Gagnatorg Rannís opnar

29.3.2022

Í dag var Gagnatorgi Rannís hleypt af stokkunum, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunarmála opnaði Gagnatorgið formlega fyrir hönd Rannís. 

Þar má finna allar upplýsingar um umsóknir og úthlutanir úr þeim sjóðum sem Rannís hefur umsjón með, en stofnunin rekur um 30 sjóði á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Opnun Gagnatorgsins er því mikilvægt skref í þeirri þjónustu sem Rannís veitir, þar sem það tryggir enn betri upplýsingagjöf og gagnsæi í úthlutun úr opinberum sjóðum, en kallað hefur verið eftir betra aðgengi að gögnum sem verða til fyrir tilstilli opinberra samkeppnissjóða.

Á Gagnatorgi Rannís má finna ítarlegar upplýsingar um fjölda umsókna og úthlutanir einstakra sjóða, ár úthlutunar, umsækjendur og stuðningsupphæðir. Einnig verður hægt að fletta upp nánari upplýsingum um einstök verkefni í hnotskurn, þar sem nánari upplýsingar eru tiltækar.

Rannís hefur frá árinu 2009 þróað rafrænt umsóknarkerfi fyrir sjóði sem eru í umsýslu stofnunarinnar. Um er að ræða annars vegar helstu opinbera samkeppnissjóði og réttindasjóði á málefnasviðum Rannís og hins vegar upplýsingar um styrki úr alþjóðlegum samstarfsáætlunum sem Rannís hefur umsjón með. Allar umsóknir sem bárust fyrir þann tíma voru póstlagðar eða smeygt inn um bréfalúgu Rannís rétt áður en umsóknarfresti lauk.

Sjóðir í umsýslu Rannís ráðstafa opinberu fé, sem lagt er upp með sem hvatning til að efla þekkingu, nýsköpun og verðmætasköpun, menntun og menningu í landinu. Mikilvægt er að miðla upplýsingum um hvernig því fé er ráðstafað þannig að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um þau verkefni sem unnið er að. Stjórnvöld hafa á undanförnum árum markað stefnu í málaflokknum vísindi og tækni og er Gagnatorgið mikilvægt innlegg til að móta stefnu byggða á gögnum.

Það er ásetningur Rannís að vinna áfram að uppbyggingu grunnsins og byggja ofan á hann mælaborð fyrir stofnunina og ekki síst fyrir aðila utan hennar s.s. almenning, ráðuneyti, alþingismenn, fjölmiðlafólk, og aðra hagsmunahópa.

Heimsækið Gagnatorgið

Þetta vefsvæði byggir á Eplica