Hornsteinn lagður að byggingu kínversk-íslensku rannsókna­stöðvarinnar um norðurljós

4.10.2016

Þann 10. október 2016 munu Illugi Gunnarsson, mennta- og menningar-málaráðherra og Sun Shuxian, aðstoðarráðherra Hafmálastofnunar Kína leggja hornstein að byggingu kínversk-íslensku rannsóknastöðvarinnar um norðurljós í Þingeyjarsveit. 

Athöfnin fer fram milli kl. 17 og 19 í húsnæði rannsóknastöðvarinnar á Kárhóli í Þingeyjarsveit. 

China-Iceland Joint Aurora Observatory (CIAO) er rannsóknamiðstöð fyrir vísindamenn sem rannsaka norðurljósin í alþjóðlegu samstarfi. Vísindalegt markmið þessa samstarfs er að efla skilning á samspili sólar og jarðar annars vegar og geimveðri hins vegar, með því að framkvæma athuganir í háloftum á heimskautasvæðum, t.d. á norðurljósum, breytileika í segulsviði og öðrum tengdum fyrirbærum.

Rannsóknamiðstöðin á Kárhóli er samstarfsverkefni íslenskra og kínverskra vísindastofnana. Þar verður fullkomin aðstaða fyrir vísindamenn til mælinga og athugana á norðurljósum ásamt gestastofu. Stöðin verður búin fullkomnum norðurljósamyndvélum, litrófsmælum, segulsviðsmælum og öðrum þeim búnaði sem nútíma rannsóknir á norðurljósum krefjast. 

Heimskautastofnun Kína (Polar Research Institute of China) leiðir samstarfið fyrir kínversku samstarfsaðilana.



Þær íslensku stofnanir sem koma að vísindastarfinu eru Rannís, Raunvísindastofnun Háskólans, Veðurstofa Íslands, Norðurslóðanet Íslands, Háskólinn á Akureyri og Arctic Portal.

Vísindaráð verður starfrækt sem mun halda utan um vísindastarfið.

Ísland er einn besti staðurinn á norðurhveli jarðar til að rannsaka norðurljós en Frakkar, Bretar og Japanir eru meðal þjóða sem stundað hafa rannsóknir hér á landi áratugum saman.

Starfsemi rannsóknamiðstöðvar á Kárhóli mun styrkja þær norðurslóðarannsóknir sem þegar eru stundaðar hér á landi og bæta við þær á sumum sviðum.


Fyrsta skóflustunga að rannsóknarstöðinni var tekin í júní 2014 og í framhaldinu hófst hönnun og annar undirbúningur framkvæmda. Arkitekt er Birgir Þröstur Jóhannsson og um tæknihönnun sá verkfræðistofan Mannvit. Jarðvegsvinna, þ.m.t. vegagerð var unnin á síðasta ári en bygging rannsóknarstöðvarinnar hófst sl. haust. Uppsteypu hússins lauk í ágúst sl. og er nú unnið við stálvirki og lokun hússins. Jarðverk ehf. hefur séð um jarðvinnu, SS Byggir ehf. um uppsteypu hússins og Útrás ehf. um vinnu við stálvirki. Gert er ráð fyrir að unnið verði að innanhússfrágangi í vetur og að stöðin verði tilbúin um mitt næsta ár. Heildarstærð byggingarinnar er 760 fermetrar að meðtalinni gestastofu og fyrirlestrarsal sem verða tekin í notkun síðar.  


Sjá nánar

Logo_Aurora









Þetta vefsvæði byggir á Eplica