Heimsókn Eistneska rannsóknaráðsins til Rannís
Hópur átta starfskrafta Eistneska rannsóknaráðsins (ETAG) kom í tveggja daga kynningar- og fræðsluheimsókn til Rannís á dögunum.
Markmið heimsóknarinnar var að efla samstarf og miðla reynslu milli stofnananna, sem báðar gegna lykilhlutverki í að styðja vísindi, rannsóknir og nýsköpun í sínum löndum.
Á meðan á dvölinni stóð fundaði hópurinn með sérfræðingum Rannís á rannsókna- og nýsköpunarsviði og greiningar- og hugbúnaðarsviði. Rætt var um helstu áskoranir sem báðar stofnanir standa frammi fyrir, gott verklag við meðhöndlun umsókna og hvernig hægt er að straumlínulaga umsóknar- og umsýsluferla. Umræður voru líflegar og gagnlegar og komu fram margar áhugaverðar hugmyndir um hvernig mætti bæta þjónustu við umsækjendur og auka skilvirkni í ferlum.
Gestirnir fengu einnig kynningu á starfsemi Rannís í víðara samhengi, hlutverki stofnunarinnar gagnvart vísindasamfélaginu og hvernig unnið er að því að styðja samstarf Íslands við alþjóðlegar rannsóknaráætlanir. Heimsóknin skapaði vettvang til að bera saman ólíkar nálganir og finna tækifæri til frekara samstarfs í framtíðinni.
Rannís þakkar fulltrúum ETAG kærlega fyrir komuna og innsæi þeirra í samtölum. Stofnunin hlakkar til áframhaldandi samskipta og mögulegs samstarfs sem getur styrkt tengsl og eflt rannsóknarumhverfið í báðum löndum.