Kynning á fræðslu og ráðgjöf Miðstöðvar evrópskra tungumála
Fimmtudaginn 6. nóvember kl. 15:00-16:00 bjóða Rannís og Tungumálamiðstöð HÍ til kynningar á námskeiðum, vinnustofum og ráðgjöf á vegum Miðstöðvar evrópskra tungumála (European Centre for Modern Languages - ECML).
Miðstöð evrópskra tungumála hefur opnað fyrir umsóknir fyrir Training and Consultancy (TaC) sem eru fræðsluviðburðir og vinnustofur fyrir tungumálakennara og er umsóknarfrestur til 14. nóvember. Sjá nánar á vefsíðu ECML.
Kynningarfundurinn verður haldinn á Heimasvæði tungumála í Veröld - húsi Vigdísar (2. hæð) fimmtudaginn 6. nóvember kl. 15:00-16:00, en þar munu Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar HÍ og Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs Rannís, kynna tækifæri á vegum Miðstöðvar evrópskra tungumála.
European Centre for Modern Languages er stofnun á vegum Evrópuráðsins. Miðstöðin er í Graz í Austurríki og hlutverk hennar er að styðja við tungumálanám og -kennslu í aðildarlöndunum.
Aðildarlönd ECML geta sótt um að fá fræðslu fyrir sérfræðinga á sviði tungumálamenntunar sem löguð er að raunverulegum þörfum og sérstökum aðstæðum í hverju landi. Þannig miðlar ECML þeirri sérfræðiþekkingu sem hefur verið þróuð í verkefnum miðstöðvarinnar beint til aðildarríkjanna.
Sérfræðingar ECML starfa í nánu samstarfi við innlend stjórnvöld og sérfræðinga við mótun og framkvæmd fræðslunnar innan hvers lands svo hægt sé að sníða fræðsluna sérstaklega að þörfum viðkomandi markhóps.

            