Hvernig getum við eflt norrænan tungumálaskilning?

19.9.2023

Í gær, mánudaginn 18. september, hófst ráðstefna á vegum Nordplus. Norræn tungumál verða í brennidepli á ráðstefnu sem haldin verður á vegum Nordplus, menntaáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar, 18.-20. september í Hveragerði. Þar munu leiða saman hesta sína fulltrúar allra sem starfa að miðlun og kennslu norrænna tungumála, en einnig þau sem leggja áherslu á rannsóknir og eflingu opinberra minnihlutatungumála á Norðurlöndunum, og er markmiðið að koma á fót samstarfsverkefnum milli landanna.

Á ráðstefnunni verður fjallað um mögulegar leiðir til að efla og bæta skilning á norðurlandamálunum og efla samstarf á því sviði til þess að styðja og þróa nýjar aðferðir og auka gæði og nýsköpun í þeim verkefnum sem fjalla um skilning á Norðurlandamálum.

Hvernig er hægt að miðla og styðja við minnihlutatungumál á Norðurlöndunum?

Á ráðstefnunni verður sérstök áhersla á minnihlutatungumál, en frá og með árinu 2023 er Nordplus norræna tungumálaáætlunin einnig opin verkefnum sem vinna að miðlun og varðveislu á opinberum minnihlutatungumálum á Norðurlöndum. Þetta er því tækifæri til að miðla reynslu og hugmyndum á og kjörið tækifæri til að efla samvinnu í málaflokknum.

Markmiðið er að tengslaráðstefnan leiði til þess að skapa framtíðarverkefni á sviði norrænna tungumála og stuðla að blómstrandi tungumálalandslagi á Norðurlöndunum. Þessi spennandi viðburður, sem fer fram á skandinavísku, er skref í rétta átt til að tryggja að norræn tungumál haldi stöðu sinni og jafnframt að tryggja varðveislu opinberra minnihlutatungumála.

Þátttakendur verða um 60 talsins og koma t.d. frá frá háskólum, framhaldsskólum, grunnskólum, leikskólum, sveitarfélögum, félagasamtökum og rannsóknastofnunum frá öllum Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum til að styrkja tengslin á þessu sviði í Hveragerði.

Upplýsingar um viðburðinn og um Nordplus á Íslandi veitir:

Eydís Inga Valsdóttir er stjórnandi Nordplus norrænu tungumálaáætlunarinnar hjá Rannís

sími 778 9337, netfang: eydis@rannis.is

Upplýsingar um Nordplus norrænu tungumálaáætlunina hjá Rannís: www.rannis.is/sjodir/menntun/nordplus/nordplus-sprog-tungumal/









Þetta vefsvæði byggir á Eplica