Sex verkefni valin á fyrsta íslenska vegvísinn um rannsóknarinnviði

19.1.2021

Stjórn Innviðasjóðs hefur tekið ákvörðun um hvaða innviðaverkefni hljóta sess á fyrsta íslenska vegvísinum um rannsóknarinnviði. Alls bárust 28 umsóknir og voru 6 innviðaverkefni valin á þennan fyrsta vegvísi um rannsóknarinnviði.

  • ING_19061_312770

Valin voru 6 verkefni sem talin voru skara framúr hvað varðar vísindalegan og faglegan styrk, breitt og vel skilgreint samstarf um innviðauppbyggingu, opið aðgengi að rannsóknarinnviðunum og skýra framtíðarsýn.

Stöðu á vegvísi fylgir ekki fjárúthlutun eða vilyrði sjóðsins um fjárúthlutun, en verkefnin munu að öðru jöfnu njóta forgangs við úthlutun úr sjóðnum næstu árin. Umsóknarfrestur um styrk úr sjóðnum verður 15. apríl næstkomandi og verður hann öllum opinn, þ.e. bæði fyrir verkefni á vegvísi og önnur verkefni.

Margar góðar umsóknir bárust sjóðnum. Uppbygging öflugs innviðasamstarfs hér á landi, eins og stefnt er að með vegvísinum, er langtímaverkefni og er hér um að ræða fyrstu útgáfuna. Í ljósi þess að stefnt er að uppfærslu vegvísis á allra næstu árum eru forsvarsmenn verkefna sem verða á þessum vegvísi, sem og verkefna sem ekki komust inn á hann, hvattir til að halda áfram að þróa verkefnin m.t.t. frekari uppbyggingar samstarfs um rannsóknarinnviðina, framtíðarsýnar og aðgengis. Íhuga má m.a. hvort einhverjar umsóknir eiga hugsanlega samleið með innviðum sem nú hlutu sess á vegvísinum. Einnig er hvatt til samtals við umsjónarmann sjóðsins við áframhaldandi vinnu.

Unnið er að útgáfu vegvísis á skýrsluformi þar sem verkefnin verða kynnt.

Á þennan fyrsta vegvísi voru valin eftirtalin 6 innviðaverkefni:

Heiti verkefnis Umsækjendur
Efnagreining 2020 – frá frumefnum til lífsameinda Háskóli Íslands, Raunvísindastofnun
EPOS Ísland Veðurstofa Íslands, ÍSOR, Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Raunvísindastofnun
Frá sameindum til sniðlækninga: heildstæð aðstaða fyrir nútíma lífvísindi Háskóli Íslands, ArcticLAS ehf., Háskólinn á Akureyri, Landspítali-háskólasjúkrahús, Tilraunastöðin að Keldum, Vísindagarðar Háskóla Íslands ehf.
Íslenskir rafrænir innviðir til stuðnings við rannsóknir (e. Icelandic Research e-Infrastructure Project) Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, ÍSOR, Matís, Veðurstofa Íslands
Efnisvísinda- og verkfræðisetur (e. Materials Science and Engineering Centre) Raunvísindastofnun, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Landsbókasafn -Háskólabókasafn, Listaháskóli Íslands, Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Ríkisútvarpið ohf., Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands

Upplýsingar eru birtar með fyrirvara um innsláttarvillur.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica