Innviðasjóður vinnur að gerð Vegvísis um rannsóknarinnviði

13.1.2020

Í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs vinnur stjórn Innviðasjóðs að útgáfu Vegvísis um rannsóknarinnviði á Íslandi. Meginmarkmið vinnunnar er að móta framtíðarstefnu í uppbyggingu innviða til rannsókna á Íslandi og efla samstarf um nýtingu þeirra.

Vegvísar (Roadmaps) um rannsóknarinnviði hafa verið gefnir út í mörgum ríkjum Evrópu og má finna hlekki á norræna Vegvísa á vefsíðu Innviðasjóðs. Auk þess má finna á vef sjóðsins skýrsluna Drög að ferli vegvísis um rannsóknarinnviði og Úthlutunarstefnu Innviðasjóðs, sem liggja til grundvallar þeirri vinnu sem nú er unnin.

Meginmarkmið vinnunnar er að móta framtíðarstefnu í uppbyggingu innviða til rannsókna á Íslandi og efla samstarf um nýtingu þeirra. Á Vegvísi munu verða tilgreindir viðameiri rannsóknarinnviðir sem uppfylla kröfur um rannsóknarlegt mikilvægi og samfélagslegt gildi, og falla þannig inn í heildaruppbyggingu íslensks vísindaumhverfis. Vegvísaverkefnin munu marka stefnu um uppbyggingu til framtíðar. Áhersla er lögð á að aðgengi að innviðunum verði opið í samstarfi þvert á stofnanir, fyrirtæki og rannsóknarhópa. Þátttöku í erlendum innviðaverkefnum verður lýst þar sem við á, t.d. þátttöku í ESFRI verkefnum.

Árið 2020 verður hefðbundið umsóknarferli í Innviðasjóð líkt og verið hefur undanfarin ár. Að auki verður opnað fyrir umsóknir um Vegvísaverkefni á nýjan Vegvísi um rannsóknainnviði sem gefinn verður út í lok árs 2020. Árið 2021 verður síðan litið sérstaklega til Vegvísaverkefna við úthlutun stærri styrkja úr sjóðnum.

Stjórn Innviðasjóðs mun efna til samtals við væntanlega umsækjendur um Vegvísaverkefni í febrúar 2020. Málþingið verður öllum opið og þar verður Vegvísavinnan kynnt og rædd.

Frekari upplýsingar um vinnuna veitir Steinunn S. Jakobsdóttir.









Þetta vefsvæði byggir á Eplica