Framúrskarandi vettvangur skóla- og fræðslumála í Evrópu
Vefgátt skóla- og fræðslumála í Evrópu, School Education Gateway , var opnuð almenningi í febrúar 2015 og frá því í maí 2016 hafa rafræn námskeið fyrir kennara (Teacher Academy) verið þar í boði. Við formlega opnun vefgáttarinnar, sem fram fer 19. október nk., mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beina sjónum sínum að málefnum tengdum kennarastarfinu og horfa fram á við, með það að markmiði að skoða hvernig hægt er að gera vefgáttina að framúrskarandi vettvangi skóla- og fræðslumála í Evrópu.
Á opnunarráðstefnunni verður þjónusta vefgáttarinnar kynnt og fyrirhugaðar áætlanir um að þróa hana og bæta. Einnig verður lögð áhersla á þann ávinning sem hagsmunaaðilar skóla- og fræðslustofnana í Evrópu njóta í ljósi áskoranna sem þeir standa nú frammi fyrir, sem og stefnumál og forgangsatriði áætlunarinnar.
Tibor Navracsics, framkvæmdastjóri menntunar, menningar, æskulýðsmála og íþrótta flytur opnunarávarpið og í kjölfarið verða tvær pallborðsumræður. Í fyrri pallborðsumræðunni skoða gestafyrirlesarar hvernig úrræði vefgáttarinnar geta nýst til að takast á við áskoranir sem tengjast fjölbreytileika og námi án aðgreiningar.
Í síðari pallborðsumræðunni verður fjallað um hvernig hægt sé að styðja kennara í að þróa nýjar lausnir innan ramma faglegrar þróunar, og þá sér í lagi rafrænan stuðning fyrir starfsfólk í kennslu og fræðslu.
Lokaávarpið flytur Adam Tyson, frá framkvæmdastjórn mennta- og menningarmála.
Ráðstefnan er ætluð öllum hagsmunaaðilum skóla- og fræðslumála, innlendum sem og á evrópskum vettvangi. Það verður hægt að fylgjast með ráðstefnunni í beinni á netinu.