Hefring Marine hlýtur Nýsköpunarverðlaun Íslands 2025
Nýsköpunarverðlaun Íslands 2025 voru í dag veitt nýsköpunarfyrirtækinu Hefring Marine sem hefur þróað og markaðssett snjallsiglingakerfi sem nýtir rauntímagögn til að bæta öryggi, eldsneytisnýtingu og rekstur báta og smærri skipa.
Karl Birgir Björnsson, framkvæmdastjóri Hefring Marine og einn þriggja stofnenda, veitti verðlaununum viðtöku úr hendi Daða Má Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra á Nýsköpunarþingi sem haldið var í Grósku í dag.
Hefring Marine var stofnað árið 2018 og hefur á skömmum tíma náð umtalsverðum árangri á alþjóðlegum markaði. Upphaf starfseminnar má rekja til rannsókna á höggbylgjum og sjólagi í samhengi við siglingarhraða hraðskreiðra ferðaþjónustubáta. Þær rannsóknir urðu grunnurinn að þróun á IMAS® (Intelligent Marine Assistance System) snjallsiglingakerfi fyrirtækisins sem nýtir gervigreind og gögn frá ýmsum skynjurum og mælitækjum um borð í bátum og skipum til að birta skipsstjórnendum og flotastjórum rauntímaleiðsögn um fjölmarga þætti sem varða öryggi, eldsneytisnýtingu, viðhald og rekstur. Kerfið nýtist m.a. til að aðlaga siglingarhraða að aðstæðum og sjólagi og koma í veg fyrir högg sem geta valdið alvarlegum slysum, besta eldsneytisnotkun miðað við aðstæður, vakta búnað og fylgjast með bilanaskilaboðum, skilgreina siglingasvæði og ýmislegt annað sem nýtist skipsstjórnendum- og flotastjórum á hverjum tíma.
Félagið hefur tryggt öfluga hugverkavernd með einkaleyfum í Evrópu og Bandaríkjunum, þar á meðal fyrir aðferðir og kerfi til bylgjumælinga og greiningar á höggáhrifum. Vörumerkin IMAS og Hefring Marine hafa einnig verið skráð á helstu markaðssvæðum.
Starfsemi fyrirtækisins hefur vaxið hratt á undanförnum árum, með stöðugum tekjuvexti og fjölgun starfsmanna, einkum við rannsóknir og þróun. Fyrirtækið hefur skapað sér traust á erfiðum markaði og kerfi þess er nú notað af björgunaraðilum, sjóherjum, útgerðum, bátaframleiðendum og ferðaþjónustuaðilum um allan heim, þar á meðal í Noregi, Svíþjóð, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Ítalíu og á Íslandi.

Rökstuðningur dómnefndar
Dómnefndin telur Hefring Marine gott dæmi um hvernig íslensk tæknifyrirtæki geti haslað sér völl innan geira sem áður voru taldir utan sviðs hugverkaiðnaðar. Félagið er til fyrirmyndar í því hvernig nýta má fjölbreytt notkunargögn við þróun nýrrar tækni. Á grunni sérþekkingar á sviði bátasmíði og með rannsóknum og þróun sem upphaflega var ætlað að auka öryggi þátttakenda í hvalaskoðunarferðum hefur fyrirtækið þróað notendavænt snjallsiglingakerfi sem líkja má við snjallkerfi í nýjum bifreiðum. Kerfið nýtir gervigreind til að vinna úr mjög fjölbreyttum gögnum í rauntíma, frá ýmiss konar skynjurum og mælitækjum um borð í bátum og skipum, vélum, siglingatækjum og öðrum búnaði og breyta þeim í leiðbeinandi upplýsingar fyrir skips- og flotastjórnendur. Kerfið hefur mikið og augljóst hagnýtt gildi, það bætir öryggi, dregur úr eldsneytisnotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda og eflir þannig sjálfbærni í siglingum. Markhópur fyrirtækisins er vel skilgreindur og það hefur skapað sér traust á erfiðum og tiltölulega lokuðum markaði. Tekjur fyrirtækisins hafa aukist hratt á stuttum tíma og margir samningar eru í farvatninu. Framtíðarsýn þess er skýr og möguleikar á uppskölun mjög góðir. Þá hefur fyrirtækið tryggt mikilvæg hugverkaréttindi á alþjóðlegum vettvangi. Þetta gerir Hefring Marine að efnilegu fyrirmyndarfyrirtæki sem á alla möguleika á að tryggja sér alþjóðlega lykilstöðu innan síns geira.
Það er mat dómnefndarinnar að Hefring Marine sé verðugur handhafi Nýsköpunarverðlauna Íslands árið 2025.
Nýsköpunarverðlaun Íslands
Nýsköpunarverðlaunin Íslands eru veitt af Nýsköpunarsjóðnum Kríu, Íslandsstofu, Hugverkastofunni og Rannís til félaga sem skara fram úr í þróun nýrrar vöru eða þjónustu, sem byggð er á rannsóknar- og nýsköpunarstarfi og náð hefur árangri á markaði. Tilgangur verðlaunanna er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli rannsókna, hugvits og aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu.
Við val á verðlaunahafa er litið til þess hvort um er að ræða sprotafyrirtæki, hvort það sé byggt á nýrri tækni og hugmynd og hafi þekkingu og reynslu til að sinna framúrskarandi þróunarstarfi. Þá er lagt mat á virðisauka afurða og hvort fyrirtækið hafi náð árangri á markaði. Metið er hvort líkur séu á að fyrirtækið haldi velli og hvort stjórnun nýsköpunar sé til eftirbreytni. Að lokum er metið hvort fyrirtækið sé hvatning fyrir aðra að feta svipaðar brautir.
Verðlaunagripurinn er stytta af frjósemisgoðinu Frey eftir Hallstein Sigurðsson myndhöggvara.
Nánari upplýsingar veitir: Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu. hronn.greipsdottir@nyskopun.is, s. 894-2566


