmæli árið 2020. Vegna heimsfaraldurs var ekki hægt að halda upp tímamótin á afmælisárinu. Tónleikarnir verða haldnir þann 4. júní nk. og munu bæði atvinnutónlistarmenn og fyrrum kórmeðlimir ganga til liðs við kórinn á tónleikunum.

Forvitnissakir - félagasamtök – kr. 4.000.000 – BarnaBærinn - Draumasamfélag

BarnaBærinn - Draumasamfélag er vinnusmiðja þar sem börn á landsbyggðinni fá tækifæri til að breyta bænum sínum eftir eigin höfði. Þau fá að láta rödd sína heyrast og nota tól sviðslistanna til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Verkefnið er framhald lýðræðislega sviðlistaverkefnisins Krakkaveldis, sem sviðslistakonurnar Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir og Hrefna Lind Lárusdóttir hafa haldið utan um.

Grundarfjarðarbær – kr. 2.000.000 – Listsköpun og menning, sumarnámskeið

Á sumarnámskeiðum fyrir börn í Grundarfirði eru listir og menning þemað. Þar fá þátttakendur í 1. – 4. bekk að kynnast vinnu og starfi listamanna í sínu nánasta umhverfi og fá að skapa sjálf. Markmiðið er að kynnast fjölbreyttri listsköpun, bæði hvað varðar efni og tjáningu, og nýta til eigin listsköpunar. Þannig eflist víðsýni, sjálfstraust, skynjun og samvinna. Unnið verður út frá einstaklingsbundinni getu og áhuga barnanna sjálfra.

Heimildamyndahátíðin Skjaldbakan – kr. 3.500.000 – Skjaldbakan. Í samstarfi við Heimildamyndasamsteypuna, Kvikmyndamiðstöð Íslands o.fl.

Skjaldbakan skríður um landið og býður upp á námskeið í heimildamyndagerð. Hún býður krökkum að horfa í kring um sig og skoða sitt nærumhverfi og sinn hversdagsleika í gegnum nýja linsu. Verkefnið gefur þeim tækifæri til að varpa sínum hugarheim á hvíta tjaldið og upplifa sig sem höfund verks í sal fullum af áhorfendum. Skjaldbakan vinnur með börnum á Patreksfirði, Seyðisfirði og í Reykjavík og býr þannig til tengingar þvert yfir landið.

Hinsegin dagar í Reykjavík – Kr. 2.300.000 – Litróf; sköpunarkraftur hinsegin ungmenna

Litróf - sköpunarkraftur hinsegin ungmenna gefur hinsegin börnum og ungmennum færi á að þróa listræna hæfileika sína, koma hugmyndum sínum á framfæri og kafa ofan í sjálfsmynd sína. Þátttakendur eru hinsegin ungmenni sem verja sumrinu í að þróa listræn sköpunarverk og nýta hæfileika sína á þeim listrænu sviðum sem þau kjósa að einbeita sér að. Afraksturinn eykur sýnileika hinsegin ungmenna á Hinsegin dögum í ágúst og gerir barnamenningu hærra undir höfði innan hinsegin samfélagsins.

Hringleikur – sirkuslistafélag – kr. 3.110.000 – Mega What? Í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur

MegaWhat? er sviðslista- og þátttökuviðburður þar sem áhorfendur upplifa eðli náttúruaflanna í gegnum sirkuslistir. Sirkuslistafélagið Hringleikur setur upp staðbundna sirkussýningu, innblásna af tengslum sirkuslista við vísindin og náttúruöflin. Sýningarvettvangurinn verður fjölbreytt rými og umhverfi gömlu rafstöðvarinnar í Elliðaárdal. Að sýningu lokinni fá börn og fjölskyldur sjálf að gera tilraunir með sirkusáhöld í skapandi vísinda-sirkussmiðju sem þróuð er í samstarfi sirkuslistafólks og vísindafólks OR.

IBBY á Íslandi – kr. 2.000.000 - Sögur - Verðlaunahátíð barnanna

í samstarfi við Reykjavíkurborg, List fyrir alla, RÚV o.fl. Við erum umvafin Sögum, þær eru í tónlistinni sem við hlustum á, leiknar á leiksviðum landsins, til sýninga í kvikmyndahúsum og sjónvarpi og auðvitað í bókum sem við lesum og sögunum sem við segjum. Markmið Sagna er að lyfta verkum barna og sýna þeim hvað getur orðið úr hugmyndum þeirra. Hefja upp íslenskuna sem skapandi tungumál og styrkja börn í að nýta tungumálið á fjölbreyttan hátt. 

Kammerhópurinn ReykjavíkBarokk – kr. 1.500.000 – Látra-Björg í heimabyggð. Í samstarfi við leikfélagið Fljúgandi fiska, grunnskóla Dalvíkurbyggðar o.fl. 

Látra-Björg í heimabyggð – Sjókonur og snillingar er samstarfsverkefni Kammerhópsins Reykjavík-Barokk, leikfélagsins Fljúgandi fiska og listakvenna úr ýmsum áttum. Verkefnið er tónleikhús og vinnustofur, og er ætlunin að gefa börnum sem alast upp á heimaslóðum Bjargar Einarsdóttur, Látra-Bjargar, tækifæri til að kynnast sögu hennar og kveðskap auk íslenskar kveðskaparhefðar og tónlistar listakvenna fyrri alda.

Kvikmyndafélag ungmenna – kr. 5.000.000 – Hátíð og vinnubúðir KHF. Í samstarfi við Bíó Paradís og Kvikmyndamiðstöð Íslands

Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna – KHF miðar að því að styrkja ungt fólk í að virkja sköpunarkraft sinn við gerð kvikmynda og auka skilning á þessu margbrotna tjáningarformi, sem og getu til að nýta sér það. Nú stendur til að útvíkka hátíðina með markvissum hætti, opna hana fyrir vinningsmyndum ungmenna af landsbyggðinni ásamt öðrum völdum myndum. Jafnframt verður boðið upp á vinnubúðir í kvikmyndagerð fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla þar sem unnið verður með þemað „mínútumyndir“.

Listasafn Árnesinga – Kr. 6.000.000 – Smiðjuþræðir

Listasafn Árnesinga mun með þessu verkefni keyra út færanlegar listasmiðjur til skóla í Árnessýslu. Unnið verður með sex listamönnum sem koma úr mismunandi áttum. Myndlistarmenn, hönnuður, textíllistamaður, hreyfimyndalistamaður og tónlistarmaður koma að verkefninu og flest þeirra búa á Suðurlandi. Unnið verður með hugmyndir um íslenska menningararfleifð, fjölmenningu, endurnýtingu á efniviði og náttúruna á Suðurlandi.

Listasafn Einars Jónssonar – kr. 4.350.000 – Undraheimar Listasafns Einars Jónssonar

Með verkefninu verður stafræn tækni notuð til að opna sjónrænan undraheim fyrsta myndhöggvara landsins og safn hans, þannig að listaverkin og rýmið, Hnitbjörg, verði aðgengilegt börnum óháð búsetu. Með því að gefa börnum kost á að skoða safnið í sýndarheimi, frá stafrænu sjónarhorni, opnast fyrir nýja túlkunarmöguleika og skilning á Listasafni Einars Jónssonar og undraheimi þess. Verkefnið er áframhald þróunarverkefnisins Stafrænar styttur.

Listasafn Reykjavíkur – Kr. 2.000.000 – Safnið okkar – Afmælisveisla í samstarfi við Víkurskóla og fleiri skóla

Listasafn Reykjavíkur er "safnið okkar" sem búum í borginni. Frá 1973 hefur það safnað um 17 þúsund listaverkum og á næsta ári er afmælisár - 50 ára! Af því tilefni eru börn og ungmenni boðin velkomin til að grúska í því sem varðveitt er, þau mega velja sér verk á sýningu, hjálpa okkur að setja verkin upp, finna leiðir til að segja frá verkunum, t.d. í texta, upptöku eða í samtali við aðra. Síðan er öllum skólum á höfuðborgarsvæðinu boðið að koma og skoða og upplifa.

Listasafn Íslands – kr. 5.300.000 – Listræn sköpun eflir náttúruvitund. Í samstarfi við Landvernd, Vísindasmiðju Háskóla Íslands o.fl.

Þverfaglegar listasmiðjur í Listasafni Íslands þar sem ný sýning í Safnahúsinu við Hverfisgötu verður vettvangur skapandi nálgunar og tengsla milli myndlistar og vísinda. Áhersla verður lögð á að efla skapandi, gagnrýna hugsun og vekja áhuga þátttakenda á fjölbreyttum málefnum sjálfbærni með getu til aðgerða að leiðarljósi. Unnið verður með valin verk úr safneign Listasafns Íslands og þau tengd við valin þemu vísindanna. Kennarar á smiðjunum verða bæði listamenn og vísindamenn.

Ljóðasetur Íslands – kr. 906.000 – Barnamenning á Ljóðasetri. Í samstarfi við Fjallabyggð, Umf. Glóa, Kómedíuleikhúsið og hljómsveitina Ástarpunga

Ljóðasetrið virkjar börn í Fjallabyggð í sumar til ýmissa skapandi verka m.a. með ljóða- og sögugerð, grímugerð, söng og listaverkasmíð. Í boði verða vikulegir viðburðir fyrir börn á aldrinum 5 - 12 ára, auk þess sem farið verður í samstaf við Ungmennafélagið Glóa um skapandi verkefnið Ævintýravikur, þar sem listin verður fléttuð saman við fjöru- og skógarferðir.

Menningarfélag Akureyrar – Kr. 1.350.000 – Fiðringur á Norðurlandi

Fiðringur 2022 er hæfileikakeppni grunnskólanna á Norðurlandi í anda Skrekks. Verkefnið snýst um að byggja upp Fiðring til framtíðar og bjóða öllum grunnskólum Norðurlands til þátttöku frá Borðeyri til Bakkafjarðar 2023 með tilheyrandi undankeppnum.

Menningarfélagið Hneykslist – kr. 1.450.000 – RVK Fringe; æskulýðsdagskrá

Jaðarlistahátíðin RVK Fringe er hátíð sem fagnar fjölbreyttri list, svo sem leiklist, tónlist, sirkus og dansi, en einnig óvenjulegri og jaðarsettari listformum svo sem uppistandi, gjörningum, götulistaverkum og tölvuleikjum. Æskulýðsdagskrá hátíðarinnar hefur eflst mikið og í ár eru þemu viðburðanna allt frá dansgleði og hugsanalestri yfir í einmanaleika og eitraða karlmennsku.

Menningarmiðstöð Hornafjarðar – kr. 1.700.000 – Fjaðrir, fjör, fornmunir og Fablab

Börnum og ungmennum á Hornafirði býðst að taka þátt í spennandi vinnustofum um myndlist og hönnun, þar sem unnið er með fjölbreyttum hópi atvinnuhönnuða og myndlistarfólks. Krakkarnir vinna með nýjustu tækni á Fablabi en kynnast jafnframt fornum hefðum og handverki í gegnum muni frá byggðasafninu og verk á Æðardúnssýningu í Svavarssafni, sýningu þar sem umhverfi, sjálfbærni og náttúra eru umfjöllunarefnið.

Náttúruminjasafn Íslands – kr. 3.360.000 – List og lífbreytileiki. Í samstarfi við BIODICE samstarfsvettvang um líffræðilegan fjölbreytileika

Hvaða lífverur leynast í mosa? En í jarðvegi, móa eða polli? Hvernig tengjast lífverur umhverfi sínu og öðrum lífverum? Hvað merkir líffræðileg fjölbreytni, og skiptir hún mig máli? Náttúruminjasafn Íslands og BIODICE (biodice.is) í samstarfi við fjölbreyttan og breiðan hóp listafólks eiga þverfaglegt og opinskátt samtal við börn og ungmenni um lífbreytileika og mikilvægi hans fyrir komandi kynslóðir. Með þverfaglegu samtali vísinda og lista virkjum við ímyndunaraflið, skoðum það sem við sjáum ekki með berum augum og nýtum það sem efnivið til sköpunar.

Northern Wave – kr. 1.000.000 – Barna- og unglingahátíð Northern Wave. Í samstarfi við Kára Viðarsson o.fl.

Northern Wave kvikmyndaátíðin skipuleggur metnaðarfulla kvikmyndadagskrá fyrir börn og unglinga á Vesturlandi, með áherslu á fjölbreyttar listasmiður þar sem reynir á ólíka þætti kvikmyndagerðar. Meðal þess sem boðið verður upp á er Super-8 krakkabíó, plakatasmiðja, skuggamyndasmiðja, hreyfimyndasmiðja og sundbíó.

O.M.A.H.A.I - félagasamtök – kr. 4.800.000 – Að umrita sögur um stríð í sögur um frið. Í samstarfi við Margréti Gísladóttur o.fl.

Að umrita sögur um stríð og gera þær að sögum um frið er verkefni sem miðar að því að tjá sögur barna úr minnihluta- og innflytjendahópum sem búa á Íslandi. Börnin eru hvött til að segja sögur sínar að heiman og skoða þær í gegnum upplifun sína af því að búa í annars konar menningu. Börnin fá leiðsögn í að þróa færni sem hjálpar þeim að uppgötva hæfileika sína og getu til að þróa sögurnar sínar áfram og endurskrifa þær í sögur vonar.

Orgelhúsið – félagasamtök – kr. 700.000 – Orgelkrakkahátíð. Í samstarfi við Hóladómkirkju, Listvinafélag Akureyrarkirkju, Tónlistarskóla A-Húnavatnssýslu o.fl.

Orgelkrakkahátíð er listgjörningur og tónlistarveisla fyrir börn á öllum aldri. Þátttakendur taka virkan þátt og fá að njóta undraheima orgelsins með hlustun, sköpun, smíði og fræðslu með það að markmiði að víkka sjóndeildarhringinn á tónlistarsviðinu. Orgelkrakkahátíð samanstendur af vinnusmiðjunum orgelspuna og tónleikum þar sem flutt verða frægustu orgelverk sögunnar ásamt tónlist úr þekktum kvikmyndum og flutningi á tónlistarævintýrinu Lítil saga úr orgelhúsi.

Pera Óperukollektíf – kr. 4.500.000 – Óperu og söngverkefni fyrir börn og ungmenni á Óperudögum. Í samstarfi við Hernig Operafestival o.fl.

Verkefnið er fjölþætt en markmið þess er að gera óperu og sönglistarformið aðgengilegt fyrir börn og unglinga. Með það að markmiði hafa aðstandendur hátíðarinnar Óperudaga þróað vandaða dagskrá fjölbreyttra söngviðburða fyrir börn. Meðal þess sem barnadagskráin býður upp á í ár eru gagnvirkir tónleikar og samtal um áleitin málefni á borð við umhverfis- og loftslagsmál, þar sem börn og unglingar fá tæki færi til að tjá sig í ljóðum, tónlist og myndlist.

Reykjanesbær – Fjörheimar, félagsmiðstöð – kr. 2.000.000 – Listasmiðja Reykjaness

Listasmiðja Reykjaness er verkefni sem býður börnum og ungmennum í Reykjanesbæ að taka þátt í listastarfi. Áhersla er lögð á skapandi nálgun og öruggt umhverfi fyrir listiðkun og félagsleg samskipti, sem stuðla að þátttöku og eru líkleg til að koma í veg fyrir félagslega einangrun, kvíða og þunglyndi. Hugmyndin að verkefninu tengist samstarfsverkefni við Vinnuskóla Reykjanesbæjar sl. sumar.

Safnasafnið – kr. 614.000 – Fjórvíð virkni Í samstarfi við Svalbarðsstrandarhrepp o.fl.

Verkefnið Fjórvíð virkni er hugsað til þess að auka þátttöku barna í sumarstarfi Safnasafnsins, í fyrsta lagi með því að efna til tveggja sýninga á verkum nemenda Svalbarðstrandahrepps og bjóða yngri gestum safnsins upp á að skoða sýningar safnsins í gegnum Feluleik. Auk þess væri boðið upp á lifandi sýningu á gripum úr Bláa boxinu.

Sviðslistamiðstöð Íslands – kr. 6.000.000 – Sviðslistir fyrir alla. Í samstarfi við List fyrir alla og Þjóðleikhúsið

Sviðslistir fyrir alla eru kvikmyndaðir þættir sem hafa það að markmiði að opna augu barna og ungmenna í grunnskólum um land allt fyrir fjölbreytileika sviðslista. Þar verður kíkt á bakvið tjöldin, rýnt í aðferðir og leyndardómar afhjúpaðir. Kynnt verða fjölbreytt störf og áhugaverðir listamenn af vettvangi sviðslista, með það að markmiði að dýpka upplifun og efla listlæsi barna bæði sem njótendur og þátttakendur í sviðslistum. Verkefninu verður miðlað gegnum Listveitu Listar fyrir alla.

Stelpur rokka! – kr. 600.000 – Miðlunarsmiðjur

Miðlunarsmiðjur - Stelpur rokka! eru þróaðar út frá fyrra verkefni Miðlunarlínu og byggja á sömu hugmyndafræði og tónlistarverkefnið Stelpur rokka! Í smiðjunum verður tvinnað saman fræðslu um félagslegt réttlæti og skapandi valdeflingu ungmenna. Smiðjurnar fara fram í rokkbúðum f. 13-16 ára í júní nk. ásamt 10 vikna dagskrá haustið 2022 f. 10-17 ára. Þátttakendur hafa val um áherslusvið: kvikmyndagerð, raftónlistargerð og upptökustjórn, ljósmyndun og hlaðvarpsgerð.

Tónagull ehf – Kr. 3.100.000 – Fjölskyldueflandi tónlistarstund. Í samstarfi við Hafnarborg, Gerðuberg o.fl.

Verkefnið felst í því að stuðla að fjölskyldueflandi tónlistarstundum fyrir barnafjölskyldur sem hafa úkraínsku og pólsku að móðurmáli. Byggt er á íslenskri fyrirmynd að tónlistarstundum fyrir fjölskyldur sem kallast Tónagull og hafa verið í þróun síðan 2004. Reynsla er komin á pólska útfærslu Tónagulls þar sem unnið hefur verið með pólskan menningararf síðan 2019. Með þessu verkefni stendur til að gera það sama fyrir úkraínska menningarhefð í samstarfi við úkraínskumælandi tónlistarfólk.

Tónskáldafélag Íslands – kr. 600.000 – Ungt fjölmiðlafólk á Norrænum músíkdögum 2022

Námskeiðið Ungt fjölmiðlafólk hvetur ungt fólk til að móta sér skoðun á samtímatónlist og deila henni með öðrum. Námskeiðið kennir þeim gagnrýna hugsun og gildi hennar. Það er valdeflandi og sýnir ungu fólki að málefnaleg umræða skiptir máli og að raddir þeirra skipta máli.

ÞYKJÓ ehf – Kr. 5.800.000 – Sendum tónlist út í geim. Í samstarfi við Vísindasmiðju Háskóla Íslands, Hörpu tónlistarhús o.fl.

Sendum tónlist út í geim! er þverfaglegt þátttökuverkefni fyrir börn, innblásið af Gullplötunni Sounds of Earth sem var send út í geim árið 1977 af NASA. Hópur hönnuða, vísindamanna og tónlistarfólks býður nú börnum um land allt í ferðalag um óravíddir tónlistarinnar, sem teygja sig út í geim og aftur heim. ,,Eiga geimverur plötuspilara? Hafa þær enn þá áhuga á Beethoven og Chuck Berry? Þurfa geimverurnar kannski að fá nýja plötu frá nýrri kynslóð? Hvaða tóna vilja börn á Íslandi senda þeim?"

Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir – Kr. 1.100.000 – Tónatrítl. Í samstarfi við Dalvíkurbyggð, Minjasafnið á Akureyri, Safnahúsið á Húsavík o.fl.

Tónatrítl er hugljúf tónlistarstund ætluð börnum á aldrinum 0-5 ára og foreldrum þeirra. Um er að ræða 40-60 mínútna samverustund í söng, hreyfingu og dansi sem söngkonan og tónlistarkennarinn Ösp Eldjárn leiðir. Notast verður við íslenskar þulur og barnagælur sem og frumsamin lög og texta í bland við erlend, sem Ösp hefur þýtt og heimfært á íslenska vísu.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica